Jarðhræringar Gríndavík eldri færslur
Yfirfarnir-skjalftar-27-nov

Jarðhræringar Grindavík : okt - nov 2023

30.11.2023

Uppfært 29. nóvember kl. 11:00

Jarðskjálftavirkni hefur áfram farið hægt minnkandi síðustu tvo sólarhringa. Í gær mældust um 340 skjálftar nærri kvikuganginum og frá miðnætti í dag hafa um 150 skjálftar mælst. Flestir skjálftanna eru smáskjálftar undir M1,0 að stærð á svæðinu austan við Sýlingarfell.

Dregið hefur úr hraða landriss við Svartsengi síðustu daga en hraði þess er áfram þó nokkur, eða allt að 1 cm á sólarhring.

Aflögunargögn og niðurstöður líkanreikninga benda til að megnið af aflöguninni komi til vegna innflæðis undir Svartsengi frekar en innflæðis í kvikuganginn. Með öðrum orðum, þenslan við Svartsengi yfirgnæfir nú merkin við kvikuganginn en hægt dregur þó úr öllum færslum. Innflæði í kvikuganginn einskorðast við svæðið austan við Sýlingarfell. Þótt áfram dragi úr aflögun og skjálftavirkni, eru ennþá taldar líkur á eldgosi og ef til þess kemur er líklegasti staðurinn austan Sýlingarfells.

Seng-29-nov

Hérna sést tímaröð fyrir GPS stöðina Svartsengi (SENG). Hún sýnir færslur síðustu 90 daga í norður, austur og lóðrétt. Bláa línan markar kvikuhlaupið 10. nóvember síðastliðinn til dagsins í dag. 

SENG-29-nov-fra-10-nov

Þessi mynd sýnir færslurnar frá stöðinni síðan 10. nóvember til dagsins í dag.

Uppfært 27. nóvember kl. 15:40

Jarðskjálftavirkni var nokkuð stöðug síðustu daga og mældust um 500 skjálftar á sólarhring nærri kvikuganginum. Áfram er mest virkni nærri Sýlingarfelli og Hagafelli. Um miðnætti í dag hófst jarðskjálftahviða nærri Sýlingarfelli og virkni jókst tímabundið í rúma klukkustund. Um 170 jarðskjálftar mældust í hviðunni og voru þetta mest smáskjálftar en einn skjálfti mældist 3,0 að stærð. Skjálftavirknin var mest á um 3 – 5 km dýpi.

Út frá aflögunargögnum frá GPS mælum og gervitunglum sést að þensla heldur áfram við Svartsengi og aflögun mælist enn nærri kvikuganginum. Þó mældust engar breytingar á GPS mælingum í tengslum við jarðskjálftahrinuna í nótt. Bæði skjálfta- og aflögunargögn benda til þess að innflæði kviku haldi áfram bæði undir Svartsengi og í miðju kvikugangsins. Skjálftahrinan í nótt gæti verið vísbending um aukinn þrýsting í ganginum.

Í ljósi þessa og samtúlkun nýjustu gagna eru áfram taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum á meðan innflæði kviku heldur áfram. Mesta hættan á að kvika komi upp er áfram á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells. Hættumatskort sem Veðurstofan gaf út 22. nóvember er enn í gildi.

Frekari líkanreikningar hafa verið gerðir til að áætla umfang kvikugangsins sem myndaðist 10. nóvember. Þeir líkanreikningar benda til þess að hluti kvikugangsins gæti verið breiðari en áætlað var í fyrstu. Gróft áætlað gæti storknun breiðasta hluta gangsins því tekið nokkra mánuði.

Yfirfarnir-skjalftar-27-nov

Myndin sýnir yfirfarna skjálfta frá 25. nóvember.

Uppfært 24. nóvember kl. 11:00

Í gær mældust um 650 jarðskjálftar nærri kvikuganginum og frá miðnætti í dag hafa tæplega 300 skjálftar mælst. Langflestir skjálftanna eru undir 1,0 að stærð en stærsti skjálftinn síðustu tvo daga mældist 2,7 að stærð nærri Hagafelli. Áfram dregur úr skjálftavirkni.

Aflögunargögn frá GPS mælum sýna að þensla heldur áfram við Svartsengi og aflögun mælist enn nærri kvikuganginum. Þó eru vísbendingar um að dragi úr aflögunarhraða sé horft á gögn síðustu viku. Hinsvegar er túlkun aflögunargagna flókin á þessu stigi. Það er vegna þess að önnur ferli eins og sprunguhreyfingar tengdar jarðskjálftum og seigfjaðrandi svörun jarðskorpunnar vegna umbrota á svæðinu hafa áhrif á aflögunarmerkin.

Miða við nýjustu samtúlkun allra gagna eru áfram taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum. Líklegast er að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells. Á meðan að áfram dregur úr aflögun, skjálftavirkni og innflæði í kvikuganginn minnka líkurnar á eldgosi með tímanum.

Graf-25.-november

Hér er yfirlit yfir skjálftavirkni frá föstudeginum, 17. nóvember. Efra grafið sýnir fjölda skjálfta á klukkustund og neðra grafið fjölda skjálfta á dag. Áhrif hvassviðris og öldugangs á Reykjanesskaga 21. og 22. nóvember koma fram í færri mældum skjálftum vegna skertrar næmni mælinga á þeim tíma.

Uppfært 22. nóvember kl. 18:15

Um 300 skjálftar mældust í gær og 100 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti, sem eru mun færri en síðustu daga. Einnig hefur dregið úr skjálftum yfir 2,0 að stærð. Fram eftir degi er áfram gert fyrir að veður og öldugangur hafi áhrif á næmni kerfisins til að nema minnstu jarðskjálftana.

Aflögun og innflæði tengd kvikuganginum heldur áfram að minnka. Landris við Svartsengi heldur áfram á svipuðum hraða. Líkanreikningar, byggðir á gögnum frá 21. nóvember benda til þess að innflæði í kvikuganginn sé mest við Sundhnúksgíga, um 4 km norð-norðaustan við Grindavík. Litlar hreyfingar hafa mælst innan sigdalsins í og við Grindavík síðustu daga.

Áfram eru taldar líkur á eldgosi á svæðinu yfir kvikuganginum. Líklegasta er að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells. Á meðan að áfram dregur úr aflögun, skjálftavirkni og innflæði í kvikuganginn minnka líkurnar á eldgosi með tímanum.

Út frá nýjustu gögnum og að teknu tilliti til þróunar virkninnar síðan 10. nóvember, hafa líkur á skyndilegri gosopnun innan bæjarmarka Grindavíkur farið minnkandi með hverjum degi og eru í dag taldar litlar. Reikna má með að kvikan í ganginum undir Grindavík sé að hluta til storknuð, sem einnig dregur úr líkum að sú kvika nái skyndilega að brjóta sér leið til yfirborðs innan bæjarmarkanna. Það skal hinsvegar tekið fram að áfram eru taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum og er líklegasta svæðið fyrir upptök eldgoss milli Hagafells og Sýlingarfells.

Mikilvægt er að taka fram að sterkar vísbendingar eru um tengsl milli kvikusöfnunar í Svartsengi og myndun kvikugangsins 10. nóvember. Líkön benda til þess að kvikan í innskotinu sem myndaði sylluna undir Svartsengi hafi hlaupið í austur að Sundhnúksgígum og í kjölfarið myndað kvikuganginn með þeim miklu umbrotum sem þá urðu. Á meðan að landris í Svartsengi heldur áfram má búast við að kvikan sem er að safnast þar geti hlaupið aftur. Við það gæti hún flætt inn í kvikuganginn sem nú liggur undir Grindavík. Einnig má reikna með að nýr kvikugangur geti myndast t.d. vestur af landrisinu við Svartsengi. Fyrirboðar um slíka atburðarás væri hægt að greina á skjálfta- og GPS mælum.

22-nov-ragnar-haettumatskort

Hættumatskort frá Veðurstofu Íslands hefur verið uppfært í dag 22. nóvember. Kortið er endurskoðað í takti við þróun virkninnar.

Uppfært 21. nóvember kl. 13:50

Frá miðnætti í dag hafa 165 jarðskjálftar, allir undir 2,0 að stærð, mælst við kvikuganginn, en það er nokkuð færri en síðustu daga en þá hafa mælst um 1500-1800 skjálftar á sólarhring. Gera má ráð fyrir að hvassviðri sem nú gengur yfir landið hefur áhrif á næmni kerfisins til að finna minnstu skjálftana, því er erfitt að meta hvort dragi úr skjálftavirkni að stöddu.

Áfram hægir á aflögun í og við kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember en land heldur áfram að rísa við Svartsengi. Hefur hraðinn á risinu í Svartsengi haldist nánast óbreyttur síðasta sólarhringinn.

Veðurstofan, í góðu samstarfi við sérfræðinga Háskóla Íslands, mun halda áfram vakta svæðið eins vel og hægt er og stöðugt endurmeta og túlka þau gögn sem berast. 

Eins og áður hefur komið fram þá hefur Veðurstofan aukið á vöktun í og við Grindavík, sem og á svæðinu umhverfis Hagafell á meðan íbúar nálgast eigur sínar og verðmæti og verktakar vinna við varnargarða. Skilvirkni þessarar vöktunar veltur á góðri næmni jarðskjálfta- og rauntíma GPS mælinga en næmnin er mjög háð veðuraðstæðum. Í ljósi þess að veðurspá næstu tveggja daga bendir til úrkomu og talsverðs vinds má gera ráð fyrir að bæði næmni jarðskjálfta- og  rauntíma GPS vöktunar Veðurstofunnar skerðist. Brim hefur áhrif á lágu tíðnina í óróamælingunum þar sem öldur koma fram sem órói. Þoka og dimm él hafa síðan áhrif á sjónræna staðfestingu á gosi með myndavélum.


Uppfært 20. nóvember kl. 16:30

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumatskort fyrir svæðið í kringum Grindavík og Svartsengi. Út frá nýjum gervitunglamyndum af Svartsengi og kvikuganginum ásamt gögnum sem voru til umræðu í morgun með almannavörnum, sérfræðingum frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands hefur hættusvæðið verið stækkað frá því áður.

Hættusvæðin eru þrjú eins og sjá má á kortinu. Almannavarnir og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafa kortið til hliðsjónar í skipulagninu fyrir svæðið. 

Haettusvaedi_VI_20nov_med_texta

Smellið á myndina til að stækka.

Uppfært 20. nóvember kl. 11:50

Frá miðnætti í dag hafa um 700 jarðskjálftar mælst nærri kvikuganginum, sá stærsti 2,7 að stærð nærri Hagafelli. Frá því á föstudag (17. nóvember) hafa um 1500-1800 jarðskjálftar mælst á dag við kvikuganginn og stærsti skjálftinn M3,0 að stærð á föstudagsmorgun.

Nýjar gervitunglamyndir af Svartsengi og kvikuganginum ásamt öðrum gögnum voru til umræðu á samráðsfundi sérfræðinga Veðurstofunnar, Háskóla Íslands og almannavarna í morgun.

Á gervitunglamyndum sem sýna breytingar sem orðið hafa frá 18. – 19. nóvember má sjá skýr merki um landris í Svartsengi á sömu slóðum og landris hafði mælst áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Þetta er í samræmi við það sem hefur sést á GPS stöðvum umhverfis Svartsengi og er ferli sem hófst strax í kjölfarið á kvikuhlaupinu 10. nóvember. Líkön sem reiknuð hafa verið út frá gervitunglamyndunum sýna að landrisið í Svartsengi er talsvert hraðara en áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Almennt þegar kvikugangur myndast sígur land í miðju gangsins eins og við sjáum í Grindavík, en rís sitt hvoru megin við hann. Merki um landris í Svartsengi vegna kvikusöfnunar hefur sést í nokkurn tíma, en svo blandast inn í þær mælingar áhrif frá myndun kvikugangsins.

Það að nú sjáist skýr merki um landris í Svartsengi breytir hinsvegar ekki líkunum á því að það gjósi á kvikuganginum. Það er metið m.a. út frá því að jarðskorpan yfir kvikuganginum er miklu veikari heldur en jarðskorpan yfir landrisinu í Svartsengi. Þannig að á meðan að ekki mælist mikil skjálftavirkni á svæðinu í Svartsengi eru ekki taldar miklar líkur á að gos komi upp þar, heldur miklu frekar yfir kvikuganginum þar sem kvikan á auðveldast með að komast upp á yfirborð.

Áframhaldandi landris við Þorbjörn í kjölfar myndunnar kvikugangsins, sýnir að við erum ennþá í miðri atburðarrás. Áfram þarf að gera ráð fyrir að þessi atburðarrás á svæðinu geti breyst með litlum fyrirvara. Veðurstofan, í góðu samstarfi við sérfræðinga Háskóla Íslands, mun halda áfram vakta svæðið eins vel og hægt er og stöðugt endurmeta og túlka þau gögn sem berast.  

20-nov-vincent

COSMO-Skymed bylgjuvíxlmynd sem spannar 24 klukkustundir milli 18. og 19. nóvember kl. 06:41. Merki um landris sést í appelsínugulu/rauðu litunum í kringum Svartsengi sem gefur til kynna djúpa þenslu (>5 km).

Uppfært 18. nóvember kl. 14:40

Virknin við kvikuganginn er nánast óbreytt frá því í gær. Síðasta sólarhring hafa mælst um 1700 skjálftar og síðan um miðnætti um 1000 skjálftar. Stærsti skjálftinn síðan á miðnætti mældist 2,8 að stærð í Hagafelli 3.5 km NNA af Grindavík.

Upplýsingafundur almannavarna var haldinn í dag kl. 13 þar sem farið var yfir stöðu mála.

Uppfært 17. nóvember kl. 12:00

Skjálftavirkni tengd kvikuganginum sem myndaðist fyrir um viku síðan helst nokkuð stöðug frá því í gær. Alls hafa um 2000 skjálftar mælst síðusta  sólarhringinn og er mesta virknin á svæðinu norður af Hagafelli að Sundhnúksgígum. Mest er um smáskjálfta undir 1,0 að stærð, en í morgun kl. 6.35 mældist skjálfti við Hagafell sem var 3,0 að stærð.

Samkvæmt GPS mælum heldur aflögun áfram en með minnkandi hraða. Nýjustu líkön sem reiknuð hafa verið út frá GPS mælingum og gervitunglagögnum benda ennþá til þess að mesta gliðnunin á kvikuganginum sé norður af Grindavík nálægt Hagafelli. Ef kvika nær að brjóta sér leið til yfirborðs, er því ennþá líklegast að það verði á því svæði.

Sigdalurinn yfir kvikuganginum er ennþá virkur þó svo að mælingar sýni að það hafi hægst örlítið á siginu á milli daga. Nú sýna GPS mælar sem staðsettir í og við Grindavík nærri miðju sigdalsins sýna um það bil 3-4 cm sig á milli daga.

Út frá samtúlkun á nýjustu gögnum og útreikningum með líkönum eru áfram eru taldar miklar líkur á eldgosi og mestar líkur eru á að það eigi upptök norðan Grindavíkur nálægt Hagafelli.


Uppfært 16. nóvember kl. 17:50

Skjálftavirknin við kvikuganginn hefur haldist nokkuð stöðug milli daga. Klukkan 17 í dag hafa um 1400 jarðskjálftar mælst frá miðnætti, sá stærsti 2,9 að stærð og mældist hann við Hagafell laust eftir kl. 13 í dag. Flestir skjálftanna voru undir tveimur að stærð og þéttasta virknin er við Hagafell.

Aflögun tengd kvikuganginum mælist áfram þó hún hafi hægt örlítið á sér frá því í gær. Nýjustu líkönin sem reiknuð hafa verið út frá GPS mælingum og gervitunglagögnum benda ennþá til þess að mesta gliðnunin á kvikuganginum sé norður af Grindavík nálægt Hagafelli. Ef kvika nær að brjóta sér leið til yfirborðs, er ennþá líklegast að það verði á því svæði.

Í dag mældist kvikugas, brennisteinsdíoxíð (SO2), upp úr borholu í Svartsengi sem staðsett er rétt norðan Þorbjarnar. Borholan er skáboruð í austur undir Grindavíkurveg og nær inn í jarðskorpuna í átt að Sundhnúksgígum. Endi borholunnar teygir sig því nálægt þeim stað í jarðskorpunni þar sem kvikugangurinn er talinn vera. Frekari mælingar verða gerðar á morgun en það að kvikugas mælist úr borholunni er staðfesting á að kvika sé til staðar norðan Hagafells, líkt og líkön hafa gefið til kynna.

Líkur á eldgosi eru ennþá taldar miklar. Áfram er fylgst með merkjum um grynnkandi smáskjálftavirkni og skyndilega gliðnun sem geta verið fyrirboðar þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs. Engin merki eru um slíkt.

Grindavik_situation_map_20231116

Kort sem sýnir umfang sigdalsins sem myndaðist í tengslum við kvikuganginn. Grænu punktarnir tákna GPS mælistöðvar.

Frá myndun kvikugangsins föstudaginn 10. nóvember hefur land sigið um allt að 25 cm innan sigdalsins sem þá tók að myndast. Á færslum á GPS mæli sem staðsettur er í miðjum kvikuganginum rétt norðar Grindavíkur mælist ennþá um 5 cm sig á dag. Samkvæmt nýjustu mælingum er sigdalurinn því ennþá virkur.

Gric-eldc_up_frett

Línurit sem sýnir landsigið í miðju sigdalsins rétt norðan við Grindavík og hvernig það hefur þróast frá 11. nóvember eftir að kvikugangurinn myndaðist.


Uppfært 15. nóvember kl. 11:00

Frá miðnætti hafa mælst um 800 smáskjálftar, langflestir um miðbik kvikugangsins við Sundhnúk á um 3-5 km dýpi. Skjálftavirknin hefur haldist stöðug frá 11. nóvember. Megin áhersla á vöktun skjálftavirkni er áfram á svæði gangsins og Grindavíkur.

Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi aflögun á svæðinu. Þær eru í samræmi við að kvika flæði enn inn í ganginn. Hluti kvikugangs virðist vera að storkna, einkum til jaðra en ekki við uppstreymissvæði kviku sem talið er vera við Sundhnúk.

Mælingar á brennisteinsdíoxíð (SO2) virðast sýna hviðukennda afgösun vegna kvikugangsins, en frekari mælinga er þörf því til staðfestingar. Greining þessara gagna er nú í gangi í samstarfi við Chalmers háskólann í Svíþjóð.             

Ljósleiðari HS Orku sem liggur frá Svartsengi vestur fyrir Þorbjörn og þaðan til Arfadalsvíkur er nú nýttur sem samfelld jarðskjálftamælilína með mikilli næmni. Þetta er ný tækni sem hefur þróast á síðustu árum og er nú nýtt sem viðbótarmælingar í samstarfi við HS Orku og ETH í Sviss.

Á heildina litið virðist staðan vera óbreytt frá því í gær. Líkur á eldgosi eru enn taldar miklar. Komi til goss er líklegust staðsetning við kvikuganginn.

Uppfært 14. nóvember kl. 18:00

Sérfræðingar hjá Veðurstofu Íslands settu upp á dögunum DOAS mælitæki upp á Húsafell sem mæla (SO2) í andrúmslofti. Einn af þessum mælum sýndi merki um að brennisteinsdíoxíð (SO2) væri til staðar í andrúmsloftinu yfir sigdalnum frá Sundhnúksgígum suður til Grindavíkur, bæði í dag og í gær.

Nokkurn tíma tók að túlka gögnin, sérstaklega þar sem mælitækið þarf dagsljós og virkar því ekki sem skildi í skammdeginu á Íslandi. Austlægar áttir hafa verið undanfarna daga og ekki er hægt að útiloka að skjálftavirkni síðustu daga hafi náð að losa um SO2 í einhverjum hluta kvikugangsins undir Fagradalsfjalli sem ekki er ennþá storknaður síðan í gosinu í júlí.  

Erfitt er að segja nákvæmlega til um á hvaða dýpi SO2 losnar úr kvikunni því þetta ferli er háð kvikuþrýstingi en almennt er talið að kvika þurfi að vera í efstu nokkur hundruð metrum jarðsskorpunnar. Það sem mælist í DOAS er ekki mælikvarði á loftgæði. Einungis mælar sem mæla staðbundinn styrk SO2 geta nýst í slíkt mat.     

DOAS (DIfferential Optical Absorption Spectrometer) eða litrófsgreinir er mælitæki sem getur numið styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) í andrúmslofti. Aðferðin byggir á að sýnilegt ljós, sem berst í gegnum andrúmloftið, lendir á nema í mælitækinu er greint með tilliti til þess að ákveðna liti (bylgjulengdir) vanti í mælt litrófið sem lendir á nemanum. Brennisteinsdíoxíð gleypir ákveðnar bylgjulengdir ljóss sem veldur því að þær lenda ekki á ljósnema mælitækisins í sama magni og aðrar bylgjulengdir. Neminn skannar ákveðinn geira af himninum og gefur því upplýsingar um styrk brennisteinsdíoxíðs innan svæðisins sem mælirinn skannar. DOAS mælingar þurfa dagsljós til að virka og eru því mjög erfiðar að eiga við á veturna á íslandi þegar birtustig jafnvel um hábjartan dag er lágt.

Uppfært 14. nóvember kl. 15:30

Nýir mælar sem Veðurstofan setti upp á dögunum nærri Grindavík numu gas eða (SO2) nú síðdegis. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað í kjölfarið að rýma Grindavíkurbæ, en þetta er ekki neyðarrýming. Engar aðrar vísbendingar eru um að gos sé að hefjast, en það er ekki hægt að útiloka það þar sem SO2 gas kemur ekki fram nema að kvika sé komin ofarlega í jarðskorpuna. Sérfræðingar hjá Veðurstofunni eru að yfirfæra þessar mælingar.

Uppfært 14. nóvember kl. 11:30

Frá miðnætti hafa mælst 700 skjálftar yfir kvikuganginum, sá stærsti  M3,1 við Hagafell. Í gærkvöldi voru gikkskjálftar við Kleifarvatn, stærsti var M3,8 kl. 21:09. Langflestir skjálftar eru við kvikuganginn, flestir litlir og á 3-5 km dýpi.

Aflögunarmælingar sýna áframhaldandi aflögun á svæðinu. Þær eru í samræmi við áframhaldandi kvikuflæði inn í ganginn, en einnig sýna þær sprunguhreyfingar á yfirborði.

Flæðið 12-13. nóvember var metið 75 rúmmetrar á sekúndu og er dýpið niður á kvikuganginn ennþá metið á um 800 m. Þessar tölur eru út frá líkanreikningum og háðar óvissu.

Megin áhersla á vöktun skjálftavirkni og aflögunar er á svæði gangsins og Grindavíkur. Nýjar GPS stöðvar hafa verið settar upp í Grindavík og nágrenni. Þær sýna að sigdalurinn sem myndast hefur er ennþá virkur. Einnig hafa verið settir upp mælar til að nema SO2 í andrúmslofti, með það að markmiði að nema S02 sem losnar úr kvikunni þegar hún nálgast yfirborð.

Líkur á eldgosi eru því enn miklar. Komi til goss er líklegust staðsetning við kvikuganginn. Ekki er að sjá vísbendingar í gögnum um annað.

Uppfært 13. nóvember kl. 16:10

Út frá greiningu á gervitunglagögnum sem Veðurstofan vann 12. nóvember kemur í ljós að nokkurs konar sigdalur hefur myndast sem liggur í gegnum hluta Grindavíkurbæjar. Gögnin sýna að í tengslum við myndun kvikugangsins hefur land í vesturhluta byggðarinnar sigið um allt að 1,0 m.

Gervitunglamynd (COSMO-SkyMed), svokallað bylgjuvíxlrit, sem nær yfir tímabilið 3.-11. nóvember. Myndin sýnir umfangsmikið aflögunarsvið sem tengist kvikuinnskotinu sem hófst síðdegis 10. nóvember hjá Svartsengi. Þetta bylgjuvíxlrit gerði vísindamönnum kleift að reikna líkan til að áætla umfang kvikugangsins. Niðurstaðan var að kvikugangurinn er um 15 km langur og að kvikan lægi á um 800 m dýpi þar sem hún væri grynnst. Út frá líkaninu var rúmmálsbreytingin í tengslum við myndun gangsins væri um 70 milljónir rúmmetra.

Bylgjuvixlm-13-nov-michelle

Þessi mynd var hluti af þeim gögnum sem voru samtúlkuð af vísindafólk Veðurstofunnar og Háskóla Íslands og var sú niðurstaða notuð til grundvallar þeirri ákvörðun almannavarna að rýma Grindavíkurbæ föstudagskvöldið 10. nóvember.

Verið er að vinna ný líkön byggð á nýrri ICEYE gervitunglamynd og einnig nýjum GPS mælingum sem ná yfir síðasta þróun virkninnar síðasta sólarhringinn. Þau líkön koma til með að gefa betri mynd af þróun kvikugangsins og magn kviku sem flæðir inn í ganginn.

Blar-litur-VI-13-nov-isl-Vincent

Þessi mynd sem byggð er á breytingum milli 10. og 11. nóvember, sýna breytingu sem varð á yfirborði við myndun kvikugangsins. Bláir litir tákna landsig og á myndinni má greinilega sjá legu kvikugangsins og sigdalinn sem myndast hefur við suðurenda hans.


Uppfært 13. nóvember kl. 11:40

Skjálftavirkni á umbrotasvæðinu hefur verið stöðug síðan 11. nóvember. Um 900 skjálftar hafa mælst frá miðnætti í dag 13. nóvember. Skjálftavirknin er dreifð um suðurhluta gangsins á milli Sundhnúks og Grindavíkur á um 2-5 km dýpi. ​

Enn mælist hæg minnkandi aflögun við Grindavík. ​Gliðnun er mest við miðju gangsins við Sundhnúk þar sem megin uppstreymissvæði kviku er talið vera.​

Það er mat Veðurstofunnar að virknin í og við Grindavík sé nánast óbreytt frá því í gær. Fylgst er gaumgæfilega með öllum mælakerfum í rauntíma, sér í lagi við Grindavík, sem gætu bent til breytinga á stöðunni. ​

Vakt Veðurstofunnar einbeitir sér sérstaklega að svæðinu í og við Grindavík og heldur úti sérstakri vöktun fyrir viðbragðsaðila sem sinna aðgerðum á staðnum.


Uppfært 12. nóvember kl. 11:30

Stöðufundi Veðurstofunnar, Almannavarna og sérfræringa Háskóla Íslands lauk kl. 11.

Frá morgni 11. nóvember hefur skjálftavirknin við kvikuganginn haldist nokkuð stöðug. Frá miðnætti 12. nóvember hafa um 1000 skjálftar mælst og hafa þeir allir verið undir 3,0 að stærð. Mesta skjálftavirknin hefur verið frá miðju gangsins norðan við og suður undir Grindavík. Flestir skjálftanna eru á 3-5 km dýpi við neðri hluta kvikugangsins.

GPS mælingar sem ná yfir síðasta sólarhring sýna að hægt hefur á aflögun tengt kvikuganginum sem myndaðist á föstudag, 10. nóvember. Það bendir til þess að kvika sé að færa sig nær yfirborði, engin líkön hafa verið keyrð til að ákvarða dýpi hennar að svo stöddu.

Fundurinn skilaði sameiginlegu mati til almannavarna og lögreglustjórans á Suðurnesjum um hvort svigrúm væri til aðgerða til að sækja nauðsynjar fyrir íbúa og sinna brýnum erindum í Grindavík og nágrenni. Á meðan að á slíkum aðgerðum stæði yrði nauðsynlegt að auka vakt svæðisins og fylgjast náið með merkjum um hvort að kvika komi upp. Það var mat vísindamanna að ef til aðgerða kæmi væri ráðlegt að hefja þessar aðgerðir strax þar sem óvissa um framvindu atburðarins vex eftir því sem líður á daginn.

Í framhaldi af þessu mati vísindamanna hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum tekið ákvörðun um að hleypa íbúum inn á skilgreint svæði í Þórkötlustaðahverfi og það er eingöngu gert til þess til að sækja gæludýr og ómissandi eigur.  Þetta verður skipulögð og stýrð aðgerð undir stjórn lögreglunnar. Þessi heimild nær eingöngu til þessa tiltekna hverfis, og ekki annarra hverfa eða svæða í Grindavik. Athugið að sérstök aðgerð er í gangi til þess að sækja alla hesta í hestahverfinu norðan við Austurver.

(Fréttin hefur verið uppfærð eftir nýjar upplýsingar frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum)


Uppfært 11. nóvember kl: 18:20

Klukkan 18:00 lauk stöðufundi vísindamanna á Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands og Almannavarna þar sem farið var yfir túlkun á nýjustu gögnum sem borist hafa frá því á hádegi í dag. Unnin voru líkön út frá gervitunglamyndum og GPS mælingum. Líkön sýna að umfang kvikugangsins er verulegt og kvika er að nálgast yfirborð. Gangurinn nær frá Kálffellsheiði í norðri og liggur rétt vestan Grindavíkur og í sjó fram í suðvestur stefnu. Kvikugangurinn er um 15 km langur og kvikan liggur á um 800 m dýpi þar sem hún er grynnst. Það skal tekið fram að líkönin byggja á gervitunglagögnum sem eru um 12 klukkustunda gömul og því þarf að gera ráð fyrir að kvikan hafi færst nær yfirborði en 800 m. Út frá þessu má álykta að verulegar líkur eru á að kvika nái að brjóta sér leið til yfirborðs. Auknar líkur eru einnig á að kvika geti komið upp á hafsbotni.

Dregið hefur mikið úr jarðskjálftavirkni eftir hádegi í dag. Talið er að megin ástæða þess sé mikil spennulosun á svæðinu vegna jarðskjálfta gærdagsins og aflögunar vegna kvikugangsins. Vegna spennulosunarinnar er líklegt að kvikan eigi greiða leið til yfirborðs og því er ekki hægt að gera ráð fyrir því að gosórói sjáist á mælum áður en eldgos hefst.

Byggt á túlkun nýjustu gagna hefur Veðurstofan sent tilmæli til almannavarna að líkur á eldgosi hafi aukist frá því í morgun og að eldgos geti hafist hvenær sem er á næstu dögum. Líkön benda einnig til þess að kvika geti komið upp á syðri enda kvikugangsins rétt utan Grindavíkur. Líkur á eldgosi á hafsbotni hafa því aukist og búa þarf sig undir möguleika á sprengigosi. Hættusvæði hefur verið skilgreint út frá legu kvikugangsins.

Kort-ragnar-11-nov

Kort sem sýnir áætlaða legu kvikugangs við Grindavík.

Uppfært 11. nóvember kl: 11:15

Um 800 skjálftar hafa mælst á umbrotasvæðinu frá því á miðnætti. Aðeins hefur dregið úr skjálftavirkninni síðustu klukkutímana, sem mælist þó ennþá mikil. Mesta skjálftavirknin síðustu klukkustundirnar hefur verið við suðvestur enda gangsins nærri Grindavík.

Verið er að vinna úr þeim gögnum sem borist hafa í gærkvöldi og nótt. Markmiðið er að átta sig betur á umfangi kvikuhreyfinganna sem mælst hafa. Gögnin benda til þess að kvikugangurinn nái frá Stóra-Skógsfelli í norðri og suður fyrir Grindavíkurbæ út í sjó. Samkvæmt allra fyrstu líkanreikningum, byggt á gervitunglagögnum síðan í gærkvöldi, var dýpi niður á topp kvikugangsins norður af Grindavík áætlað um 1,5 km. Út frá nýjustu GPS gögnum er hraði aflögunarinnar margfaldur á við það sem mælst hefur í umbrotunum á Reykjanesskaga. Út frá þeim mælingum og gervitunglamyndum virðist stærð kvikugangsins og kvikuflæðið honum tengdum vera margfalt á við það sem áður hefur mælst í umbrotunum á Reykjanesskaga síðustu ár. Þótt líkön bendi til þess að kvikugangurinn teygi sig út í sjó suður af Grindavík, þá er ólíklegt að kvika komi upp á hafsbotni, ef horft er til gossögunnar á þessu svæði auk þess sem gliðnun þar er mun minni en við miðbik sprungunnar við Sundhnjúkagíga.

Vísindamenn funda reglulega til að túlka þau gögn sem aflað er. Búist er við nýjum aflögunargögnum síðar í dag sem gefur skýrari mynd af þróun atburðarásarinnar. Blaðamannafundur verður haldinn í húsnæði almannavarna kl. 12 í dag þar sem farið verður betur yfir stöðu mála og mögulegar sviðsmyndir.

Líkur á eldgosi á næstunni verða að teljast verulegar

Skjalftavirkni_1011_1111

Yfirfarnir jarðskjálftar frá 21:00 í gærkvöldi.

Uppfært 10. nóvember kl: 23:00

Miklar breytingar hafa orðið á skjálftavirkninni sem mælst hefur við Sundhnjúkagíga í dag og síðdegis. Skjálftavirknin hefur færst suður í átt að Grindavíkurbæ. Byggt á því hvernig skjálftavirknin hefur þróast síðan kl. 18 í dag, ásamt niðurstöðum úr GPS mælingum eru líkur á því að kvikugangur hafi teygt sig undir Grindavíkurbæ. Í ljósi þessarar niðurstöðu hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýst yfir neyðarstigi Almannavarna. Hafin er rýming Gríndavíkurbæjar.

Á þessu stigi er ekki hægt að segja til um hvort og hvar kvika geti náð til yfirborðs. Vísbendingar eru um að talsvert magn kviku sé á hreyfingu á svæði sem liggur frá Sundhnjúkagígum í norðri í átt að Grindavík. Magn kviku sem um ræðir er umtalsvert meira en sést hefur í stærstu kvikuinnskotunum sem urðu í tengslum við eldgosin við Fagradalsfjall.  Verið er að afla frekari gagna til að reikna líkön sem gefa nákvæmari mynd af kvikuganginum. Á þessar stundu er ekki hægt að segja til um hvenær þeirri vinnu lýkur.


Uppfært 10. nóvember kl: 19:00

Skjálftavirknin sem mælist nú við Sundhnjúkagíga einskorðast við svæði sem er um 3 km norðaustur af Grindavík. Grynnstu skjálftarnir sem nú mælast eru á um 3 – 3.5 km dýpi.

Þau merki sem sjást núna við Sundhnjúkagíga eru sambærileg þeim sem sáust í aðdraganda fyrsta gossins við Fagradalsfjall 2021 og svipar mjög til skjálftavirkninnar sem mældist um mánuði fyrir gos. Ef sú atburðarrás er skoðuð sem endaði í eldgosinu sem hófst 19. mars og á meðan að skjálftavirknin grynnkar ekki verulega úr því sem komið er, þá er líklegasta sviðsmyndin sú að nokkrir dagar líði frekar en klukkustundir áður en kvika nær til yfirborðs. Ef sprunga kæmi upp þar sem skjálftavirknin er hvað mest núna, myndi hraun renna til suðausturs og til vesturs en ekki í átt til Grindavíkur. 

Samsett-mynd-10-nov

Jarðskjálftar 10. nóv. (til kl. 18:48). Skjálftamælistöðvar Veðurstofu Íslands eru sýndar með þríhyrndum táknum. Órói á fjórum stöðvum umhverfis skjálftavirnina sýnir mikla aukningu síðan kl. 15:00

Uppfært 10. nóvember kl: 17:45

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýsir yfir hættustigi Almannavarna vegna ákafrar jarðskjálftahrinu síðan kl 15:00 í dag við Sundhjúkagíga, norðan Grindavíkur. Skjálftar geta orðið stærri en þeir sem hafa átt sér stað hingað til og gæti þessi atburðarrás leitt til eldgoss. Búið er að færa fluglitakóðann upp á appelsínugulan. Veðurstofa Íslands fylgist vel með framvinduninni.

Eins og áður eru íbúar hvattir til þess að fylgjast með upplýsingagjöf á heimasíðu Almannavarna. Hættustig Almannavarna þýðir að hætta fer vaxandi og gripið er til ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja.

Uppfært 10. nóvember kl: 13:00

Nú rétt í þessu, kl 12:44 varð skjálfti af stærð M4,1 rétt við Sýlingarfell sem er vestan við Sundhnjúkagíga. Gígarnir eru um 2-3 km norðaustan við Grindavík. Nokkuð þétt jarðskjálftahviða hófst um klukkan 7 í morgun á þessum slóðum og hafa tæplega 800 skjálftar mælst þar frá miðnætti, þar af níu af stærð 3 eða stærri. Dýpi skjálftanna er um 5 km. Slíkar skjálftahviður hafa áður mælst á þessu svæði. Ekki er hægt að útiloka að skjálftavirknin við Sundhnjúkagíga sé vegna kviku á talsverðu dýpi.

Kvikusöfnun heldur áfram við Þorbjörn á sama dýpi og svipuðum hraða og áður. Henni fylgir hviðukennd skjálftavirkni líkt og varð vart við í gær og í morgun. Á meðan kvikusöfnun heldur áfram má búast við áframhaldandi skjálftavirkni sem verður vegna spennulosunar á svæðinu. Reikna má með skjálftum allt að M5,5 að stærð í slíkum hviðum. Á þessu stigi eru engar vísbendingar um að kvika sé a brjóta sér leið til yfirborðs.

Yfirfarnir-skjalftar-10-nov

Yfirfarnir skjálftar frá miðnætti

Uppfært 9. nóvember kl: 12:10

Það hafa mælst í kringum 1400 jarðskjálftar á síðasta sólahring. Virkni jókst upp úr miðnætti og hafa sjö skjálftar mælst yfir 4,0 að stærð síðan þá. Stærsti skjálftinn mældist M4,8 að stærð kl: 00:46 rétt vestan við Þorbjörn og er það stærsti skjálfti síðan jarðskjálftahrinan hófst 25. október. Skjáfltar yfir 4,0 að stærð mældust á svæðinu frá Eldvörpum að svæðinu austan Sýlingarfells. Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.

Samkvæmt GPS gögnum á miðnætti mældist enn landris á svæðinu. Verið er að yfirfara GPS gögnin í tengslum við skjálftavirknina í nótt. Ef miðað er við 27. október sem upphafsdag þenslunnar til dagsins í dag hefur land risið nokkuð jafnt þó svo að hröðun á ferlinu hafi mælst ólík á milli daga. Skjálftavirknin í nótt og í morgun er dæmi um þessa hviðukenndu skjálftavirkni sem má búast við á meðan að kvikusöfnun er í gangi. Það að nú mælist stærri skjálftar en áður á svæðinu, þarf ekki að þýða aukinn hraða á kvikusöfnun.

9-nov-mynd

Yfirfarnir skjálftar frá miðnætti.

Uppfært 8. nóvember kl: 13:40

Um það bil 1200 jarðskjálftar hafa mælst síðasta sólahring, flestir á svæðinu milli Þorbjörns og Sýlingarfells svipað og daginn áður. Stærsti skjálftinn var M3,4 að stærð klukkan 00:31 í nótt skammt sunnan við Þorbjörn. Skjálftavirknin heldur áfram á sama dýpi og áður. Áfram má búast við hviðukenndri skjálftavirkni á meðan að kvikusöfnun er í gangi. 

Landris heldur áfram á svipuðum hraða og hefur verið skv. Gervitungla- og GPS gögnum. Bylgjuvíxlmynd fyrir tímabilið 28. október til 6. nóvember sem sýnir nær lóðrétta hreyfingu staðfestir það, en einnig sýnir hún hliðrun vegna sprunguhreyfinga tengt jarðskjálftavirkninni. Uppfærð líkön byggð sömu gögnum áætla að kvikusöfnun í lárétta syllu á um 5 km dýpi heldur áfram og frá upphafi þenslumerkisins (27. október) er meðal innflæði áætlað um 5m3/s (óvissa er ±2m3/s).

Bylgjuvixlm-8-nov-uppfaerd

Bylgjuvíxlmynd (InSAR) fyrir tímabilið 28. okt til 6. nóv sýnir að aflögun á þessu tímabili er um 7 cm þar sem hún er mest.  Skarð í aflögunarmynstrinu sést einnig á myndinni SV við Þorbjörn sem kemur til vegna sprunguhreyfinga í jarðskjálftum.


Uppfært 7. nóvember kl: 13:30

Síðasta sólahring hafa mælst um 900 jarðskjálftar, flestir á svæðinu milli Þorbjörns og Sýlingafells. Stærsti skjálftinn var M2,9 að stærð upp úr klukkan 7 í morgun. Jarðskjálftavirknin er áfram á sama dýpi og áður.

Samkvæmt gervihnattagögnum sem unnið var úr um klukkan 17:00 í gær og ná yfir tímabilið milli 4. – 6. nóvember, staðfesta áframhaldandi landris við Þorbjörn. Sömu gögn sýna engin merki um kvikusöfnun í Eldvörpum eða við Sýlingrafell, austan Grindavíkurvegar, þar sem skjálftavirkni hefur mælst síðustu daga.

Kvikusöfnun heldur áfram á um 5 km dýpi á svæðinu NV við Þorbjörn. Ef miðað er við 27. október sem upphafsdag atburðarrásarinnar til dagsins í dag hefur land risið nokkuð jafnt þó svo að hröðun á ferlinu hafi mælst á milli daga. Áfram má búast við hviðukenndri skjálftavirkni á meðan að kvikusöfnun er í gangi.

Yfirfarnir-skjalftar-7-nov

Yfirfarnir jarðskjálftar frá 6. nóvember og það sem af er degi í dag, 7. nóvember.

Uppfært 6. nóvember kl: 12:40

Síðasta sólarhring hafa um 1300 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga, þar af þrír skjálftar yfir 3 að stærð. Stærsti skjálftinn varð um 3 km NA við Þorbjörn og mældist 3,6 að stærð  um kl. 7 í morgun.

Aflögunarmælingar sýna að landris heldur áfram á svæðinu NV við Þorbjörn og eru vísbendingar um aukinn hraða á þenslu frá því á föstudaginn 3. nóvember. Frá 27. október hefur land risið um 7 cm skv. GPS mælistöð á Þorbirni.  Aflögunin verður vegna kvikusöfnunar í syllu á um 5 km dýpi. Samkvæmt uppfærðum líkanreikningum, sem byggja á gögnum frá 27. október til 3. nóvember, er syllan orðin tvöfalt stærri en þær fjórar syllur sem hafa myndast við Þorbjörn frá árinu 2020. Innflæði inní sylluna er metið um 7 m3/s sem er fjórfalt hraðar en fyrri innskot við Þorbjörn.

Á meðan að kvikusöfnunin heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.

6-nov-2023

Gögn frá GPS mælastöð á Þorbirni. Neðsta myndin sýnir að landris er nú um 7 cm.

Uppfært 5. nóvember kl. 11:00

Upp úr kl. 5 í nótt hófst skjálftavirkni vestan við Eldvörp, sem er í um 6 km fjárlægð frá Þorbirni. Stærsti skjálftinn var um 4,2 að stærð og fannst hann í byggð. Áfram er talsverð skjálftavirkni á þessu svæði þó svo að dregið hafi aðeins úr virkninni frá því nótt. Þarna er um að ræða svokallað „gikkskjálfta“ sem eru viðbrögð við spennulosun vegna kvikuinnskotsins við Þorbjörn og eru ekki merki um kvikuhreyfingar á svæðinu við Eldvörp.

Af nýjustu aflögunargögnum að dæma heldur landris við Þorbjörn áfram á sama hraða og engin skýr merki eru um að kvika sé að færast nær yfirborði.  Búið er að keyra ný líkön til að áætla staðsetningu kvikuinnskotsins. Þau líkön benda ekki til neinna breytinga á staðsetningu kvikunnar sem liggur á um 4-5 km dýpi NV af Þorbirni. Á meðan að kvikusöfnunin heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.

Mikilvægt er að benda á það sem áður hefur komið fram að atburðarrásin á svæðinu við Þorbjörn er hluti af margþættu ferli kvikuhreyfinga í jarðskorpunni á Reykjanesskaga. Þessi ferli hafa áhrif á stóru svæði, þar á meðal Fagradalsfjall þar sem þensla heldur áfram frá því í ágúst.

Virkni_framidnaetti05112023

Mynd sem sýnir skjálftavirknina á Reykjanesskaga frá miðnætti 5. nóvember.


Uppfært 4. nóvember kl. 11:20

Eftir klukkan 17:30 í gær dróg töluvert úr skjálftavirkninni. Síðustu 12 klst. hafa um 900 skjálftar mælst og eru þeir allir undir þremur að stærð. Virknin eftir miðnætti hefur aðallega verið við Sundhnúkagígaröðina – NA af Þorbirni og einnig vestan Eldvarpa.

Skjálftavirknin hefur því minnkað talsvert frá því í gærmorgun, en þróun virkninnar bæði hvað varðar stærð, fjölda og staðsetningu jarðskjálfta er sambærileg þeirri þróun sem sést hefur áður í tengslum við kvikusöfnun í nágrenni Þorbjarnar.

Af nýjustu aflögunargögnum að dæma heldur landris á svæðinu áfram. Talið er að landrisið sé vegna kvikusöfnunar á um 4-5 km dýpi NV af Þorbirni. Á meðan að sú kvikusöfnum heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Grjóthrun getur orðið í kjölfar skjálfta, því skal fara með varúð við brattar hlíðar.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og funda með Almannavörnum um stöðu mála. Eins og áður hefur komið fram þá er horft sérstaklega til þess hvort að skjálftavirkni fari grynnkandi sem væri merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Samhliða því ætti að mælast skyndileg þensla á yfirborði á GPS mælum ásamt vaxandi óróa sem eru afar tíðir og litlir skjálftar. Engir skýr merki sjást um slíkt en atburðarrásin getur breyst með litlum fyrirvara.

Virkni_04112023

Jarðskjálftar (hringir) yfir stærð M1,5 frá miðnætti þann 3. nóvember til kl. 10:45 þann 4. nóvember. Litakvarðinn til vinstri sýnir hvenær á tímabilinu skjálftarnir urðu og stærð hringjanna sýnir afstæðan mun á skjálftastærð. Staðsetningar skjálftamælistöðva (þríhyrningar) og aflögunarmælistöðva (GPS, kassar) eru einnig sýndar.

Skjálftar í gær viðbrögð við spennu sem kvikusöfnun veldur

„Á svæðinu við Þorbjörn, vestan og austan hans og í raun meðfram flekaskilunum öllum, liggja sprungur sem stefna í suður-norður og tengjast flekaskilunum. Þær geta síðan hrokkið vegna álags frá kvikuvirkni og slíkt höfum við séð allt frá upphafi atburðarrásarinnar í Fagradalsfjalli 2021. Stærri skjálftarnir í gær við Þorbjörn urðu á slíkum sprungum og við þá spennulosun getur álagið færst yfir á aðrar nærliggjandi sprungur“, segir Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands. „Það er sú þróun sem við virðumst vera að sjá núna varðandi skjálftavirknina í gær og í nótt. Skjálftarnir austan og vestan við kvikuinnskotið hjá Þorbirni er það sem við höfum kallað gikkskjálfta og eru viðbrögð við þeirri spennu sem kvikusöfnunin veldur“, segir Benedikt.


Uppfært 3. nóvembere kl: 20:00

Um 450 skjálftar hafa mælst á svæðinu í kringum Þorbjörn frá kl. 15 í dag. Virknin er ennþá þónokkur, en skjálftarnir eru heldur minni en fyrr í dag.

Nýjustu GPS gögn sýna enga hröðun á landrisi í kjölfar skjálftavirkninnar fyrr í dag. Gervihnattagögn sýna heldur engar skýrar breytingar sem benda til þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs. Bæði GPS gögn og gervitunglamyndir staðfesta þó að kvika haldi áfram að flæða í innskotið sem myndast hefur undir svæðinu norðvestur af Þorbirni á um 4 km dýpi. Engin merki sjást heldur um gosóróa.

Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í grynnkandi skjálftavirkni og vaxandi óróa sem eru afar tíðir og litlir skjálftar. Samhliða því ætti að mælast skyndileg aflögun (gliðnun) á yfirborði á GPS mælum.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið en farið var yfir stöðuna á fundi með Almannavörnum fyrr í kvöld. Minnt er á að gera má ráð fyrir að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og skjálftar yfir 4 að stærð gætu fundist í byggð. Einnig má gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Grjóthrun getur orðið í kjölfar öflugra skjálfta, því skal fara með varúð við brattar hlíðar.


Uppfært 3. nóvember kl: 15:00

Jarðskjálfti af stærð M4,3 varð á milli Þorbjarnar og Sýlingafells kl. 13:14 í dag og annar jarðskjálfti af stærð M3,5 varð kl. 14:01 í Þorbirni. Þessir jarðskjálftar eru taldir vera áframhaldandi viðbrögð jarðskorpunnar við spennu vegna kvikusöfnunar undir Þorbirni. Engar vísbendingar eru um gosóróa og enn er vel fylgst með svæðinu.

Uppfært 3. nóvember kl: 13:50

Samkvæmt þeim gögnum sem voru tekin saman klukkan 11:00 í morgun sést að landrisið með miðju norðvestan við Þorbjörn heldur áfram. Þenslan er af völdum kvikuinnskots á um 4 km dýpi. Skjálftavirkni heldur áfram á svæðinu af völdum spennubreytinga í skorpunni sem innskotið veldur. Skjálftahrinan var ákafari eftir miðnætti og til morguns en frá miðnætti hafa um 1000 jarðskjálftar mælst á svæðinu, þar af tólf yfir M3,0 að stærð og tveir yfir M4,0 að stærð. Stærsti skjálftinn mældist kl. 08:06 og var M4,3 að stærð. Stærstu skjálftarnir í nótt virðast raða sér í norður-suður stefnu vestan Þorbjarnar. Slíkar sprungur eru þekktar á svæðinu en þær safna spennu sem tengist landreki og geta hrokkið vegna spennu frá innskotum.

Engin skýr merki eru að svo stöddu um að kvika sé að færast nær yfirborði. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í grynnkandi skjálftavirkni og vaxandi óróa sem eru afar tíðir og litlir skjálftar. Samhliða því ætti að mælast skyndileg aflögun (gliðnun) á yfirborði á GPS mælum. Vel er fylgst með þróun mála þar sem atburðarrásin getur breyst með litlum fyrirvara.

Líkanreikningar sýna að innskotið er staðsett norðvestan Þorbjarnar eins og myndin sýnir og er landris af og skjálftavirkni af völdum þess fremur víðfemt eins og sést hefur á gervihnattamyndum. Mesta skjálftavirknin undanfarið hefur þó verið yfir innskotinu sjálfu. Skjálftarnir sem mælast við Eldvörp og austan Grindavíkurvegar eru merki um spennulosun vegna kvikuinnskotsins en eru ekki skýr merki um kvikuhreyfingar á þeim svæðum.

Ragnar-heidar-3-nov

Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

Á myndinni er áætluð miðja kvikuinnskots skv. líkanreikningum út frá GPS og gervihnattamyndum ásamt skjálftavirkni frá 2. nóvember kl. 20 til 3. nóvember kl. 12 stærri en M1,0 að stærð. Líkanið gerir ráð fyrir kassalaga innskoti og er lengd og breidd þess háð mestri óvissu. Líkanið er sífellt uppfært með nýjum og fleiri gögnum og stærð innskotsins og lögum getur tekið talsverðum breytingum og er það til mælikvarði um óvissu. 


Uppfært 2. nóvember kl. 13:00

GPS gögn frá síðasta sólarhring benda til þess að landris haldi áfram á svipuðum hraða á svæðinu norðvestan við Þorbjörn. Jarðskjálftavirkni hefur verið nokkuð stöðug en í gær mældust um 800 jarðskjálftar á svæðinu í kringum Þorbjörn og var stærsti skjálftinn M3,7 að stærð kl. 00:56. Frá miðnætti í dag hafa um 400 jarðskjálftar mælst á svæðinu, sá stærsti 2,8 að stærð kl. 9:51.

Ítarlegri greining á nýlegum gervitungla- og GPS-gögnum staðfesta að kvikuinnskot er að myndast á 4-5 km dýpi undir svæðinu norðvestan við Þorbjörn.

Minnt er á að gera má ráð fyrir að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og skjálftar yfir 4 að stærð gætu fundist í byggð. Einnig má gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Grjóthrun getur orðið í kjölfar öflugra skjálfta, því skal fara með varúð við brattar hlíðar.

2-nov

Yfirfarnir jarðskjálftar frá miðnætti 1. nóvember til hádegis 2. nóvember.

Uppfært 1. nóvember kl. 12:20

Nýjasta gervitunglamynd síðan í gærkvöldi (31. október), sýnir 5-6 cm aflögun á 12 daga tímabili með miðju norðvestan við Þorbjörn. Sama aflögunarmerki sést á GPS mælingum á svæðinu og nýjustu GPS-mælingar frá því í morgun sýna að hraði aflögunarinnar er svipaður síðustu daga. 

Þegar jarðskjálfta-, aflögunar- og gervitunglagögn eru túlkuð saman er ályktað að kvikuinnskot sé til staðar á um 4 km dýpi norðvestan við Þorbjörn. Staðsetning kvikunnar er óbreytt frá því í gær þegar vart var við kvikuhreyfingar á svæðinu. Þá um morguninn hófst ör skjálftavirkni sem var merki um kvikuhlaup og stóð það yfir í um 2 klukkustundir. Nýjustu gögn gefa ekki til kynna að kvika sé að brjóta sér leið grynnra í jarðskorpunni en staðan getur hinsvegar breyst hratt.


Nýjasta gervitunglamynd síðan í gærkvöldi (31. október), sýnir 5-6 sm aflögun á 12 daga tímabili með miðju norðvestan við Þorbjörn.

Áframhaldandi skjálftavirkni á Reykjanesskaga

Frá því á miðnætti hafa hátt í 500 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga, flestir þeirra nærri Eldvörpum um 3 km vestan við Þorbjörn. Stærsti skjálftinn var M3,7 að stærð kl. 00:56. Gera má ráð fyrir að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og skjálftar yfir M4,0 að stærð gætu fundist í byggð. Einnig má gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Það er líkleg útskýring á jarðskjálftavirkni nærri Eldvörpum í dag, 1. nóvember.

Mikilvægt er að benda á það sem áður hefur komið fram að atburðarrásin á svæðinu við Þorbjörn er hluti af margþættu ferli kvikuhreyfinga í jarðskorpunni á Reykjanesskaga. Þessi ferli hafa áhrif á stóru svæði, þar á meðal Fagradalsfjall (þar sem þensla heldur áfram - síðan í ágúst 2023) og getur sú kvikusöfnun einnig valdið gikkskjálftum.


Uppfært 31. október kl. 13:30

Í morgun um kl. 8.40 hófst jarðskjálftahrina við Þorbjörn sem stóð yfir í tæpa 2 klukkutíma og sýndi öra virkni. Stærsti skjálftinn í hrinunni mældist M3,7.  Miðja hrinunnar var rétt austan við miðju landrissins sem mælst hefur. Dýpt skjálftanna var á bilinu 5 til 1.5 km. Engar vísbendingar eru um gosóróa en hrinan er skýrt merki um kvikuhlaup, þ.e.a.s. að kvika sé á hreyfingu á þessu dýpi. GPS mælingar styðja þá túlkun að um kvikuhlaup hafi verið að ræða, en þó hefur hægt á landrisinu sem hófst fyrir um fjórum dögum síðan. Fundur var með Almannavörnum og hagsmunaaðilum á Reykjanesskaga í morgun þar sem farið var fyrir nýjustu mælingar og mögulegar sviðsmyndir og viðbrögð við þeirri atburðarás sem nú er í gangi.

Náið fylgst með þróun virkninnar

Veðurstofan fylgist grannt með þróun mála og er horft til þess hvort að smáskjálftavirkni aukist nær yfirborði sem væru skýr merki um að kvika sé að brjóta sér leið í gegnum jarðskorpuna. Miðað við mælingar á hádegi eru engin skýr merki um slíkt. Staðan getur hinsvegar breyst hratt og ekki hægt að útiloka þá sviðsmynd að kvika nái að brjóta sér leið upp í jarðskorpuna á svæðinu norðvestur af Þorbirni. Það er mikilvægt að benda á að algengast er að kvikuhreyfingar sambærilegar þeim sem sjást nú fjari út og endi ekki með eldgosi. En áður hefur verið bent á að sprunguhreyfingar vegna gikkskjálfta nærri og austan Svartsengis gætu mögulega gert kvikunni auðveldara að færast grynnra í skorpunni.

THob_Skjalftavirkni_31102023

Yfirfarnir jarðskjálftar frá miðnætti í dag

Uppfært 30. október kl: 11:30

Gögn úr Sentinel gervitungli hafa ekki borist ennþá, en samfelldar GPS mælingar sýna áframhaldandi merki um landris á svæðinu norðvestan við Þorbjörn. Hraði þenslunnar hefur þó minnkað örlítið miðað við í upphafi. Fyrstu niðurstöður líkanreikninga benda til að kvika sé að safnast fyrir á um 4 km dýpi.   

Síðasta sólahringinn hafa mælst um 1300 jarðskjálftar á Reykjanesskaga. Meirihluti skjálftavirkninnar er á um 2-4 km dýpi. Stærsti skjálfti síðasta sólarhring var M2,7 að stærð kl. 11:40 í gær, 29. október.

Vísindamenn Veðurstofunnar munu fara á svæðið nærri Svartsengi og Þorbirni í dag til að framkvæma gasmælingar. Regluleg samskipti eru á milli Veðurstofunnar, HS-Orku og Almannavarna á meðan þessari virkni stendur.


THOB_8hrap-30-okt

Hér má sjá 8 klst lausnir fyrir cGNSS stöðina THOB - Þorbjörn. Nýjasti mælipunktur er síðan kl. 8:00 í morgun.

Uppfært 29. október kl: 14:00

Nýjustu gögn frá  GPS mælaneti Veðurstofunnar umhverfis Þorbjörn og Svartsengi, staðfesta að landris sem hófst 27. oktober heldur áfram. Eins og kom fram í uppfærslu fréttar í gærdag, er þenslan hraðari en í fyrri atburðum á svipuðu svæði 2020 og 2022. Heldur hefur dregið úr jarðskjálftavirkni norðan Grindavíkur á síðastliðnum sólarhring og ekki eru sjáanlegar breytingar á dýpi skjálfta. Rétt er að vara við því að á meðan  að landrisi stendur yfir, getur jarðskjálftavirkni tekið sig upp aftur, með jarðskjálftum sem fólk finnur vel fyrir.

Búist er við nýjum gervihnattagögnum seinna í dag og þá verður reynt að vinna úr þeim gögnum eins fljótt og auðið er. Gagnaúrvinnsla bylgjuvíxlmynda mun hjálpa til við að greina betur umfang virkninnar undanfarna 12 daga. Á morgun er búist við að niðurstaða þeirrar greiningar liggi fyrir.

Margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir á Reykjanesskaga, túlkun á aflögunar- og skjálftagögnum benda til þess að kvikusöfnun á dýpi sé á nokkrum afmörkuðum svæðunum sem hafa viðtæk áhrif á skaganum öllum.

THOB_8hrap-29-okt

Hér má sjá 8 klst lausnir fyrir cGNSS stöðina THOB - Þorbjörn. Nýjasti mælipunktur er síðan kl. 8:00 í morgun, 29. október.

Uppfært 28. október kl: 13:30

Nýjustu GPS gögn og InSAR mynd unnin úr gervitunglagögnum frá því síðdegis í gær sýna skýr merki um landris nærri Svartsengi. Landris virðist hafa hafist í gær, 27. október og bendir til aukins þrýstings, líklegast vegna kvikuinnskots á dýpi. Miðja landrissins er um 1,5 km norðvestan við Þorbjörn, nærri Bláa lóninu. Árin 2020 og 2022, mældist einnig landris á sama svæði. Þetta er í fimmta sinn síðan 2020 sem landris mælist þar. Fyrsta mat á hraða landrissins sem er í gangi núna er að það sé hraðara en áður. Að svo stöddu er ekki merki um að kvika færist nær yfirborði, aðstæður geta hins vegar breyst á skömmum tíma. Sprunguhreyfingar vegna gikkskjálfta nærri og austan Svartsengis gætu mögulega gert kvikunni kleift að færast grynnra í skorpunni.

Síðustu aflögunargögn frá Reykjanesskaga sýna að margþætt ferli kvikuhreyfinga stendur yfir í jarðskorpunni. Þessi ferli hafa áhrif á stóru svæði, þar á meðal Fagradalsfjall (þar sem þensla heldur áfram - síðan í ágúst 2023), svæði austan Festarfjalls (þar sem aflögun virðist hafa stöðvast) og á síðasta sólarhring sýna gögn landris nærri Svartsengi.

Yfir 7000 jarðskjálftar hafa mælst í jarðskjálftahrinu sem hófst 25. október norðan við Grindavík. Hrinan stendur enn yfir þótt aðeins hafi dregið úr virkninni. Þrátt fyrir það eru enn líkur á að jarðskjálftar finnist á svæðinu.

Líkanareikningar verða gerðir í dag til að reyna að áætla dýpi og stærð innskotsins norðvestan við Þorbjörn. Ný gervitunglagögn verða aðgengileg annað kvöld og túlkun á þeim á fyrripart mánudags (30. október). Þau gögn ættu að gefa aukna innsýn í kvikuhreyfingar og aflögun á Reykjanesskaga.

Insar-28-okt-nr-2

Aflögun frá 26.okt kl 05:21 UTC til 28.okt kl 05:21 UTC. Gervitunglagögn fengin í samstarfi við ICEYE (https://www.iceye.com/).

Uppfært 27. október kl 14:00

Jarðskjálftahrinan norðan við Grindavík heldur áfram og hafa um 1000 jarðskjálftar mælst frá miðnætti. Frá því að hrinan hófst þann 24. október hafa um 5800 skjálftar mælst. Skjálfti af stærð M4,0 varð kl. 04:02 í nótt um 2 km norðan við Grindavík. Skjálftavirknin er talin vera afleiðing spennubreytinga vegna aflögunar á Reykjanesskaga síðustu ár. 

Nýjustu cGPS gögnin staðfesta aflögun sem mældist í gær austan Festarfjalls. Samtals lárétt hreyfing sem  mælst hefur á FEFC stöðinni nær núna 2 cm. Í dag mælist þenslan líka á annarri stöð, Selatöngum, austan við FEFC stöðina. InSAR mynd unnin úr gervitunglagögnum frá 26-27 okt. sýnir engin merki um aflögun á þessu svæði, þó hreyfing á cGPS stöðvum á sama tímabili var um 1 cm, sem er líklega of litil til að sjást á gervitunglamynd. cGPS stöðvar í kringum og norðan við Gindavík sýna ekki markverðar breytingar.

Gps-stod-27-okt

Færslur á GPS stöðinni FEFC austan Festarfjalls. Bláa lóðrétta línan markar upphaf kvikuinnskots í júlí 2023 og rauða línan upphaf eldgoss 10. júlí 2023. Nýjustu gagnapunktar sýna færslur upp og í suðaustur.

Kort-27-okt

GPS stöðvar á Reykjanesskaga. Stöðvarnar Festarfjall (FEFC) og Selatangar (STAN), austan Festarfjalls hafa sýnt færslur

Uppfært: 26. október kl 15:00

Jarðskjálftahrinan sem hófst 24. október heldur áfram. Tæplega 4000 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaganum og þar af 14 yfir M3,0 að stærð. Mesta virknin hefur verið frá Stóra-Skógsfelli í norðaustri að Eldvörpum. Skjálftarnir eru á 2-6 km dýpi. Stærsti skjálftinn mældist 25. október kl 8:18 og var M4,5 að stærð. Vísindafólk Veðurstofunnar telur að skjálftarnir séu gikkskjálftar vegna áframhaldandi þenslu á töluverðu dýpi undir Fagradalsfjalli sem er í gangi síðan goslok sumarið 2023. Það er að segja afleiðing spennubreytinga vegna þenslu við Fagradalsfjall. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni næstu daga. Til lengri tíma gæti áframhaldandi söfnun kviku undir Fagradalsfjalli valdið frekari skjálftavirkni á Reykjanesskaga.

Aflögunarmælingar við Svartsengi og Grindavík sýna engar breytingar í tengslum við jarðskjálftahrinuna norðan við Grindavík. GPS mælingar á stöðinni FEFC, austan við Festarfjall, sýna færslu til suðausturs. Þessar mælingar gætu bent til þess að kvika sé til staðar á dýpi suðvestur af kvikuinnskotum sem myndast hafa í norðaustur-suðvestur stefnu undir Fagradalsfjalli síðan 2021. Starfsfólk Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið mjög náið og túlka nýjustu gögn þegar þau berast. Beðið er eftir InSAR gervitunglagögnum sem ættu að gefa heildstæðari mynd af aflögun á svæðinu.

Nytt-kort-26102023

Yfirfarnir gikkskálftar frá 20.-26. október.

Skrifað: 25. október 

Öflug jarðskjálftahrina hófst í nótt skammt norðan við Grindavík. Yfir eitt þúsund jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu frá miðnætti og heldur virknin enn áfram. Tveir stærstu skjálftarnir voru 3,9 að stærð kl. 5:35 og 4,5 að stærð kl. 8:18. Báðir skjálftarnir urðu á um 5 km dýpi. Nýjustu aflögunargögn frá nokkrum mælistöðvum nærri Grindavík sýna ekki markverðar breytingar tengdar þessarri skjálftahrinu. Miðað við aðgengileg gögn er líklegast að  skjálftavirknin sé afleiðing spennubreytinga vegna aflögunar á Reykjanesskaga síðustu ár.  Óvíst er að um sé að ræða kvikuinnskot undir svæðinu við Þorbjörn nærri Grindavík, en staðan getur breyst hvenær sem er og virknin þróast með skömmum fyrirvara, frá klukkustundum til daga. En eins og áður hefur verið fjallað um er landris í gangi á svæðinu í kringum Fagradalsfjall, sjá nýlega frétt.

Starfsfólk Veðurstofunnar heldur áfram að vakta svæðið mjög náið og túlka nýjustu gögn þegar þau berast. 

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar

Gps-mynd-fyrir-frett
Hér má sjá 8 klst lausnir fyrir cGNSS stöðina THOB - Þorbjörn. Nýjasti mælipunktur er síðan kl. 8:00 í morgun.Mynd-3

Yfirfarnir jarðskjálftar frá miðnætti til hádegis 25. október.

Sjalfvirkt

Sjálfvirkar staðsetningar jarðskjálfta frá miðnætti til hádegis 25. október.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica