Fréttir
loftmynd af jökli - hraun í hlíðum
Snæfellsjökull úr lofti 18. október 2001. Fingraðir hraunstraumar sjást í hlíðum eldkeilunnar.

Veðurstofan á Vísindavöku

23.9.2009

Veðurstofa Íslands verður með sýningarbás á Vísindavöku nk. föstudagskvöld, 25. september, kl. 17-22 í Listasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu. Þar mun Veðurstofan kynna loftslagsverkefni sem stofnunin er í forystu fyrir, jöklamælingar, kortlagningu flóðasvæða, sjálfvirka vöktun jarðhræringa og fleira. Meðal annars verður sýnt líkan af Snæfellsjökli á skjá.

Vísindavakan er árlegur viðburður sem RANNÍS, Rannsóknamiðstöð Íslands, stendur að í samvinnu við fjölmargar mennta- og vísindastofnanir og fyrirtæki í landinu. Vísindavökur eru haldnar samtímis í helstu borgum Evrópu í tengslum við Dag vísindamannsins. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu og markmiðið er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Allar vísindagreinar eru kynntar á Vísindavöku, hugvísindi jafnt sem raunvísindi.

Veðurstofan mælir og safnar í gagnagrunn upplýsingum um vatn, loft, jörð og hafið við Ísland. Gögnin eru rauntímamælingar frá um 1000 mælistöðvum um allt land, svo og margs konar fjarkönnunargögn frá ratsjám, loftmyndum og gervitunglum. Gagnagrunnurinn er notaður til rauntímavöktunar á náttúruvá og í veðurspárgerð, til að spá fyrir um snjóflóð, sjávarflóð og flóð í ám, og til rannsókna á veðurfari, vatnafari, eldfjöllum og jarðskjálftum. Margt af þessum gögnum er birt jafnóðum á vefnum.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica