Fréttir

Hafís undanfarna þrjá mánuði

Mánaðaryfirlit febrúar, janúar og desember

16.3.2010

Hafís í febrúar

Landhelgisgæslan fór í eitt ískönnunarflug í mánuðinum, þann 10. febrúar. Sama dag barst tilkynning frá skipi. Hafísröndin var þá næst landi um 59 sml frá Straumnesvita. Engar upplýsingar voru gefnar út af Veðurstofunni í mánuðinum, enda var hafísinn tiltölulega fjarri landi. Austan- og norðaustanátt var ríkjandi á Grænlandssundi.

Hafís í janúar

Landhelgisgæslan fór sex sinnum í ískönnunarflug í mánuðinum. Það fyrsta var 6. janúar en síðan 3. janúar hafði ísinn verið að þokast nær landi. Ískönnunarflugið leiddi í ljós að ísröndin var næst landi 18 sml NV af Barðanum, 20 sml NV af Straumnesi og 22 sml NA af Horni. Um þéttan ís var að ræða eða 7-10/10. Gisnari ístotur lágu út frá aðal ísröndinni eða um 4-6/10. Ísröndin færðist nokkuð hratt nær landi en suðvestan- og sunnanátt var ríkjandi á svæðinu á þessum tíma. Þann 7. janúar sendi Veðurstofan frá sér viðvörun þar sem varað var við að siglingaleiðinni frá Barða og norður að Straumnesi gæti verið ógnað vegna hafíss. Hafísröndin færðist hins vegar ekki mikið nær vestanverðum Vestfjörðum en líklega hefur verið um nýmyndun að ræða og ísinn því bráðnað. Ístunga færðist hins vegar norður fyrir Horn og í austur átt. Þann 8. var ísinn næst landi um 27 sml norður af Horni.

Í ískönnunarflugi LHG 10. janúar var ísröndin næst landi 53 sml VNV af Barða, 25 sml NV af Straumnesi og 26 sml NNV af Horni. Ísinn var samfrosinn en sjá mátti vakir fyrir innan hann. Hafísröndin þokaðist austur á bóginn þegar leið á vikuna og í ískönnunarflugi þann 16. var hafísröndin næst landi 17,5 sml A af Horni, 12,5 sml N af Drangaskeri og 16 sml NNA af Þaralátursnesi. Ísinn var u.þ.b. 7-9/10 að þéttleika þar sem ísröndin var og stöku jakar voru um 1-2 sml út frá henni.

Þann 17. náðu tvær ísspangir að landi á svæðinu frá Óðinsboða og önnur út af Smiðjuvík um eftirfarandi punkta: 66°23N - 21°59V og 66°25N - 22°11V. Mælst var gegn ferðum á svæðinu nema í björtu.

Í ískönnunarflugi þann 18. sást að ísspangirnar fóru minnkandi og höfðu fjarlægst. Hafísinn var þá næstur landi um 8,5 sml frá Geirólfsgnúpi. LHG fór í ískönnunarflug 19. og 20. janúar og fór ísinn minnkandi og fjarlægðist hratt. Þann 20. var ísröndin næst landi 50 sml NV af Straumnesi, 54 sml NV frá Barða og 67 sml NV frá Látrabjargi. Dreifður ís sást þá á gervihnattamyndum N af Húnaflóa og var næst landi um 17 sml N af Horni.

Um viku eftir að hafísinn fjarlægðist mjög landið, eða þann 27. janúar, kom ísbjörn á land í Þistilfirði. Var það mun austar en sá hafís sem hafði sést á gervihnattamyndum eða í ískönnunarflugi. Til viðbótar við ískönnunarflug LHG komu rúmlega 20 tilkynningar frá skipum, þrjár frá landi og Veðurstofan sendi út upplýsingar 15 sinnum. Vestlægar áttir voru ríkjandi á Grænlandssundi fyrri hluta janúar en austlægar áttir síðari hluta mánaðarins.

Hafís í desember 2009

Tvær tilkynningar bárust í mánuðinum, þann 18.desember. Báðar voru þær um ísspöng sem var um 50 sml norðvestur af Barða og rak í suðurátt. Þar sem búist var við norðanátt á svæðinu dagana á eftir var líklegt að ísspöngina ræki áfram til suðurs. Veðurstofan setti upplýsingar um það á vefinn og bað sjófarendur um að fara að öllu með gát. Landhelgisgæslan fór ekki í ískönnunarflug í mánuðinum og hafísinn á Grænlandssundi þokaðist heldur í austurátt.

Á Grænlandssundi var austan og norðaustanátt ríkjandi fyrri hluta mánaðarins. Norðan og norðaustanátt var 19. til 29. desember en síðustu tvo daga ársins var hæg vestlæg átt.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica