Enn ein staðfesting methita
Greining Evrópsku veðurspáreiknimiðstöðvarinnar ECMWF* staðfestir methita
Í samræmi við umfjöllun fjölmiðla um hitabylgjur og neikvæðar afleiðingar af þeirra völdum, benda nýjustu niðurstöður ERA-Interim endurgreiningarinnar til þess að meðalhiti landsvæða á norðurhveli jarðar utan hitabeltisins hafi slegið met í júlí 2010. Maí og júní 2010 voru einnig óvenjulega heitir eins og sjá má á mynd 1. [Eftirfarandi er þýðing á frétt sem birtist á vef reiknimiðstöðvarinnar 16. ágúst 2010.]
Hiti er ekki sá sami frá einu ári til annars vegna náttúrulegs breytileika í lofthjúpi jarðar. Hann getur einnig lækkað um nokkurra missera skeið vegna agna sem berast upp í andrúmsloftið frá eldgosum eins og t.d. gosinu í Pinatubo á Filippseyjum í júní 1991. Ekki er unnt að rekja einstakar hitabylgjur til langtímabreytinga á veðurfari en tólf mánaða meðalhiti á mynd 2 sýnir skýrt óreglulegar hitabreytingar á milli ára en í bakgrunni hæga hlýnun sem árlegi hitinn sveiflast um.
Samkvæmt ERA greiningunni er meðalhiti jarðarinnar síðustu 12 mánuði, til og með júní 2010, sá næsthæsti frá upphafi tímaraðarinnar sem sýnd er á mynd 2. Hann er svolítið lægri en meðalhiti ársins 2005 en munurinn er þó ekki marktækur. Meðalhitinn lækkar lítillega undir lok raðarinnar vegna nýlegra breytinga á hafstraumum í suðaustanverðu Kyrrahafi (La Nina) og fremur lágs hita á landsvæðum hitabeltis og suðurhvels. Þessar breytingar koma á móti hlýindum á landsvæðum norðurhvels (mynd 1) þannig að meðalhiti jarðarinnar allrar lækkar svolítið, þó landsvæði norðurhvels hafi hlýnað á sama tíma.
Endurgreining veðurathugana með aðferðum sem þróaðar hafa verið til þess að reikna veðurspár er mikilvæg til samanburðar við hefðbundnar raðir mánaðameðaltala til þess að greina breytingar og breytileika í veðurfari. Niðurstöður ERA-40 endurgreiningar voru bornar saman við niðurstöður sem byggja beint á mæligögnum frá veðurstöðvum í grein sem birtist á síðasta ári í tímaritinu Journal of Geophysical Research (doi:10.1029/2009JD012442). Rannsóknirnar sem þar birtust og hér er lýst voru unnar í samstarfi Bresku veðurstofunnar og Climatic Research Unit við Háskólann í Austur Anglíu.
* Evrópska veðurspáreiknimiðstöðin ECMWF (The European Centre for Medium-Range Weather Forecasts) er samstarf Evrópuþjóða um reikninga á miðdrægum veðurspám, frá dögum upp í mánuð. Veðurlíkan miðstöðvarinnar telst það besta í hópi hnattrænna veðurlíkana. Háupplausnarveðurspár á Veðurstofu Íslands byggja á niðurstöðum frá miðstöðinni.
Hvað er ERA-40 og ERA-Interim?
ERA stendur fyrir ECMWF Re-Analysis sem á íslensku má þýða: Endurgreining Evrópsku veðurspáreiknimiðstöðvarinnar. [Eftirfarandi útskýring er rituð af starfsmönnum Veðurstofunnar.]
Reiknimiðstöðin hefur frá stofnun, 1979, greint ástand lofthjúpsins með líkönum sínum í þeim tilgangi að ræsa veðurspákeyrslur. Líkönin hafa orðið nákvæmari eftir því sem tímar hafa liðið og er mikill gæðamunur á nýjum og eldri líkönum. Hægt er að nota nýrri gerðir líkana til þess að greina eldri veðurgögn á mun nákvæmari hátt en gert var þegar upprunalega greiningin var unnin til þess að reikna veðurspár þess tíma.
ERA-40 og ERA-Interim eru nöfn á ákveðnum endurgreiningarverkefnum þar sem notast er við nútíma gagnahermun og nýjustu kynslóð veðurlíkana til þess að endurgreina ástand andrúmsloftsins fyrir lengri tímabil. Hinar hefðbundnu greiningar (operational analysis = rekstargreiningar) voru hins vegar gerðar með þeirri gagnahermun og veðurlíkani sem voru í notkun til veðurspáreikninga hverju sinni. Þetta hefur í för með sér að breytingar verða á greiningum þegar gagnahermun eða veðurlíkan eru uppfærð.
Tilgangurinn með endurgreiningu er ekki tengdur veðurspám heldur er markmiðið að meta helstu stærðir sem lýsa ástandi andrúmsloftsins á hverjum tíma (hita, raka, þrýsting, vind o.s.frv.) þannig að það sé í sem bestu samræmi við margs konar tiltækar mælingar. Endurgreiningar gefa því bæði samræmdari og áræðanlegri gagnaraðir en hefðbundnar greiningar og eru mjög mikilvægt framlag til margs konar veðurfarsrannsókna.
Niðurstöður endurgreiningar fyrir tiltekna mælistærð, t.d. yfirborðshita, á ákveðnum stað eru frábrugðnar hefðbundnum mælingum á sömu stærð frá veðurstöð á sama stað að því leyti þær byggjast ekki nema að litlu leyti á eiginlegum mælingum á viðkomandi mælistærð. Niðurstöður endurgreiningarinnar fyrir ákveðna mælistærð eru leiddar af öllum tiltækum mælingum á mörgum mælistærðum á stóru svæði, m.a. athugunum frá loftbelgjum sem látnir eru svífa upp í gegnum lofthjúpinn, ýmsum athugunum frá gervihnöttum á síðustu áratugum og m.a.s. mælingum frá GPS-gervihnöttum á síðustu árum. Niðurstöður endurgreiningar eru því að vissu leyti óháð "mæling" á viðkomandi breytistærð með allt annarri aðferð en hefðbundnar veðurathuganir og ekki háðar sömu óvissuþáttum og hefðbundnu mælingarnar. Ályktanir sem studdar eru bæði niðurstöðum hefðbundinna veðurathugana og endurgreiningar verða því að teljast miklu traustari en ef aðeins hefðbundnar veðurathuganir væru tiltækar.
ERA-40 endurgreiningunni var lokið 2003 og hún nær yfir 45 ára tímabil, frá september 1957 til ágúst 2002. Gagnahermunin var þrívíð og net líkansins með um það bil 125 km möskvastærð og 60 lóðréttum flötum.
ERA-Interim endurgreingin nær yfir tímabilið frá 1. janúar 1989 fram að nær-nútíð. Hún notast við fjórvíða gagnahermun, eins og nú er notuð í flestum veðurlíkunum, möskvastærðin er um það bil 80 km og lóðréttir fletir 60 talsins. Ýmsar aðrar endurbætur hafa verið gerðar á gagnahermun og notkun veðurathuguna, einkum gagna frá veðurtunglum.
Meiri upplýsingar um ERA-40 er að finna í fréttablaði ECMWF og um ERA-Interim í síðara tölublaði sama fréttablaðs (pdf skjöl um 7 Mb að stærð).