Jarðskjálftar í maí 2010
Hátt í 1.900 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL mælikerfi Veðurstofunnar í maí. Helsta skjálftavirknin var undir Eyjafjallajökli og í Tjörnesbrotabeltinu.
Skjálftar mældust af og til undir Reykjaneshrygg, alls um 70 og flestir við Eldey. Stærsti skjálftinn var 3,2 stig, staðsettur við Geirfuglasker 7. maí. Nokkrir tugir smáskjálftar mældust á Reykjanesskaga, flestir við Kleifarvatn.
Á Suðurlandi voru flestir skjálftar í maí staðsettir við Raufarhólshelli í Ölfusi. Þar mældust á annað hundrað skjálftar síðustu daga mánaðarins, flestir 31. maí eða um 60. Stærsti skjálftinn, 3,0 stig, fannst í Hveragerði. Viðvarandi virkni var á suðurhluta Krosssprungunnar, flestir skjálftar eða 40 talsins 1. maí. Þann 21. maí varð skjálfti undir Vörðufelli í Biskupstungum sem var tæplega þrjú stig. Hann fannst m.a. í Laugarási og á Selfossi. Nokkrir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Stuttu síðar varð jarðskjálfti fimm kílómetrum norðvestan við Hveragerði. Hann var litlu minni en sá við Vörðufell og fannst m.a. í Hveragerði og nágrenni. Nokkrir skjálftar mældust á víð og dreif í vestara gosbeltinu.
Skjálftar mældust undir eldstöðinni í Eyjafjallajökli allan mánuðinn, stundum í hrinum. Alls mældust um 350 skjálftar. Þann 3. maí mældust skjálftar á um 20 kílómetra dýpi, en daginn eftir grynnri skjálftar. Í kjölfarið jókst gosvirkni um tíma í toppgíg Eyjafjallajökuls og gosmökkurinn hækkaði. Talið er að nýtt kvikuinnskot hafi komið úr möttlinum upp í jarðskorpuna undir jöklinum og að það hafi jafnvel aukið þrýstinginn í núverandi kvikurás. Þann 10. maí hófst aftur hrina djúpra skjálfta, um 90 talsins, og um 50 í hrinu um miðjan mánuðinn. Stærstu skjálftarnir voru um 2,5 stig. Í kringum 24. maí dró verulega úr gosvirkni í eldfjallinu og hefur hún legið niðri síðan.
Yfir 20 skjálftar mældust í vestanverðum Mýrdalsjökli í maí og einn í Kötluöskju í lok mánaðarins. Nokkrir skjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu. Þann 11. maí mældust tveir skjálftar við Bjarnarey norðaustan við Vestmannaeyjar. Upptök þessara skjálfta má rekja til mikils grjóthruns úr norðvesturhorni Bjarnareyjar. Þeir voru einn og 1,5 að stærð og aðeins tæplega þrjár sekúndur á milli þeirra. Líklega hefur fyrst hrunið undan bjarginu en síðan hafa stærri brot fallið á það sem fyrir var og ollið stærri skjálfta.
Í Vatnajökli mældust um 100 skjálftar. Stærsti var norðaustan í Bárðarbungu, 2,9 stig. Mesta virknin var norðaustan í Bárðarbungu, við Kistufell og á Lokahrygg. Nokkrir skjálftar mældust undir Breiðamerkurjökli. Á Öskju- og Herðubreiðarsvæðinu mældust einnig um hundrað skjálftar. Mest var um að vera við Öskju og norðan Upptyppinga, um þrjátíu skjálftar á hvorum staðnum, stærstu rúmlega tvö stig.
Úti fyrir Norðurlandi mældust hátt í 700 skjálftar. Smáhrina, með um 50 skjálfta, varð 19. - 20. maí úti fyrir mynni Eyjafjarðar. Stærsti skjálftinn, 3,9 stig, fannst m.a. á Siglufirði og Ólafsfirði. Mesti fjöldi skjálfta var þó við Grímsey. Um 150 skjálftar mældust um miðjan mánuðinn austur og norðaustur af Grímsey. Og í lok mánaðarins var skjálftahrina á svipuðum slóðum með hátt í tvö hundruð skjálfta.