Fréttir
björt ský og svört
Skýjafar við suðurströnd Íslands í mars 2008.

Vindhviðuheimsmet viðurkennt

113,2 m/s við Ástralíu

25.1.2010

Þann 10. apríl 1996, klukkan 10:55 að heimstíma (utc), mældist vindhviða í fellibylnum Olivia á Barrow eyju við norðvesturströnd Ástralíu 113,2 m/s.

Nú loks hefur Samráðsnefnd Alþjóðaveðurfræði-stofnunarinnar um heimsveðurfar og met staðfest að um nýtt hviðuheimsmet sé að ræða. Meiri vindhraði hefur þó mælst með ratsjá í skýstrokkum, en aldrei með hefðbundnum vindhraðamælum.

Barrow-eyja er undan norðvesturströnd Ástralíu, á 20°40'S, 115°23'A, vindmælirinn er í 10 metra hæð yfir jörðu og 64 metra yfir sjávarmáli. Stöðin er um 4 kílómetra frá ströndinni í vindstefnuna og er staðsett á lítilli hæð í opnu landslagi.

Þrjár vindhviður mældust yfir 100 m/s. Það hefur staðið í mönnum að mesti 5-mínútna meðalvindhraði í veðrinu var ekki nema 48,9 m/s. Hviðustuðlar hæstu hviðanna voru á bilinu 2,27 til 2,75, en meðalhviðustuðull í veðrinu var 1,33. Þetta er talið benda til þess að smærri hvirflar hafi verið á ferð í meginvindstrengjum kerfisins, en mjög tilviljanakennt er hvar þeir fara yfir.

Þrýstingur í auga Oliviu var um 925 hPa, hraði kerfisins var um 8 m/s (29 km/klst). Olivia var, um þær mundir er metið var sett, óvenju sporöskjulaga.

Athugið vel að þessi ákveðni fellibylur er ekki sá eini sem heitir Olivia; að minnsta kosti átta fellibyljir í austurhluta Kyrrahafs, undan vesturströnd Mexíkó, hafa borið þetta nafn. Í Ástralíu eru fellbyljir nefndir „cyclones“ en „hurricanes“ í Atlantshafi og austurhluta Kyrrahafs. Fellibyljir nefnast „typhoon“ í vestanverðu Kyrrahafi.

Nánari upplýsingar um Oliviu má finna á vef áströlsku veðurstofunnar. Þar er ekki minnst á metið því það var sett á veðurstöð sem rekin er af olíufélaginu Chevron; ástralska veðurstofan fær gögn frá stöðinni með reglubundnum hætti en birtir þau ekki nema með leyfi félagsins.

Til er listi yfir heimsveðurmet (World Weather / Climate Extremes Archive). Þar má lesa um metið sjálft og einnig í tilkynningu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO). Ítarlegasta skýrslan um metið liggur ekki á lausu, en hægt er að panta hana í gegnum vefsíðuna OnePetro.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica
Á þessum vef eru vafrakökur notaðar við nafnlausar notkunarmælingar, en engin virkni tengist markaðssetningu. Sjá nánar