Fréttir
hópmynd tekin utandyra
Þátttakendur á stjórnarfundi EUMETNET í Reykjavík.

Fundur evrópskra veðurstofustjóra í Reykjavík

28.5.2008

Dagana 28. og 29. maí verður haldinn í Reykjavík stjórnarfundur í Samtökum veðurstofa í Evrópu, EUMETNET (EUropean METeorological NETworks). Um er að ræða samtök 24 ríkisveðurstofa í Evrópu, sem stofnuð voru 1996.

Aðalhlutverk þeirra er að skipuleggja og reka margs konar samvinnuverkefni innan veðurfræðinnar, svo sem ýmis athuganakerfi, gagnaúrvinnslu, grunnveðurspágerð, þjálfun veðurfræðinga, sem og að stunda sameiginlegar rannsóknir og þróun á ýmsum sviðum. Þá hefur EUMETNET einnig lagt áherslu á samvinnu um vöktun á veðurfari og loftslagsbreytingum, auk þess sem sameiginlegt evrópskt veðurviðvörunarkerfi á vefnum var tekið í notkun á sl. ári.

Langstærsta verkefni EUMETNET er sameiginlegur rekstur veðurathugunakerfa, EUCOS (EUmetnet Composed Observing System), og nær það einkum til veðurathugnana á N-Atlantshafi, athugana úr flugvélum í samstarfi við fjölmörg flugfélög, háloftaathugana á farskipum o.fl.

Fundinn sækja um 40 fulltrúar, þar af 22 veðurstofustjórar og þrír forstjórar stærstu samstarfsstofnana innan veðurfræðinnar, þ.e. Evrópsku veðurspáreiknimiðstöðvarinnar ECMWF, Evrópsku veðurgervihnattastofnunarinnar EUMETSAT, auk EUMETNET. Loks sitja verkefnisstjórar helstu verkefna innan EUMETNET fundinn.

Á fundinum í Reykjavík verður, auk venjulegra umræðna og ákvarðana um gang og fjármögnun einstakra verkefna, meginumræðan um framtíðarstefnu og skipulag evrópska veðursamfélagsins.

Oft er horft til alþjóðlegs veðursamstarfs sem fyrirmyndar í alþjóðlegu samstarfi, ekki síst í skipulagningu á hnattrænum umhverfisverkefnum. Innan ESB er áhersla lögð á meiri samvinnu, samræmingu og jafnvel samruna á fjölmörgum sviðum, m.a. í öryggismálum, umhverfismálum, samgöngumálum og á fleiri sviðum þar sem veður, veðurþjónusta, loftslag og náttúruvá kemur við sögu.

Áhrifa loftslagsbreytinga gætir víða í samfélögum Evrópu og áhersla á þann málaflokk verður æ meiri innan veðurstofa og alþjóðlegs veðurstofusamstarfs. Sjálfbær þróun, sem og orku- og auðlindanýting, tengist í vaxandi mæli starfsemi veðurstofa.

Veðurstofa Íslands hefur tekið virkan þátt í EUMETNET, einkum á sviði veðurathugana og vöktunar á veðurfari. M.a. sér stofnunin um rekstur háloftastöðvar á einu skipi Eimskipafélagsins, annast umsjón veðurdufla á hafsvæðinu suður og vestur af Íslandi o.fl.

Fundurinn fer fram á Hótel Sögu. Nánari upplýsingar má fá um EUMETNET á vef samtakanna.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica