Greinar
séð úr Svartárkoti til fjalla
Útsýni úr Svartárkoti: Sellandafjall, Bláfjall í bakgrunni.

Landsdægurmet

Hvað er það?

Trausti Jónsson 12.2.2009

Þann 12. febrúar mældist lágmarkshiti í Svartárkoti í Bárðardal -29,0 stig. Þetta er meira frost en vitað er um áður þann dag hér á landi. Gamla metið var sett við Mývatn árið 1998, -27,5 stig. Lágmarkshitagögn Veðurstofunnar eru nú aðgengileg aftur til 1924. Því er hugsanlegt að lægri hiti finnist í gögnum um 12. febrúar á 19. öld.

Þó í fljótu bragði virðist vera um sögulegan atburð að ræða er varla hægt að taka hann mjög hátíðlega. Að meðaltali falla mörg landslágmarksdægurmet á hverju ári. Ástæður þessarar háu metatíðni eru einkum tvær:

(1) Ef gagnasafnið væri einsleitt, þ.e. innihéldi sömu stöðvar allan tímann frá 1924 mætti búast við því að fjögur met féllu að meðaltali á ári. Tíðindi um ný lágmarksdægurmet berast því að jafnaði á um þriggja mánaða fresti. Tíðnin er í raun meiri þessi árin því ...

(2) veðurstöðvum hefur fjölgað mjög mikið, og meira inn til landsins og uppi á hálendinu heldur en annars staðar. Líkur á að veiða met hafa þess vegna batnað umtalsvert. Nýlega bættist t.d. við stöð á Brúarjökli. Sú stöð ein sló 6 dagslágmarksmet á síðasta ári, tíu önnur dagslágmarksmet voru sett á árinu 2008. Í byggð voru dagslágmarksmetin níu.

Séð í austur frá Svartárkoti
Frá Svartárkoti
Séð í austur yfir ísi lagt Svartárvatn frá bæjardyrunum í Svartárkoti í janúarlok 2009. Til vinstri er fjallið Eggert, þá Kollóttadyngja og gægist toppurinn á Herðubreið yfir hana hægra megin. Lengst til hægri er Bræðrafell. Ljósmynd: Elín Baldvinsdóttir.


Átta dægurhámarksmet voru sett á árinu 2008, miðað við tímabilið frá og með 1924. Fjölgun stöðva á svæðum þar sem vænta má hæstu hámarka hefur ekki verið eins afgerandi og fjölgun þeirra lágmarkagefandi. Sjö úrkomudægurhámörk féllu á árinu 2008.

Meira er fjallað um lágmarks- og hámarkshitamet í greinargerðunum Hitabylgjur og hlýir dagar (pdf 1,1 Mb) og Kuldaköst og kaldir dagar (pdf 1,3 Mb).





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica