Fréttir
Syukuro Manabe, Klaus Hasselmann and Giorgio Parisi. (Mynd: Ill. Niklas Elmehed © Nobel Prize Outreach)

Loftslagsvísindamenn fá Nóbelsverðlaun í eðlisfræði

7.10.2021

Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 2021 fóru til þriggja vísindamanna sem hafa unnið að fjölþættum og flóknum kerfum, samspili ólíkra lengda- og tímakvarða og því hvernig regluleg hegðan myndast.

Tveir þeirra, Syukuro Manabe og Klaus Hasselmann, báðir fæddir 1931, eru loftslagsvísindamenn sem hafa lengi verið í fremstu röð vísindamanna sem rannsaka loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Það er áhugaverð tenging milli verðlaunanna til Syukuro Manabe og verðlaunahafans í efnafræði árið 1903. Það ár fékk Svante Arrhenius verðlaunin fyrir framlag sitt til eðlisefnafræði. Hann var hinsvegar einnig fyrstur til að leggja tölulegt mat á það hversu mikillar hlýnunar mætti vænta frá tvöföldun á styrk koldíoxíðs í lofthjúpnum.

Á fyrri hluta 20. aldar urðu miklar framfarir í skilningi vísinda á því hvernig varmageislun sólar og jarðar víxlverka við lofthjúpinn og sá skilningur var grundvöllur að miklum framförum í þróun loftslagslíkana. Á sama tíma urðu miklar framfarir í þróun veðurlíkana sem gjörbreyttu veðurspám. Syukuro Manabe lauk doktorsprófi í Japan árið 1958 og fór fljótlega að vinna á rannsóknastofu í Bandaríkjunum þar sem m.a. hafði verið unnið að þróun fyrstu veðurlíkananna. Þar hófst hann  handa við að þróa líkan sem nota mætti til að herma loftslag jarðar og breytingar á því.  Þetta líkan er forveri allra annarra loftslagslíkana, og með því má segja að rannsóknir á gróðurhúsaáhrifum hafi  komist á nútímastig.

Klaus Hasselmann (f. 1931) lauk doktorsprófi í Göttingen árið 1957 og var áratugum saman prófessor við Hamborgarháskola og yfirmaður Max Planck stofnunarinnar veðurfræði í Hamborg.  Hann hefur lagt gjörfa hönd á mörg svið, bæði innan haffræði, veðurfræði og veðurfarsfræði. Öldulíkön eins og þau sem notuð eru til að spá fyrir um öldulag á hafsvæðinu umhverfis Ísland byggja m.a. á vinnu hans. Á miðjum áttunda áratug síðustu aldar skrifaði hann mikilvægar greinar um samspil ólíkra tímakvarða, t.d. hvernig tilviljanakennt flökt í vindi á yfirborði hafsins gæti gæti valdið langtímabreytingum í hafi. Þegar ljóst var að loftslagsbreytinga væri farið að gæta þróaði hann ásamt samverkamönnum aðferðir við að finna hvaða breytingar mætti rekja til athafna mannkyns.  Þessar aðferðir liggja til grundavallar mati á áhrifum mannkyns á lofstlag sem t.d. má lesa um  í skýrslum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, en síðasta skýrsla þeirra kom út síðastliðinn ágústmánuð.

Olduspalikan_Hasselmann

Ölduspá sem Veðurstofan nýtir byggir á vinnu Hasselmann

Fyrir áhugasama um hin ólíku svið eðlisfræðinnar, má benda á að ásamt þeim Sukyro Manabe og Klaus Hasselmann hlaut Giorgio Parisi einnig Nóbelsverðlaunin í ár. Parisi er kennilegur eðlisfræðingur sem hefur lagt margt til rannsókna á sviði skammtasviðsfræði, vökvaaflfræði, m.a. fjölbrotaróf kviks flæðis, safneðlisfræði og þá sérstaklega eðlisfræði spunaglers. Rannsóknir hans tengja saman breytileika yfir breitt róf tíma og lengdarkvarða, spanna mjög vítt svið og skarast m.a. á við rannsóknir Hasselmann á áhrifum slembiferla í loftslagskerfinu. Þannig sýndu hann og samverkamenn hans fyrir nokkrum áratugum hvernig sveiflur milli jökulskeiða og hlýskeiða mætti skýra sem eiginsveiflur í loftslagskerfinu sem þá væru þvingaðar af slembiferlum. Þó fæstar rannsóknir hans tengist loftslagvísindum beint, hafa niðurstöður hans og hugmyndir haft árhif langt út fyrir hans sérsvið.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica