Fréttir
sólarlag, ský speglast í hafi
Sólarlag 27. desember 2009. Séð suðvestur yfir Kópavog.

Veðurfar 2009

Bráðabirgðayfirlit 30. desember

30.12.2009

Tíðarfar var hagstætt á árinu 2009. Hiti var langt yfir meðallagi um landið sunnanvert og einnig vel yfir meðallagi nyrðra. Í Reykjavík stefnir árið í að verða það 10. hlýjasta frá upphafi mælinga. Hitinn var 1,2 stigum ofan við meðaltalið 1961-1990 og 0,5 eða 0,6 stigum ofan meðaltalsins 1931-1960, auk þess 0,2 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Á Akureyri var árið ívið svalara, að tiltölu, og lenti í 30. sæti frá upphafi mælinga þar, 1882, og í Stykkishólmi var árið það 14. hlýjasta frá upphafi mælinga 1845. Í Reykjavík og á Akureyri voru allir mánuðir nema tveir með hita yfir meðallagi. Endanlegar hitatölur verða birtar eftir helgi og þá einnig frá fleiri stöðvum.

Úrkoma og sólskinsstundir

Ársúrkoma mældist 713 mm í Reykjavík fram til 30. desember og er það um 10% undir meðallagi. Þetta er þurrasta ár í Reykjavík síðan 1995. Óvenjuþurrt var í Reykjavík framan af sumri. Á Akureyri mældist úrkoman 652 mm fram til 30. desember og er það ríflega 30% umfram meðallag. Þetta er mesta ársúrkoma á Akureyri síðan 1991, en 1992 var úrkoman einnig svipuð og nú. Mestu munar um óvenju úrkomusaman desember en hann stefnir í að verða einhver hinn úrkomumesti á Akureyri frá upphafi mælinga.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust um 1490 og er það meir en 200 stundum umfram meðallag. Þetta er 10. árið í röð með sólskinsstundafjölda ofan meðallags í Reykjavík. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1050 og er það í meðallagi. Skaðaveður voru óvenjufá á árinu.

Yfirlit um einstaka mánuði

Árið byrjaði með hlýjum og úrkomusömum janúar og var tíð talin góð. Fyrri hluti mánaðarins var sérlega hlýr, en síðari hlutinn svalari. Tíðarfar í febrúar var einnig talið hagstætt því lítið var um illviðri og samgöngur voru lengst af greiðar. Fyrstu tólf dagar mánaðarins voru mjög kaldir, í Reykjavík ámóta kaldir og sömu dagar í febrúar 2002, en á Akureyri þarf að fara áratugi aftur í tímann til að finna sama tímabil ámóta kalt, en hiti var svipaður fyrstu 12 dagana í febrúar 1969 og 1955 og var nú. Þurrt var um mestallt land allan þennan tíma og sólskin, snjór var á jörðu, en ekki mikill. Frá og með þeim 13. hlýnaði að mun og síðari hluti mánaðarins var hlýr, sérstaklega 16. til 18. Úrkoma var þá mikil sunnanlands, en heldur minni nyrðra.

Tíðarfar í mars var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Hitinn var alls staðar mjög nærri meðallagi. Lítið var um illviðri en hríðarveður trufluðu þó samgöngur stund og stund. Víðast hvar var snjólétt en þó var allmikill snjór um tíma á norðanverðum Vestfjörðum og í útsveitum á Norður- og Austurlandi. Á Norðurlandi varð snjórinn mestur í lok mánaðarins og tepptust þar samgöngur um tíma. Snjóflóðahætta var viðloðandi á norðanverðum Vestfjörðum framan af mánuðinum. Fyrstu dagana féllu mörg snjóflóð á þeim slóðum, sem og sums staðar norðanlands. Talsverð snjóflóðahætta var í útsveitum á Norðurlandi í lok mánaðarins.

Vormánuðir

Hlýtt var í apríl um land allt, hlýjast að tiltölu suðaustanlands, en einna svalast á Vestfjörðum. Mjög úrkomusamt var um mestallt land og sérlega úrkomusamt víða á Suðurlandi og einnig vestan til á Norðurlandi. Fremur hvassviðrasamt var samfara úrkomunni og slagviðri með tíðara móti miðað við árstíma.

Nokkur mánaðarúrkomumet féllu í mánuðinum. Úrkoman á Kvískerjum mældist 523,7 mm og hefur ekki mælst meiri á íslenskri veðurstöð í aprílmánuði. Eldra met var sett á Kvískerjum í apríl 1984, en þá varð heildarúrkoma mánaðarins 520,7 mm, lítillega minni en nú. Aprílúrkomumet voru sett á fleiri stöðvum, þeirra merkust eru nýtt met í Vestmannaeyjum, en þar hefur verið mælt frá 1881, og á Eyrarbakka þar sem einnig hefur verið mælt frá 1881, en með nokkrum hléum. Met var sett í Vík í Mýrdal (mælt frá 1926) og á allmörgum stöðvum á vestanverðu Norðurlandi þar sem mælt hefur verið í 5 til 15 ár.

Snjólétt var í mánuðinum og aldrei varð alhvítt í Reykjavík, það gerist u.þ.b. fimmta hvert ár að meðaltali, en síðast fyrir tveimur árum. Alhvítir dagar á Akureyri voru 5 og er það 6 dögum færra en í meðalári. Enn snjóléttara var þá á Akureyri, bæði í fyrra og hitteðfyrra.

Maímánuður var hlýr, nokkuð úrkomu- og vindasamt var miðað við árstíma, en tíð var samt hagstæð og sólskinsstundir mældust umfram meðallag.

Sumarmánuðir

Tíð var almennt hagstæð í júní, hiti var yfir meðallagi um land allt, en úrkoma heldur undir meðallagi. Lengst af var hægviðrasamt. Loftþrýstingur var óvenju hár. Vindar voru hægir í júní, ekki hefur verið jafn hægviðrasamt á sjálfvirkum stöðvum í byggð þann tíma sem meðaltöl eru til fyrir (frá og með 1996). Á mönnuðu stöðvunum hefur ekki verið hægviðrasamara síðan í júní 1963, en meðalvindhraði var þó svipaður í júní 1987 og 1982. Samanburðurinn nær aftur til 1949.

Tíðarfar var hlýtt og þurrt um mikinn hluta landsins í júlí. Sérlega hlýtt og þurrt var suðvestanlands en hiti var undir meðallagi inn til landsins á Austurlandi. Á vestanverðu landinu lét gróður sums staðar á sjá vegna þurrkanna. Fyrsta vika mánaðarins var hlý um nær allt land en síðan kólnaði eystra og víða á hálendinu. Mikið kuldakast gerði í nokkra daga seint í mánuðinum. Þá snjóaði í fjöll norðanlands og næturfrost varð allvíða á Suðurlandi, en það er mjög óvenjulegt í júlí. Frostin eyðilögðu grös í kartöflugörðum og varð tjón mikið. Í Reykjavík þarf að fara allt aftur til ársins 1889 til að finna jafn litla úrkomu í júlí. Met voru sett á allmörgum stöðvum þar sem athugað hefur verið styttri tímabil.

Ágúst var fremur hlýr um allt land, sólríkur á Suður- og Vesturlandi, en norðanlands og austan var sólarminna og sums staðar á þeim slóðum rigndi mikið. Veður var hægviðrasamt lengst af. September var fremur hlýr um land allt, hlýjastur að tiltölu austanlands en svalastur á Vestfjörðum. Úrkoma var í ríflegu meðallagi en sólskinsstundir með færra móti um landið sunnanvert.

Sumarið var hlýtt, í Reykjavík er það hið 10. til 11. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1871 og það fjórða hlýjasta frá nýliðnum aldamótum. Ekki varð alveg jafn hlýtt að tiltölu á Akureyri.

Síðasti hluti ársins

Hiti var í ríflegu meðallagi í október víðast hvar nema norðaustanlands þar sem hann var lítillega undir því. Talsvert kuldakast var ríkjandi í upphafi mánaðarins, þá festi snjó um mikinn hluta landsins. Veður hlýnaði síðan og voru síðustu dagarnir sérlega hlýir ásamt nokkrum dögum um miðbik mánaðarins. Suðaustan- og austanillviðri gerði um landið sunnan- og vestanvert föstudaginn 9. Þá urðu nokkrir skaðar.

Nóvember var fremur hlýr, hlýjast var að tiltölu við ströndina austan- og sunnanlands en kaldast var á norðvestanverðu landinu. Vægt kuldakast var í upphafi mánaðar en svo hlýnaði og var mjög hlýtt á landinu fram yfir miðjan mánuð. Þann 18. og 19. gerði kuldakast á norðanverðu landinu. Undir mánaðarlok kólnaði svo um allt land. Mjög hlýtt var fyrir og um miðjan desember en síðustu dagana fyrir jól kólnaði og var síðasta vika ársins mjög köld um meginhluta landsins. Óvenjumikill snjór var sums staðar norðanlands, en annars yfirleitt fremur snjólétt.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica