Mars 2009
Stutt tíðarfarsyfirlit ásamt vetraryfirliti
Tíðarfar í mars var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Hitinn var alls staðar mjög nærri meðallagi. Lítið var um illviðri en hríðarveður trufluðu þó samgöngur stund og stund. Víðast hvar var snjólétt en þó var allmikill snjór um tíma á norðanverðum Vestfjörðum og í útsveitum á Norður- og Austurlandi. Á Norðurlandi varð snjórinn mestur í lok mánaðarins og tepptust þar samgöngur um tíma.
Snjóflóðahætta var viðloðandi á norðanverðum Vestfjörðum framan af mánuðinum. Fyrstu dagana féllu mörg snjóflóð á þeim slóðum, sem og sums staðar norðanlands. Talsverð snjóflóðahætta var í útsveitum á Norðurlandi í lok mánaðarins.
Hiti
stöð | meðalhiti | vik frá meðallagi | röð | af |
Reykjavík | 0,4 | -0,2 | 74 | 139 |
Stykkishólmur | -0,4 | 0,4 | 67 | 164 |
Bolungarvík | -1,6 | 0,1 | 64 | 112 |
Akureyri | -1,0 | 0,3 | 61 | 128 |
Egilsstaðir | -1,2 | 0,2 | 32 | 60 |
Dalatangi | 0,7 | 0,6 | 32 | 71 |
Höfn í Hornaf. | 1,1 | -0,1 | ||
Stórhöfði | 1,7 | 0,0 | 22 | 71 |
Hveravellir | -5,9 | 0,0 | 23 | 44 |
Meðalhiti í Reykjavík var 0,4 stig og er það 0,2 stigum undir meðallagi. Þetta er ívið kaldara en í mars í fyrra. Á Akureyri var meðalhitinn -1,0 stig og er það 0,3 stigum yfir meðallagi og ívið hlýrra en í mars í fyrra. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,1 stig og er það 0,1 stigi undir meðallagi. Á Hveravöllum var meðalhitinn -5,9 stig og er það í meðallagi.
Hæsti hiti í mánuðinum mældist á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 19., 14,2 stig á sjálfvirku stöðinni, en 13,6 stig á þeirri mönnuðu. Lægsti hiti mánaðarins mældist í Svartárkoti þann 7. -25,8 stig, sama frost mældist á Brúarjökli þann 28. Mest frost á mannaðri skeytastöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 7., -21,5 stig.
Úrkoma
Úrkoma var undir meðallagi á Suðvestur- og Vesturlandi, en yfir því norðaustanlands. Úrkoman í Reykjavík mældist 60 mm og er það um 73% af meðalúrkomu. Á Akureyri mældist úrkoman 58 mm og er það um 35% umfram meðallag. Úrkoman á Höfn í Hornafirði mældist 115 mm.
Sólskinsstundir
Sólríkt var suðvestanlands. Í Reykjavík mældust sólskinsstundirnar 148 og er það 37 stundum umfram meðallag, hið mesta í mars í tíu ár. Á Akureyri mældist 51 sólskinsstund, 28 færri en í meðalári.
Snjólétt var um landið sunnanvert. Í Reykjavík voru 9 alhvítir dagar en að meðaltali eru þeir 11. Snjór var lítill þessa daga og er þetta snjóléttasti mars í Reykjavík síðan 2004, en þá varð aldrei alhvítt.
Veturinn (desember 2008 til mars 2009)
Tíðarfar var hagstætt í vetur. Meðalhiti var 0,8 stig í Reykjavík og er það 0,9 stigum ofan meðallags, 0,4 stigum hlýrra en var í fyrra. Meðalhiti í Stykkishólmi var 0,2 stig og er það 1,1 stigi ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhiti vetrarins -1,1 stig og er það 0,5 stigum ofan meðallags. Febrúar var kaldasti mánuður vetrarins og var fyrri hluti hans sérlega kaldur. Febrúar er kaldasti vetrarmánuðurinn þriðja til fjórða hvert ár í Reykjavík (29%). Janúar var hlýjasti mánuður vetrarins, það gerist að meðaltali fimmta til sjötta hvert ár í Reykjavík (19%).
Úrkoma vetrarins var í ríflegu meðallagi, um 12% umfram meðallag í Reykjavík, en um 20% á Akureyri. Desember var úrkomusamastur í Reykjavík, en janúar á Akureyri. Febrúar var þurrastur á báðum stöðum.
Alhvítir dagar voru þremur fleiri í Reykjavík en að meðallagi 1961-1990, en snjór varð aldrei mikill og snjómagn var 12% undir meðallagi sama tímabils. Þetta er heldur minna en í fyrra.
Tvö ný dægurlágmarksmet fyrir landið allt voru sett í vetur, (viðmiðunartími er 1924 til 2008). Hið fyrra varð er lágmarkshiti í Svartárkoti fór niður í -29,0 stig þann 12. febrúar. Eldra met (-27,5°C) var sett við Mývatn 1998. Síðara landslágmarksmetið féll þegar hiti á Brúarjökli fór niður í -25,8 stig þann 28. mars. Eldra met (-25,5°C) var sett í Möðrudal 1995.
Lágmarkið í Svartárkoti þann 12. febrúar var vitaskuld einnig nýtt landsmet fyrir byggð, en daginn áður mældist lágmarkshiti í Svartárkoti -27,1°C, mest frost hafði áður orðið í Möðrudal 1995 (-23,7°C). Byggðamet vetrarins urðu því einnig tvö.
Met af þessu tagi falla að jafnaði tvisvar til sex sinnum á ári í hverjum þriggja flokka (landslágmark, byggðalágmark, landshámark). Ekkert landsdægurhámark féll í vetur. Stöðvalágmörk féllu aðeins á þeim stöðvum sem starfað hafa minna en 3 ár.