Fréttir
Flóðavöktunarstöð sem sett var upp í Leirá syðri þann 14. nóvember síðastliðinn. Í bakgrunni sést í Sandfellsjökul en hlaupvatnið kemur þaðan undan jöklinum. Ljósmynd: Njáll Fannar Reynisson/Veðurstofa Íslands

Lítið jökulhlaup í Leirá syðri og Skálm

Nýr vöktunarmælir í Leirá syðri eykur vöktunargetu á svæðinu

6.12.2024

  • Fjórði atburðurinn frá því að umtalsvert jökulhlaup varð í lok júlí
  • Enginn hlaupórói mælist á jarðskjálftamælum

Rafleiðni hefur farið hækkandi í Leirá syðri og í Skálm síðan 4. desember síðastliðinn. Í lok júlí varð jökulhlaup í Leirá syðri og Skálm, þar sem hlaupvatn flæddi m.a. yfir þjóðveg 1 við brúna yfir Skálm. Í kjölfar jökulhlaupsins í júlí virðist jarðhitavatn úr jarðhitakötlum undir jöklinum hafa fengið greiðari leið frá þeim og í árfarvegi. Síðan í ágúst hafa þrír minni atburðir átt sér stað með hækkun á rafleiðni og vatnshæð, og er þetta sá fjórði í röðinni.

Linurit1_1

Linurit1

Mælingar á vatnshæð (efri mynd) og rafleiðni (neðri mynd) síðustu 3 daga í Leirá syðri og Skálm. Inn á milli eru truflanir í rafleiðnimælingum í Leirá syðri en áreiðanlegar mælingar sýna að rafleiðni hefur hækkað frá u.þ.b. 400 µS/cm upp í rúmlega 500 µS/cm sem er skýrt merki um hlaupvatn í ánni.

Nýr vöktunarmælir í Leirá syðri eykur vöktunargetu

Þann 14. nóvember var nýr vöktunarmælir (V665) settur í Leirá syðri, sunnan Sandfells, við austanverðan Mýrdalsjökul. Þessi mælir vaktar hlaupvatn sem berst í ánna Skálm. Einnig hefur vefmyndavél verið komið fyrir á Rjúpnafelli með yfirsýn yfir hluta farvegar hlaupvatns á leið niður að þjóðvegi 1.

Enn sem komið er hefur ekki orðið veruleg hækkun á vatnshæð en rafleiðni mælist talsverð. Enginn hlaupórói mælist á nærliggjandi stöðvum. Því viljum við biðja fólk um að sýna aðgát við upptök árinnar og nærri árfarvegum þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu. Engar tilkynningar um brennisteinslykt hafa borist VÍ. Sólarhringsvakt VÍ fylgist áfram náið með þróun mælinga á svæðinu.

Leira-sydri-og-skalm-1

Kort sem sýnir staðsetningu flóðavöktunarmæla í kringum Mýrdalsjökul. Mælar í Leirá syðri (V665) og Skálm (V412) er merktir með appelsínugulum hring.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica