Fréttir
Skýjafar
Skýjafar í Húsafelli 23. janúar.

Tíðarfar í janúar 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

1.2.2010

Kalt var í upphafi mánaðarins, en síðan voru lengst af óvenjuleg hlýindi. Sérlega hægviðrasamt var í mánuðinum. Um norðanvert landið var úrkoma með allra minnsta móti og snjólétt var þótt nokkrar snjófyrningar hafi verið á þeim slóðum fram eftir mánuðinum, en þar var víða óvenjusnjóþungt í desember.

Hiti var ofan meðallags á öllu landinu. Hlýjast var að tiltölu um landið vestan- og norðvestanvert þar sem hiti var meir en 3 stig ofan meðallags. Kaldast að tiltölu var á Suðausturlandi þar sem hiti var um 1 stigi ofan meðallags. Í öðrum landshlutum var meðalhitinn 2 til 3 stig ofan meðallagsins.

Meðalhiti í Reykjavík var 2,4 stig og er það 3 stigum ofan meðallags. Þetta er níundi hlýjasti janúar frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík. Á Akureyri var meðalhitinn 0,1 stig sem er 2,2 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,1 stig, einu stigi ofan meðallags. Á Hveravöllum mældist meðalhitinn -2,9 stig, 3,7 stigum ofan meðallags. Meðaltal fleiri stöðva má sjá í töflu.

Meðalhiti í janúar 2010 og vik frá meðaltalinu 1961-1990.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 2,4 3,0 9 140
Stykkishólmur 2,1 3,4 9 165
Bolungarvík 2,0 3,2 9 113
Akureyri 0,1 2,2 25 129
Egilsstaðir -0,4 2,0 17 61
Dalatangi 2,5 2,2 19 72
Höfn í Hornaf. 1,1 1,0
Stórhöfði 3,7 2,4 7 114
Hveravellir -2,9 3,7 4 45


Hæsti hiti mánaðarins mældist á sjálfvirku stöðinni á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, 17,6 stig þann 25. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist einnig á Skjaldþingsstöðum sama dag, 16,9 stig.

Lægsti hiti í mánuðinum mældist á Brúarjökli þann 5. -26,6 stig. Í byggð mældist lægsti hitinn við Mývatn 2. jan., -24,1 stig. Lægstur hiti á mannaðri stöð mældist sama dag á Grímsstöðum á Fjöllum, -23,1 stig.

Hlýindin síðari hluta mánaðarins voru óvenjuleg að því leyti að hiti fór ekki niður fyrir frostmark í Reykjavík 21 dag í röð, frá og með 8. til og með 28. Þetta er lengsta samfellda janúarhláka í Reykjavík allt frá því að samfelldar lágmarksmælingar hófust 1920. Hlákan nú var einum degi lengri á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, en þar hafa hlákukaflar í janúar orðið lengri. Á Akureyri stóð hlákan í 11 daga, jafnlengi og lengsta janúarhlákan til þessa síðan 1949. Sú gekk hjá í janúar 2001.

Úrkoma og sólskinsstundir

Úrkoman í Reykjavík mældist 90,6 mm, eða um 20% umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman aðeins 0,8 mm og hefur aldrei mælst jafnlítil þar í janúar frá því að samfelldar úrkomumælingar hófust 1927. Þurrasti janúar til þessa á Akureyri var 1963, en þá mældist úrkoman 4,3 mm. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 143 mm og er það um 10% umfram meðallag.

Í Reykjavík mældust 36 sólskinsstundir, 9 umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 13, eða 6 stundir umfram meðallag.

Úrkoma var óvenjulítil um landið norðanvert, allt frá norðanverðum Vestfjörðum, austur um til Vopnafjarðar. Fyrir utan Akureyri voru sett þurrkmet á fjölmörgum stöðvum þar sem athugað hefur verið í 10 til 30 ár. Met voru einnig sett á stöðvum þar sem mælt hefur verið í 40 til 50 ár eða meira. Í þeim flokki má nefna Hraun á Skaga, en þar hefur verið mælt frá 1956, Mýri í Bárðardal (frá 1957) og Mánárbakka/Máná (frá 1957). Líklega var einnig sett met á Grímsstöðum á Fjöllum þar sem úrkoma hefur verið mæld frá 1925. Áður en úrkomumælingar hófust á Akureyri var mælt á Möðruvöllum í Hörgárdal. Þær mælingar eru ekki fyllilega samanburðarhæfar við síðari mælingar á Akureyri, en minnsta úrkoma þar í janúar var 1,6 mm, það var 1917.

Snjór

Óvenjusnjólétt var um mikinn hluta landsins þótt snjófyrningar frá óvenjulega snjóþungum fyrra mánuði hafi verið talsverðar fram eftir mánuðinum á austanverðu Norðurlandi. Alhvítt var þannig talið 19 daga á Akureyri þótt ekkert snjóaði. Alautt var á Akureyri frá 26. og út mánuðinn. Í Reykjavík varð aldrei alhvít jörð í mánuðinum en flekkótt var talið 6 daga. Janúar án alhvítra daga hefur ekki komið í Reykjavík frá 1940, en það gerðist einnig 1929. Snjór var þó ámótalítill í janúar 2002 en þá varð alhvítt í einn dag, snjódýpt 1 cm.

Vindur

Mánuðurinn var sérlega hægviðrasamur, meðalvindhraði hinn lægsti frá 1963. Illviðri voru með því minnsta sem gerist á þessum árstíma. Loftþrýstingur var með hærra móti, 1009,0 hPa í Reykjavík, en ekki afbrigðilega hár.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica