Fréttir
NASA/Goddard Space Flight Center Scientific Visualization Studio; Blue Marble Next Generation data courtesy Reto Stockli (NASA/GSFC)

Líklegt er að lofthiti á Norðurheimskautssvæðinu verði yfir meðallagi í sumar

Áfram verður kalt í hafinu sunnan við Ísland

24.5.2019

Nýlega lauk 3. samráðsfundi samstarfsnets veðurstofa á Norðurheimskautssvæðinu.  Þetta samstarf, sem efnt er til á vegum Alþjóðaveðurfræðistofnunar (WMO), gefur m.a. út yfirlit um horfur  um vetrar- og sumarveðurlag á norðurheimskautssvæðinu.

Meðal þess sem kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins er að líklegt sé að hitafar á Norðurheimskautssvæðinu verði yfir meðallagi í sumar og því má gera ráð fyrir að enn verði hafísmagn í minna lagi.

Þessar niðurstöður byggja m.a. á útreikningum 13 mismunandi spálíkana sem reikna veðurlagsspá næstu mánaða. Niðurstöður eru settar fram sem líkur á að hiti verði „vel undir meðallagi“, „nærri meðallagi“ og „vel yfir meðallagi“ (þriðjungaflokkun). Sumarhita áranna 1991 til 2010 er skipt á þrjá jafnstóra flokka, kaldan (vel undir meðallagi), hlýjan (vel yfir meðallagi) og þau ár sem eftir standa eru þau ár þar sem hiti er nærri meðaltali.  Þessi röðun er gerð fyrir hvert líkan fyrir sig og þegar búið er að reikna hitaspá sumarsins er skoðað í hvaða þriðjungsflokk niðurstöður líkansins falla á hverjum (landfræðilegum) stað.

Sumarmánuðir (júní - ágúst) 2019. Líkindi þess að hiti verði í lægsta þriðjungi (bláir litir), nærri meðallagi (gráir litir) eða í hæsta þriðjungi (rauðir litir). Mikilvægt er að hafa í huga að myndin sýnir ekki hita (°C), heldur líkur (%).

Sumarmánuðir (júní - ágúst) 2019. Líkindi þess að hiti verði í lægsta þriðjungi (bláir litir), nærri meðallagi (gráir litir) eða í hæsta þriðjungi (rauðir litir). Mikilvægt er að hafa í huga að myndin sýnir ekki hita (°C), heldur líkur (%).

Með því að telja hversu mörg líkön spá hverjum flokki  má reikna eins konar líkur þess að veðurlag verði kalt, hlýtt eða nærri meðallagi. Myndin hér að ofan sýnir niðurstöður slíkra reikninga fyrir Norðurheimsskautssvæðið fyrir sumarið 2019. Víðast hvar er líklegt að hiti verði í efsta þriðjungi, þ.e. vel yfir meðallagi. Á stórum hluta svæðisins eru meira en helmingslíkur á að hiti verði vel yfir meðallagi, en jafnvel þar sem líkurnar eru undir helmingi (þ.e. á bilinu 40 – 50%) er samt líklegt að hiti verði yfir meðallagi. Myndin sýnir einnig að suðvestan við Ísland er líklegast að áframhald verði á sjávarkuldum sem hafa einkennt það svæði undanfarin ár.

Samráðsnetið skoðaði einnig horfur á úrkomu og útbreiðslu hafíss  og sýndu niðurstöður að líkönum bar lítið saman um horfur á þurrkum eða vætutíð. Hlýindi í Norður Íshafi gera það líklegra að hafísmagn verði enn í minna lagi þó einstök svæði kunni að skera sig úr.

Nánar má lesa um yfirlýsingu samstarfsnetsins á vefsetri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, en hér að neðan fylgir örstuttur úrdráttur.

Ástand á norðurslóðum í vetur og fram á sumar

Í vetur skiptust á þrálátar  sunnan- eða norðanáttir, á heimskautasvæðinu fyrri hluta vetrar, frá nóvember 2018 til janúar 2019 og í kjölfarið varð illviðrasamt fram í apríl. Flest vik í hita, úrkomu og hafíss má rekja til þessa veðurlags.

Gera má ráð fyrir að óvenjuleg hlýindi muni endast fram út sumarið 2019. Það mun áhrif á úrkomu og þróun hafíss.

Nánar um hita úrkomu og hafís

Hiti: Fyrri hluta vetrar (nóv 2018 – jan 2019) var hiti yfir meðallagi víðast hvar á heimskautssvæðinu, og var tímabilið það næst hlýjasta frá upphafi mælinga í austurhluta Síberíu. Síðla vetrar (feb - apríl 2019) var lofthiti yfir meðallagi á öllu svæðinu nema í norðaustanverðu Kanada þar sem var kaldara en í meðalári.  

Gert er ráð fyrir að hiti haldist yfir meðallagi út sumarið víðast hvar á heimskautssvæðinu.

Úrkoma:  Í 70 ára sögu samfelldra mælinga í Síberíu hefur aldrei mælst jafn lítil úrkoma fyrri hluta vetrar. Einnig var á sama tíma metþurrkur sunnan til á Kanadíska hluta heimskautssvæðisins, en síðla vetrar var metúrkoma í norðaustur Síberíu og yfir hluta íshafsins. Lítið samræmi er í niðurstöðum reiknilíkana um úrkomuhorfur í sumar.

Hafís: Óvenjulítill hafís var á norðurslóðum í vetur. Hámarksútbreiðsla hefur einungis 6 sinnum verið minni.  Mikill munur var þó á Kanadíska og Evrasíska hluta íshafsins, en þrálátir vindar og hitafar gerðu það að verkum að mjög lítill hafís var í Beringshafi en þrálátar norðanáttir frá janúar héldu útbreiðslu hafíss nærri meðallagi í Barentshafi. Gangi spár um sumarhlýindi á heimskautasvæðinu eftir er líklegt að útbreiðsla hafíss  verði áfram undir meðallagi, en þó ekki við strendur Kanada og Grænlands.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica