Greinar
aðalstöðvar ECMWF
Aðalstöðvar ECMWF í Reading, skammt vestur af London.

Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, ECMWF

Ísland varð fullgildur aðili 2011

Veðurstofa Íslands 9.3.2011

Ísland varð fullgildur aðili að ECMWF, Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, 9. mars 2011 eftir að hafa verið aukaaðili frá því seint á 8. áratug síðustu aldar.

Sagan

Reiknimiðstöðin á rætur sínar að rekja til ákvörðunar framkvæmdastjórnar Evrópubandalagins árið 1967 um að efla samvinnu þeirra sex ríkja sem þá voru í bandalaginu á sviði tækni og vísinda - og þá einnig veðurfræði. Á vegum þessa samstarfsvettvangs kom fljótlega upp sú hugmynd að stofna reiknimiðstöð fyrir veðurspáþjónustu og rannsóknir.

Veðurfræðingar vildu að þessi stofnun myndi þjóna sem flestum veðurstofum í Evrópu, ekki bara þeim ríkjum sem þá voru í Evrópubandalaginu. Árið 1973 skrifuðu 16 Evrópuríki undir stofnsáttmála reiknimiðstöðvarinnar, sem tók til starfa tveimur árum síðar.

Í upphafi miðaðist hlutverk reiknimiðstöðvarinnar við að gera veðurspár 3 til 10 daga fram í tímann, en slíkar spár eru sagðar meðaldrægar (e. medium range) og var miðstöðin því nefnd European Centre for Medium Range Weather Forecasts, skammstafað ECMWF.

Nútíðin

Núorðið eru 34 þjóðir aðilar eða aukaaðilar að stofnuninni, sem sinnir margskonar veðurspám og miðlar þeim til veðurstofa aðildarríkja. Stofnunin hefur fyrir nokkru vaxið upp úr meðaldræga hlutverkinu og sinnir m.a. hnattrænum spám um veður næstu daga, næstu vikna og mánaða, og einnig spám um þróun sjávarhita í Kyrrahafinu (El Nino spár). Í alþjóðlegum samanburði á gæðum veðurspáa skarar ECMWF fram úr keppinautum.

Áreiðanleiki ECMWF í hnattrænum veðurspám gerir það að verkum að hún er eftirsóttur samstarfsaðili meðal alþjóðastofnanna, s.s. Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO), Evrópskra stofnanna á sviði veðurtungla (ESA og EUMETSAT) auk stofnanna sem sinna eftirliti með loftmengun, kjarnorkuvá og þróunarhjálp.

Á vef reiknimiðstöðvarinnar er tengill á kynningarmyndband á ensku þar sem fjallað er um hlutverk ECMWF í dag.

Dagleg notkun

Veðurstofur flestra aðildarþjóða nota spár ECMWF í rekstri sínum, gjarnan með því að nota reikniniðurstöður líkana ECMWF sem innlagsgögn fyrir veðurspárlíkön með þéttu reiknineti.

Á Íslandi eru reikniniðurstöður ECMWF notaðar á þennan hátt (sem hluti af samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands og Reiknistofu í Veðurfræði) og einnig eru þær notaðar víða í spákerfum Veðurstofunnar. Spár ECMWF liggja t.d. til grundvallar fyrir veðurspár á Atlantshafi, fyrir flugþjónustu allt að norðurpólnum og margar textaspár sem Veðurstofan gefur út. Á vefnum vedur.is má víða sjá neðanmálstilkynningar um að gögnin byggist á útreikningum líkans frá ECMWF.

Rannsóknir

Framlag ECMWF til rannsókna hefur reynst ómetanlegt. Áratugum saman hafa rannsóknir vísindamanna stofnunarinnar á því hvernig bæta megi veðurspár skilað sér í þekkingu sem allar veðurstofur nýta sér. Flestir jarðarbúar njóta því ávaxta af rannsóknum þeirra. Einnig má nefna þátttöku stofnunarinar í þróun hnattrænna lofthjúpsgreininga. Slík greining felst í útreikningum þar sem allar mælingar á nokkurra klukkutíma bili eru notaðar til að gera augnabliksmynd af ástandi lofthjúpsins. Þessi augnabliksmynd er svo notuð sem upphafsgildi í veðurspárlíkan, einskonar byrjunarstaða sem þróun veðurs næstu daga er reiknuð frá.

ECMWF hefur verið í fararbroddi á þessu sviði, og á vegum sérstakra greiningaverkefna veitir stofnunin vísindasamfélaginu aðgang að gögnum um veður hvar sem er á jörðinni, fjórum sinnum á sólarhring fyrir síðari hluta 20. aldar. Þessi gögn eru notuð á mörgum ólíkum fræðasviðum innan náttúruvísindanna og eru mikilvæg til að fylgjast með umhverfisbreytingum á jörðinni.

Á Íslandi hafa þessi gögn verið notuð til að meta ákomubreytingar á jöklum, breytingar á úrkomu, hita og auk þess sem þau hafa verið notuð sem innlags eða jaðargögn fyrir veður-, hafís- og hafhringrásarlíkön.

Aðild Íslands að ECMWF

ECMWF rekur gagnaver og öflugt kerfi af ofurtölvum. Með fullri aðild Íslands að ECMWF mun Veðurstofan fá aðgengi að reikniafli stofnunarinnar sem mun væntalega skila sér í bættum veðurspám.

Spákort
Dæmi um kort frá ECMWF sem notað er af veðurfræðingi á vakt til að gera veðurspá. Kortið sýnir loftþrýsting við sjávarmál, úrkomu og hita í fjallatindahæð (þ.e. í 850hPa sem er í 1200 - 1600 m hæð). Þessi spá gildir fyrir miðvikudaginn 9. mars 2011 (hádegi) en þá er undirritaður samningur þess efnis að Ísland er fullgildur aðili að Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, ECMWF.
Samningur fullgiltur
Dominique Marbouty, forstjóri ECMWF, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, að lokinni undirritun samnings um fullgilda aðild Íslands að ECMWF, Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.
Viðhöfn
Undirritun aðildar Íslands að ECMWF, Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, hinn 9. mars 2011 í Þjóðmenningarhúsinu. Í forgrunni sitja Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Dominique Marbouty, forstjóri ECMWF. Í baksýn má sjá fulltrúa Veðurstofunnar og umhverfisráðuneytisins, auk annarra gesta. Ljósmynd: Guðmundur Hörður Guðmundsson.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica