Fréttir
ísgljúfur - bláir skuggar göngumanna
Á Eyjafjallajökli í nóvember 2010.

Tíðarfar í nóvember 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

1.12.2010

Fremur kalt var með köflum og fyrir miðjan mánuð varð óvenju snjóþungt víða um landið norðaustanvert. Á Suðvestur- og Vesturlandi var mánuðurinn með þurrara móti og þar var snjólétt.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 0,6 stig og er það 0,6 stigum undir meðallagi áranna 1961-1990. Að tiltölu er þetta kaldasti mánuður í Reykjavík síðan í október 2008 en um margra ára skeið hafa hlýir mánuðir verið miklu fleiri en þeir köldu. Á Akureyri var meðalhitinn -1,5 stig og er það 1,1 stigi undir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,6 stig og er það 0,4 stigum undir meðallagi. Hita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 0,6 -0,6 98 140
Stykkishólmur 0,5 -0,4 105 166
Bolungarvík 0,6 -0,3 73 114
Akureyri -1,5 -1,1 101 129
Egilsstaðir -1,0 -0,3 37 61
Dalatangi 2,4 0,6 40 73
Höfn í Hornaf. 1,6 -0,4
Stórhöfði 2,5 0,1 79 134
Hveravellir -5,0 -0,2 29 46

Hæstur hiti í mánuðinum mældist í Skaftafelli þann 1., 12,4 stig, en lægstur í Möðrudal, -23,2 stig þann 28. Hæstur hiti á mannaðri stöð mældist á Höfn í Hornafirði, 11,0 stig þann 2. Lægstur hiti á mannaðri stöð mældist á Torfum í Eyjafjarðarsveit þann 15., -17,5 stig.

Hæsti meðalhiti í nóvember var í Surtsey, 3,8 stig, en lægsti meðalhiti á Brúarjökli, -7,2 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal og Svartárkoti, -5,0 stig.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 37,8 mm og er það aðeins rúmur helmingur meðalúrkomu. Mun meiri úrkoma var á Norður- og Austurlandi. Á Akureyri varð mánaðarúrkoman 90,2 mm og er það nærri 70% umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 212,3 mm, það er einnig vel yfir meðallagi.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir mældust 73,6 í Reykjavík, 35 stundum umfram meðallag og hafa ekki verið fleiri þar í nóvember síðan árið 2000. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 27. Ekki hafa jafnmargar sólskinsstundir mælst á Akureyri í nóvember síðan 1937, en 1985 og 1990 var sólskin litlu minna en nú. Sólin hverfur nú á Akureyri, mestallur desember er þar alveg sólarlaus, meðalfjöldi sólskinsstunda á Akureyri í desember er 0,1 stund (um 10 mínútur).

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði var undir meðallagi á landinu í heild. Loftþrýstingur var 6,8 hPa yfir meðallagi í Reykjavík og hefur ekki verið svo hár í nóvember síðan 1995.

Snjór

Mikill snjór var á Akureyri. Þar var alhvítt í 28 daga eða 10 daga yfir meðallagi, mest snjódýpt þar mældist 62 cm þann 14. Í Reykjavík voru alhvítu dagarnir aðeins 3, þremur dögum færri en í meðalári.

Haustið (október og nóvember)

Hiti í Reykjavík var 0,7 stigum ofan meðallags, en 0,1 stig ofan þess á Akureyri. Mjög þurrt var í Reykjavík og var úrkoma aðeins um helmingur meðalúrkomu. Svo þurrt haust hefur ekki komið í Reykjavík síðan 1995 og er það þriðja þurrasta frá upphafi samfelldra úrkomumælinga þar 1920. Úrkomusamt var á Akureyri og var úrkoman 30% umfram meðallag,

Fyrstu 11 mánuðir ársins

Mjög hlýtt hefur verið á landinu, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi. Meðalhiti í Reykjavík er 6,38°C og vantar aðeins 0,2 stig til að ná 11-mánaða methitanum frá 2003. Árshitamet er enn mögulegt, en telst á þessari stundu ólíklegt. Skammt fyrir neðan eru svo árin 1939 til 1941 - ómarktækt lægri.

Í Stykkishólmi er staðan svona:

ár janúar til nóvember
2003 5,90°C
2010 5,76
1939 5,57
1941 5,47
2004 5,46
1964 5,40
1945 5,31
1946 5,26
1960 5,24
1933 5,21


Tiltölulega hlýtt var í desember 1939 og 1941 þannig að baráttan við þessi ár um efstu sætin verður nokkuð erfið í desember nú.

Loftþrýstingur er enn óvenju hár og hefur fyrstu 11 mánuðina ekki verið jafnhár síðan á sama tímabili 1888; 1965 og 1941 eru þó ekki langt undan.

Eyjafjallajökull í ljósaskiptunum
gullnir geislar á jökli
Horft norður yfir Eyjafjallajökul og toppgíginn yfir að Tindfjöllum og Heklu í ljósaskiptunum 28. nóvember 2010 kl. 14:51. Sprungan, sem myndaðist við gosið og úr kom hlaup í Svaðbælisá, sést til vinstri. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson í Forsæti III.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica