Fréttir
skjáskot
Skjálftahrinan hefur verið staðbundin hingað til (skrifað 20.06.2020 kl. 17:50)

Jarðskjálftahrina 20 km norðaustur af Siglufirði

20.6.2020

Uppfært 29. júní

Jarðskjálftahrinan við mynni Eyjafjarðar er enn yfirstandandi. Í gærkvöldi 28. júní um kl. 19:47 mældist skjálfti af stærð 3,6 um 20 km NA af Siglufirði. Síðar kl. 23:25 mældist annar skjálfti á sömu slóðum af stærð 3,0. Tilkynningar bárust Veðurstofu um að báðir þessir skjálftar hefðu fundist á Siglufirði sem og á Ólafsfirði.

Frá því að hrinan hófst 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett um 9000 skjálfta. Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni, sá stærsti á sunnudagskvöldið kl. 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði.

Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.


Uppfært 24. júní kl. 17:00

Jarðskjálftahrinan við mynni Eyjafjarðar er enn yfirstandandi. Heldur dró úr virkninni um tíma í nótt, um 400 skjálftar hafa mælst þar siðan miðnætti, flestir undir 3,0 að stærð. Skjálfti af stærð M4,0 var kl. 06:59 í morgun. Kl. 11:51 varð skjálfti af stærð M4,2. Í gær mældust yfir 900 skjálftar, sá stærsti var af stærð 3.4 kl. 10:15 um 30 km NNA af Siglufirði.

Frá því að hrinan hófst 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 5000 skjálfta. Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni, sá stærsti á sunnudagskvöldið kl. 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði.

Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða. Í hrinunni sem gekk yfir á sömu slóðum árið 2012 mældust 6 skjálftar yfir 5 að stærð, en sú hrina stóð yfir í fleiri vikur með hléum.


Uppfært 21. júní, kl. 20:35

Engar sterkar vísbendingar um yfirvofandi stórfelld hrun af völdum jarðskjálfta

Starfsmenn frá Veðurstofunni og Náttúrufræðistofnun fóru í vettvangsflug með Landhelgisgæslunni seinni partinn í dag. Tilgangur ferðarinnar var meðal annars að kanna óstöðugleika í hlíðum og ummerki um skriðuföll á svæðinu.

Flogið var yfir nyrsta hluta Tröllaskaga þar sem áhersla var lögð á að kanna þekkt jarðsigssvæði og hlíðar ofan vega og ofan við þéttbýli. Eins voru ummerki um hrunin í Gjögurfjalli og Hvannadalsbjargi skoðuð sérstaklega en neðan þeirra mátti sjá myndarlegar skriðudyngjur sem staðfesta að þar urðu skriður.

104875938_555004235179310_7511442666643787818_nNiðurstöður ferðarinnar voru jákvæðar með tilliti til skriðufalla þar sem engin ummerki um stórfelldar sprungur var að finna á þessum svæðum og því engar sterkar vísbendingar um yfirvofandi stórfellt hrun af völdum stórra jarðskjálfta. Eins sáust engin ummerki um að stórar fyllur hefðu fallið úr hlíðum. Vegna mikillar óvissu um áframhaldandi þróun jarðskjálftavirkninnar er ekki þó ekki hægt að útiloka slíka atburði í framtíðinni. Á þeim stöðum þar sem auðvelt var að greina ummerki um skriður eða grjóthrun var yfirleitt um svæði að ræða þar sem mikið er jafnan af lausaefnum, hlíðar bratta og skriður þar algengar.


Hér sést Sveinn Brynjólfsson, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar í leiðangrinum í dag. (Ljósmynd: Landhelgisgæslan)


Uppfært 21. júní, kl. 19:45

Kukkan 19:07 varð jarðskjálfti rúma 30 km NNA Siglufirði af stærðinni 5,8 skv. fyrstu niðurstöðum. Skjálftinn fannst víða á Norðurlandi. Kl. 18:20 varð skjálfti af stærð 4,4 um 35km norður af Siglufirði. Tilkynningar hafa borist um að allir skjálftarnir fundist frá Siglufirði til Akureyrar. Skjálftinn sem reið yfir kl. 19:07 er stærsti skjálftinn sem mælst hefur í hrinunni. Skjálftinn átti hinsvegar upptöku talsvert fjær landi en fyrri skjálftar og því voru áhrif þessa skjálfta ekki eins mikil inn til landsins.

Jardskjalftahrina_210620

Hér má sjá staðsetningu skjálftans sem varð kl. 19:07 norður af þeim stað sem flestir skjálftar í hrinunni hafa átt upptök.

Uppfært 21. júní, kl. 16:40

Veðurstofan hefur kortlagt virknina í hrinunni sem gengur yfir til samanburðar við hrinur sem urðu á svipuðum slóðum 2012 og 2013. Kortið hér fyrir neðan sýnir afstöðu jarðskjálftahrinunnar nú m.v. hrinurnar sem urðu 2012 og 2013. Enn sem komið er er virknin frekar staðbundin en þó greinilegt að amk tvær sprungur eru virkar. Virknin tengist landrekshreyfingum en á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu safnast upp spenna vegna flekahreyfinga.

Hrina_2012vs2020

Bláir punktar tákna skjálfta 2012 og 2013. Rauðir punktar tákna þá skjálfta sem þegar hafa verið skráðir í hrinunni sem nú gengur yfir. Sjávarbotnskortið er frá Bryndísi Brandsdóttur Jarðvísindastofnun.

Uppfært 21.06. kl. 11:30

Sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hefur mælt um 600 skjálfta í hrinunni síðan á miðnætti. Þeir eru áfram á svipuðum slóðum og í gær.. Klukkan 02:50 varð skjálfti af stærð M4,3 og honum fylgdi annar M3,5 að stærð. Veðurstofunnu bárust tilkynningar um að skjálftinn í nótt hafi fundist í Eyjafirði og á Ólafsfirði og Siglufirði. 

Miðað við fyrri skjálftahrinur á þessu svæði má búast við því að þessi hrina haldi áfram næstu daga. Í hrinunni 2012 mældust 6 skjálftar yfir 5 að stærð. Í hrinunni sem nú gegnur yfir hafa þegar mælst tveir skjálftar yfir 5 að stærð og ekki er hægt að útiloka að þeir verði fleiri. Sagan geymir að svona hrinur séu undanfari stærri skjálfta en í flestum tilfellum fjara þær út með tímanum án stærri skjálfta en nú þegar hafa orðið.                                                                                       

Talsvert er um tilkynningar um grjóthrun á Tröllaskaga en einnig hafa borist tilkynningar um hrun í Málmey. Eins var tilkynnt um rafmagnsleysi í Kelduhverfi eftir seinni skjálftann. Engar tilkynningar um alvarleg tjón eða slys vegna skjálftanna stóru í gær.

Talsverð hrunhætta á Tröllaskaga og Flateyjarskaga

Talsverð hætta er á grjóthruni og skriðum úr bröttum hlíðum í jarðskjáltahrinum sem þessum. Það er mikilvægt að ferðafólk til fjalla og þeir sem eru á ferðinni í brattlendi séu meðvitaðir um hrun- og skriðuhættu. "Þegar nokkrir stórir skjálftar verða hver á eftir öðrum eins og gerst hefur í þessari hrinu, þá aukast líkur á því að stærri skriður fari af stað í óstöðugum hlíðum", segir Jón Kristinn Helgason sérfræðingur á sviði skriðufalla á Veðurstofu Ísland. "Einnig getur skapast hætta á snjóhengjuhruni og jafnvel mögulegt að fólk á gangi geti misst fótanna í stærri skjálftum", segir Jón Kristinn.


Uppfært 20. júní, kl. 19.55

Fyrsta greining á skjálftanum sem mældist klukkan 19:26 bendir til þess að stærð hans hafi verið 5.6, sem er stærri skjálfti en sá sem mældist fyrr í dag. Alls hafa um 750 mælst í hrinunni frá miðnætti. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist allt vestur á Ísafjörð og suður til höfuðborgarsvæðisins. Eins hafa borist tilkynningar um grjóthrun úr hlíðum á Tröllaskaga. Því er mikilvægt að fólk sýni aðgát undir bröttum hlíðum.


Uppfært 20. júní, kl. 19.35

Klukkan 19.26 mældist annar skjálfti af svipaðri stærð og skjálftinn sem mældist fyrr í dag. Þessi skjálfti fannst víða á Norðurlandi. Unnið er að því að fá nákvæma stærð á skjálftann.

Uppfært 20. júní, kl. 17:00

Jarðskjálftahrina hófst um miðjan dag í gær um 20 km NA af Siglufirði þegar mældust 7 skjálftar af stærð M3-M3,8. Kl. 15:05 í dag varð skjálfti af stærðinni M5,3 á svipuðum sloðum og honum hafa fylgt margir eftirskjálftar, þar af um 20 skjálftar af stærð M3,0 – 4,1. Skjálftavirknin er á  mótum Eyjafjarðaráls og Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins. Á þessum slóðum mældist einnig kröftug hrina haustið 2012 þegar 4 skjálftar stærri en M5 mældust 10 km austar en nú.

Veðurstofunni hafa borist fjölmargar tilkynningar frá fólki sem fann fyrir skjálftanum, allt frá Dalasýslu til Húsavíkur. Úr Hörgárdal bárust tilkynningar um hluti sem hrundu úr hillum.

Grjóthruns var vart úr Hafnarhyrnu ofan við varnargarðinn á Siglufirði  og í Mánárskriðum en annars hafa Veðurstofunni ekki borist tilkynningar um skriður eða tjón af völdum skjálftans. Veðurstofan varar við mögulegu grjóthruni og biður ferðalanga að fara varlega í og við skriður og kletta á Flateyjarskaga og Tröllaskaga.

20200620_jardskjalfi2 Vaktskjáirnir sýna  hrinuna vel. Mikil eftirskjálftavirkni hefur fylgt stærsta skjálftanum. Ríflega 500 skjálftar hafa mælst í hrinunni þegar þetta er skrifað.

Jarðskjálftahrinan er enn í gangi og hugsanlegt er að hún færist austar eftir Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Ekki er hægt að útiloka að stærri skjálftar verði á svæðinu en skjálftar allt að stærð 7 eru þekktir á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu. Árið 1872 urðu tveir skjálftar af stærð M6,5, líklega báðir á misgenginu og árið 1755 varð skjálfti sem metinn hefur verið um 7 af stærð.

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi á Norðurlandi eystra vegna jarðskjálftahrinunnar.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica