Fréttir
Tveir gígar
Myndin er tekin um kl. 19:00, 5. september síðastliðinn af gígunum tveimur. Engin virkni sjáanlega. Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson.

Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram

10.10.2024

Uppfært 10. október kl. 15:30

  • GPS-mælingar sýna vísbendingar um að það hægi örlítið á hraða landriss í Svartsengi
  • Líkanreikningar, sem byggja á GPS gögnunum, sýna að örlítið hefur dregið úr kvikuinnflæði undir Svartsengi
  • Lítil jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni
  • Hættumat gildir til 17. október, að öllu óbreyttu

GPS-mælingar á Svartsengissvæðinu sýna vísbendingar um að undanfarið hafi smám saman dregið úr hraða á landrisi. Líkanreikningar, sem byggðir eru á GPS-gögnunum, sýna einnig vísbendingar um að örlítið dragi úr kvikuinnflæði undir Svartsengi.

SENG_10102024

Færslur á GPS stöðinni SENG við Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (9. október) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu sex eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars, 29. maí og 22. ágúst 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).

Að svo stöddu eru þetta litlar breytingar og áður hafa sambærilegar breytingar orðið á hraða kvikusöfnunarinnar nokkrum vikum fyrir síðustu gos. Náið verður fylgst með mælingunum næstu daga og vikur sem hjálpa til við túlkun og að spá fyrir um mögulega þróun atburðanna.

Á þessum tímapunkti er ekkert í gögnum Veðurstofunnar sem bendir til þess að kvikusöfnun undir Svartsengi komi til með að hætta á næstunni.

Frá síðustu goslokum (5. september) hefur verið lítil jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni en þar hafa einungis um 40 smáskjálftar mælst. Á sama tíma hefur verið jöfn virkni í vestanverðu Fagradalsfjalli, þar sem hátt í 400 smáskjálftar hafa mælst (<M1,5), flestir á 6-8 km dýpi, . Þessi smáskjálftavirkni hefur verið viðvarandi frá því að jarðhræringar hófust á Sundhnúksgígaröðinni.


Uppfært 24. september kl. 13:15

  • Landris heldur áfram á svipuðum hraða

  • Heildarrúmmál síðasta eldgoss var rúmlega 60 milljón m3

  • Lítil jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina síðustu vikur

Gögn frá GPS-mælum sýna að landris í Svartsengi heldur áfram að mælast á jöfnum hraða. Líkanreikningar byggðir á þeim gögnum sýna einnig að kvikusöfnun undir Svartsengi hefur haldið áfram á svipuðum hraða síðustu vikur. Samkvæmt mælingum á landrisi og áætlun á hraða kvikusöfnunar svipar þróunin til fyrri atburða á svæðinu.

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands hefur unnið úr gögnum sem sérfræðingar Eflu söfnuðu í drónaflugi yfir gosstöðvarnar þann 11. September. Gögnin sýna að hraunbreiðan sem myndaðist í síðasta eldgosi (22. ágúst - 5. september) var 61.2 milljón m3 og 15.8 km2 að flatarmáli. Gögnin sýna að síðasta gos var það stærsta á Sundhnúksgígaröðinni frá desember 2023. Þykkasti hluti hraunbreiðunnar er staðsettur í kringum gíginn sem var virkur lengst af.

Thykktarkort24092024

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt hraunbreiðunnar sem myndaðist í síðasta eldgosi. Kortið er byggt á mælingum Eflu en úrvinnsla gagna frá Náttúrufræðistofnun. Gráleit svæði sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

Jarðskjálftavirkni hefur verið lítil síðustu tvær vikur við Sundhnúksgígaröðina. Nokkur virkni hefur þó verið í vestanverðu Fagradalsfjalli á 6-8 km dýpi frá því að eldgosi lauk þann 5. september. Einnig hefur verið töluverð virkni í Trölladyngju síðustu daga. Flestir skjálftanna á svæðinu eru litlir en sá stærsti mældist M3.0 að stærð þann 22. september rétt austan við Trölladyngju. Engin aflögun mælist á svæðinu við Trölladyngju.

Skjalftakort24092024

Kort sem sýnir jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga frá 6. til 24. september. Á kortinu eru einnig útlínur hraunbreiðunnar sem myndaðist í síðasta eldgosi sýndar. Útlínur hraunsins eru byggðar á mælingum Eflu en úrvinnsla gagna frá Náttúrufræðistofnun.

Uppfært 19. september kl. 15:30

  • Landris í Svartsengi heldur áfram á jöfnum hraða

  • Mjög lítil jarðskjálftavirkni frá síðustu goslokum

  • Hættumat uppfært. Gildir að öllu óbreyttu til 3. október næstkomandi

Tvær vikur eru liðnar frá lokum síðasta eldgoss á Sundhnúksgígaröðinni. Gögn frá GPS-mælum sýna að landris í Svartsengi heldur áfram á jöfnum hraða. Líkanreikningar byggðir á þeim gögnum áætla að kvikusöfnun undir Svartsengi haldi sömuleiðis áfram á svipuðum hraða. Mælingar á landrisi og áætlun á hraða kvikusöfnunar svipar til þess sem sást á milli síðustu kvikuhlaupa og eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni.

Á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og magn kviku nær að verða sambærilegt og í aðdraganda síðustu atburða má búast við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Of snemmt er hins vegar að fullyrða um hvenær von er á næsta kvikuhlaupi eða eldgosi. Ef horft er til síðustu tveggja atburða er ólíklegt að það dragi til tíðinda á næstu vikum.

19092024likan

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Græna línan sýnir þróun kvikusöfnunar á milli síðustu tveggja eldgosa. Rauða línan sýnir þróun kvikusöfnunar eftir að síðasta eldgos hófst (22. ágúst) sem sýnir sambærilega þróun og sú græna.

Hættumat uppfært

Hættumat Veðurstofunnar hefur verið uppfært og gildir að öllu óbreyttu til 3. október næstkomandi.

Töluverðar breytingar hafa verið gerðar, þær helstu snúa að mati á hættu vegna sprunguhreyfinga og vegna jarðfalls ofan í sprungur en þessar tvær hættur hafa verið lækkaðar fyrir nánast öll svæði.

Hraunbreiðan er enn mjög heit og hætta af völdum hennar því talin mikil á þeim svæðum þar sem hraun rann í síðasta gosi og gasmengun töluverð frá hraunbreiðunni. Hætta af völdum gjósku er nú alls staðar á lægsta stigi.

Svaedi1_719092024

Í nýju hættumati er heildarhættan fyrir svæði 4 - Grindavík - metin „nokkur“ (gult stig), en hætta vegna jarðfalls ofan í sprungu er þó metin hærri, eða „töluverð“.

Veðurstofan vill taka það fram að enn er unnið að því að girða af og merkja hættuleg svæði innan Grindavíkur á vegum Grindavíkurnefndar. 

Hættumatið tekur ekki tillit til slíkra mótvægisaðgerða sem þykja nauðsynlegar til að koma í veg fyrir möguleg slys eða tjón af völdum þeirrar hættu sem er til staðar hverju sinni.

Fyrir utan þá hættu sem Veðurstofan metur eru fleiri þættir sem hafa áhrif á hversu mikil áhætta fylgir því að dvelja innan bæjarins hverju sinni, s.s. takmarkaðar flóttaleiðir, sprunguviðgerðir, hús sem geta hrunið, hætta af löskuðum rafstrengjum o.s.fr.v.

Haettusvaedi_VI_19sept_2024

(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 17. september kl. 16:00

  • Gosstöðvarnar hættulegar yfirferðar
  • Hættumat uppfært - verður endurskoðað 19. september

Hættumat Veðurstofunnar hefur verið uppfært og er óbreytt. Hættumatið verður endurskoðað á fimmtudaginn, 19. september - að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_17sept_2024

Uppfært 10. september kl 15:30

  • Kvikusöfnun hafin að nýju undir Svartsengi
  • Hraði á landrisi svipaður og í fyrri atburðum
  • Hraunjaðarinn enn virkur og hætta á hruni úr honum
  • Gosstöðvarnar hættulegar yfirferðar
  • Hættumat uppfært

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi. Hraðinn á landrisinu mælist svipaður og í fyrri atburðum. Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi má búast við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Á þessari stundu er of snemmt að segja til um hvort og þá hvenær næsti atburður gæti orðið. Þó svo að eldgosinu sé lokið er enn virkni í hraunjaðrinum. Búast má við að hann haldi áfram að skríða fram næstu daga og hætta er á hruni úr honum. Gosstöðvarnar eru því hættulegar yfirferðar.

Hættumat Veðurstofunnar hefur verið uppfært og er óbreytt. Hættumatið gildir fram að 17. september, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_10sept_2024


Uppfært 6. september kl. 16:00

  • Engin sjáanleg virkni í gígunum síðan í gærkvöldi
  • Landris er hafið að nýju í Svartsengi
  • Eldgosið stóð yfir í um 14 daga
  • Hættumat uppfært

Í ljósi þess að eldgosið sem hófst 22. ágúst er lokið, hefur hættumat verið uppfært og gildir að öllu óbreyttu til 10. september. Helstu breytingar eru að svæði 3, þar sem upptök eldgossins voru, hefur verið fært niður í mikil hætta (rautt), sem er vegna þess að hætta á gosopnun, gasmengun og gjósku er talin minni. Einnig hefur hætta á svæði 6 farið niður í töluverð (appelsínugul) vegna þess að hætta á gasmengun er talin minni. Hætta er metin „lítil“ eða „mjög lítil“ á svæði 1 (Svartsengi).

Haettusvaedi_VI_6sept_2024

Landris er hafið að nýju í Svartsengi sem þýðir að kvika er byrjuð að safnast aftur í kvikuhólfið. Áfram verður fylgst með hraða kvikusöfnunarinnar, en samkvæmt fyrstu líkanreikningum bendir til að hann sé svipaður og áður.

Kvikuholf05072024

Mynd sýnir „lokað” kerfi, það er þegar ekki er opið fyrir hraunflæði á yfirborði og kvikan streymir frá dýpi (rauð ör) í kvikuhólf undir Svartsengi á 4-5 km dýpi (appelsínugult svæði) sem veldur auknum þrýstingi í umhverfinu og að lokum mælanlegri aflögun á yfirborði.

Uppfært 6. september kl. 9:30

  • Engin sjáanleg virkni í gígum í um hálfan sólarhring
  • Síðustu merki um gosóróa sáust síðdegis í gær
  • Eldgosið stóð yfir í um 14 daga
  • Landris er hafið að nýju í Svartsengi
  • Hættumat verður uppfært síðar í dag

Eldgosinu norðan við Stóra-Skógfell er lokið. Gosið stóð yfir í um 14 daga.

Þetta var þriðja lengsta eldgosið af þeim sex sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni frá því í desember 2023. Gosið sem hófst um miðjan mars stóð í um 54 daga og eldgosið sem hófst í lok maí stóð yfir í um 24 daga.

TveirGigar_05092024_2

Mynd tekin um kl. 19 í gær, 5. september af gígunum tveimur. Engin virkni er sjáanlega. En á hitamynd hér fyrir neðan sést að ennþá er mikill hiti í hraunbreiðunni og hún lífshættuleg yfirferðar. (Ljósmyndir: Almannavarnir/Björn Oddsson)

TveirGigar_Hitamyndavel_05092024

Út frá líkanreikningum er ljóst að aldrei hefur jafn mikið magn kviku komið upp á yfirborðið frá því að jarðhræringarnar hófust haustið 2023. Ekki hefur tekist að mæla umfang hraunbreiðunnar vegna veðurs og því liggja endanlegar tölur um rúmmál kviku ekki fyrir.

Landris mælist í Svartsengi og er kvika því farin að streyma inn í kvikuhólfið að nýju. Of snemmt er að fullyrða um hraða kvikusöfnunarinnar, en fyrstu líkanreikningar benda til þess að hann sé svipaður og áður.

Oroagraf

Óróagraf sem frá mæli staðsettum rétt norðan Fagradalsfjalls (fad). Mælirinn er nýr jarðskjálftamælir VÍ sem settur var upp þann 29. ágúst. Á grænu og bláu línunum sést að gosórói fellur á milli kl. 15:00 og 17:00 í gær, 5. september. 

Hættumat verður uppfært síðar í dag.


Uppfært 5. september kl. 13:40

Virknin í eldgosinu heldur áfram að minnka síðustu daga. En áfram virðast þó tvö gosop vera virk. Hraunbreiðan norðan við gosopin heldur áfram að stækka á hægum hraða til norðurs og þykknar einnig á sama tíma. Að svo stöddu ógnar hraunflæði ekki innviðum í nágrenni gosstöðvanna. Mælingar á gosóróa og gasútstreymi frá eldgosinu benda einnig til þess að dregið hafi nokkuð úr gosinu síðustu daga.

Hraunbreida_05092024

Kort sem sýnir virka hluta hraunbreiðunnar sem hefur myndast í þessu eldgosi. Kortið er byggt á gögnum úr Iceye gervitunglinu.

GPS mælingar sýna vísbendingar um að landris sé hafið á ný í Svartsengi. Á sama tíma hefur dregið úr flæði frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni. Það bendir til þess að innflæði í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé meira en flæði úr eldgosinu á yfirborðinu. Þróunin er svipuð og eftir að síðasta gos hófst þann 29. maí. Þá byrjaði landris í Svartsengi að verða greinanlegt um tveimur vikum eftir að gosið hófst.

Mogi_05092024_is

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Græna línan sýnir þróun kvikusöfnunar á milli síðustu tveggja eldgosa. Rauða línan sýnir þróun kvikusöfnunar eftir að yfirstandandi eldgos hófst sem sýnir mjög svipaðan feril og sú græna.

Veðurspáin fyrir daginn (fimmtudag) er suðvestlæg átt á gosstöðvunum, 13-20 m/s og dálítil rigning eða þokusúld framan af degi, en síðan 10-15 m/s. Mengun frá eldgosinu berst til norðurs og norðausturs og gæti hennar orðið vart á Vatnsleysu og á höfuðborgarsvæðinu.

Hægt hefur á skjálftavirkni síðan að eldgosið hófst, 22. ágúst. Síðustu daga hefur dregið enn frekar úr virkninni og mjög lítil skjálftavirkni mælst síðustu daga. Hvassviðri gæti þó haft einhver áhrif á næmni jarðskjálftakerfisins til að nema allra minnstu skjálftana.

Hættumat er að mestu óbreytt nema að hætta vegna gjósku er metin minni núna. Kortið gildir að öllu óbreyttu til 10. september.

Haettusvaedi_VI_5sept_2024

(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 3. september kl. 15:15

Veðurstofan hefur uppfært hættumat sitt út frá þróun eldgossins og gildir það að öllu óbreyttu til 5. september. Helstu breytingar eru að svæði 5 fer úr mikilli hættu (rauð) í töluverða hættu (appelsínugul). Ástæðan fyrir því er að ekki er talin vera eins mikil hætta vegna gjósku. Hætta á gasmengun er metin út frá veðurspá næstu daga fyrir hvert svæði.

Önnur breyting á kortinu er að svæði 3, 5 og 6 hafa verið stækkuð um 2 km til norðausturs. Þessi breyting er gerð af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að hraunbreiðan sem hefur myndast í þessu gosi hefur náð út fyrir fyrri mörk svæðanna. Í öðru lagi til að taka tillit til þess að kvikugangurinn sem myndaðist þann 22. ágúst náði lengra til norðausturs en svæði 3 gerði áður.

Haettusvaedi_VI_3sept_2024

(Smellið á kortið til að stækka)

Spá veðurvaktar umgasdreifingu er norðvestlæg átt á gosstöðvunum í dag og mun loftmengun berast til suðausturs. Suðlæg átt er á morgun (miðvikudag), loftmengun berst til norðurs og gæti orðið vart á norðanverðu Reykjanesi.


Uppfært 3. september kl. 11:50

  • Innstreymi í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi er líklega jafnt útstreymi úr eldgosinu
  • Tvö gosop virk norðarlega á gossprungunni
  • Dregið hefur úr skjálftavirkni síðustu daga
  • Hættumat verður uppfært síðar í dag

Síðustu daga hefur hvorki mælst landris né landsig í Svartsengi. Það bendir til þess að innstreymi í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé sambærilegt við flæðið úr eldgosinu.

Til þess að fullyrða að landris sé hafið á ný þarf að horfa á þróun mælinga í nokkra daga. Það er vegna þess að breytingar á milli daga geta orðið vegna ýmissa áhrifa, t.d. rakainnihald í lofthjúp eða sólstorma.

 Kvikustreymi_1

Myndin hér að ofan sýnir aðstæður þar sem jafnvægi er á innstreymi kviku í kvikuhólfið og flæði úr eldgosi.  

SENG-plate-90d03092024

Færslur á GPS stöðinni SENG í Svartsengi síðan í lok júní 2024 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir lóðrétta hreyfingu í millimetrum. Rauða línan markar upphaf síðasta eldgoss, sem hófst 22. ágúst.

Tvö gosop er nú virk í eldgosinu sem hófst þann 22. ágúst. Þó nokkuð hefur dregið úr krafti eldgossins síðustu daga. Hraunbreiðan norðan við gosopin heldur áfram að stækka en dregið hefur verulega úr útbreiðsluhraðanum. Að svo stöddu ógnar hraunflæði ekki innviðum í nágrenni gosstöðvanna. Meðfylgjandi kort sem byggt er á Iceye gervitunglagögnum sýnir þróun hraunbreiðunnar frá 26. ágúst til 1. september.

Hraunflaedi03092024

Kort sem sýnir virka hluta hraunbreiðunnar sem hefur myndast í þessu eldgosi. Kortið er byggt á gögnum úr Iceye gervitunglinu.

Töluvert hefur dregið úr jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina síðustu daga. Þeir smáskjálftar sem mælast eru flestir norðarlega á gossprungunni sem var virk í upphafi þessa goss.

Uppfært hættumat verður birt síðar í dag.


Uppfært 29. ágúst kl. 16:50

  • Síðustu sólahringa hefur virknin í eldgosinu haldist nokkuð stöðug
  • Hraun flæðir að mestu til norðvesturs en einnig til austurs
  • Landsig mælist enn í Svartsengi. Kvikuhólfið er að tæmast hraðar en flæðir inn í það
  • Meiri skjálftavirkni eftir gos en í fyrri gosum. Um 20 skjálftar síðasta sólahring
  • Gasdreifingarspá í dag er norðvestan átt og fer gasmengun í suðaustur
  • Hættumat uppfært


Áfram gýs á svæðinu norðaustan við Stóra-Skógfell. Síðustu sólahringa hefur virknin haldist nokkuð stöðug. Það eru tveir meginstrókar virkir sem eru nokkuð kröftugir að sjá. Hraun heldur áfram að flæða að mestu til norðvesturs en einnig til austurs. Megin straumurinn er til norðvesturs en framrás hans er mjög hæg.

Output

Hér sjáum við þróun hraunsins út frá ICEye gervitunglamyndum á tímabilinu frá 26. ágúst kl 22:17 til 28. ágúst kl 23:23.

Meiri jarðskjálftavirkni er að mælast eftir að gos hófst 22. ágúst en í fyrri gosum á svæðinu. Ástæðan fyrir því er líklega að nú gýs norðar og þar eigi eftir að losa meiri spennu en sunnar þar sem hefur gosið áður. Um 20 skjálftar mældust í kvikuganginum síðasta sólarhring og 110 skjálftar síðan á mánudag, 26. ágúst. Að mestu bundið við virka gossvæðið.

Ennþá er að mælast landsig í Svartsengi, en það hægir á því. Þetta er mjög svipuð þróun og í síðasta gosi. Kvikuhólfið er því enn að tæmast hraðar en flæðir inn í það.

28082024_likan

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023.

Gasdreifingarspá í dag, fimmtudaginn 29. ágúst, er norðvestan 3-8 m/s og fer gasmengun í suðaustur. Snýst í vestan- og suðvestanátt í kvöld og þá blæs gasinu í austur og norðaustur yfir suðvestanvert landið. Á morgun er sunnan 10-15 (föstudag) og mengunin berst norður yfir Voga á Vatnsleysuströnd. Upplýsingar um loftgæði er að finna á vef Umhverfisstofnunar.

Hættumat uppfært

Hættumat hefur verið uppfært og gildir að öllu óbreyttu til 3. september. Helstu breytingarnar eru á Svæði 1 sem fer úr töluverðri (appelsínugul) hættu í nokkur (gul) hætta. Breytingin er gerð með tilliti til minni hættu vegna hraunflæði, gasmengunar og gjóskufalls. Minni gasmengun hefur einnig áhrif á Svæði 4 (Grindavík) og 7 samkvæmt gasdreifingarspá næstu daga. Svæðið innan brotalínunnar á Svæði 5 táknar líklega þróun hraunsins eftir nokkra daga.

Haettusvaedi_VI_29agust_2024

(Smellið á kortið til sjá það stærra)


Uppfært 26. ágúst kl. 14:45

  • Áfram gýs á svæðinu norðaustan við Stóra-Skógfell

  • Í upphafi eldgoss er áætlað að hraunflæði hafi verið um 1.500-2000 m3/s. Nú er það nokkrir tugir rúmmetra á sekúndu

  • Land seig um 40 cm þegar kvika hljóp úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina að kvöldi 22. ágúst

  • Allar mælingar benda til að þetta eldgos sé það stærsta frá því haustið 2023

  • Flatarmál hraunbreiðunnar orðið 15,1 km

  • Samkvæmt gasdreifingarspá verður mengun frá gosinu og gróðureldum m.a. í Svartsengi, Reykjanesbæ og Vogum.

  • Hættumat uppfært.

Allar mælingar sýna að þetta eldgos sé það stærsta á svæðinu frá því að jarðhræringarnar hófust haustið 2023. Það eru mælingar sem hafa verið gerðar á hraunbreiðunni hingað til og líkanreikningar sem áætla magn kviku sem fór úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina þegar eldgos hófst.

Áfram gýs á svæðinu norðaustan við Stóra-Skógfell. Síðasta sólahring hefur virknin einangrað sig nokkuð á einu svæði norðarlega á gossprungunni sem opnaðist að kvöldi 22. ágúst.

Hraunið flæðir nú að mestu til norðvesturs í tveimur megin straumum og hefur hægt verulega á framrás þess.

Hraunflaedi_26082024

Meðfylgjandi kort sýnir útbreiðslu hraunsins eins og hún var kl. 22:31 í gærkvöldi 25. ágúst. Þá var flatarmál hraunsins orðið 15,1 km2. Kortið er byggt á gögnum frá Iceye gervitunglinu.

Gera má ráð fyrir því að nú sé hraunflæði frá eldgosinu nokkrir tugir rúmmetra á sekúndu. Nákvæmar mælingar hafa ekki enn verið gerðar á því en matið er byggt á samanburði við fyrri eldgos á svæðinu og sjónrænt mat á virkni í gígunum. Í upphafi eldgossins er áætlað að hraunflæði hafi verið um 1.500 - 2000 m3/s, því er virknin í dag einungis brot af því sem hún var í upphafi.  

Þegar kvika hljóp úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina á fimmtudagskvöld seig land þar mest um 40 cm. Það er næstum tvöfalt meira en sigið sem mældist 29. maí í síðasta eldgosi sem passar vel við að þetta sé stærsti atburðurinn. Sigið heldur áfram en fer minnkandi dag frá degi. Ef gert er ráð fyrir því að kvikuflæði á laugardag hafi verið komið niður í 100 m3/s þá bendir minnkandi hraði á siginu til að nú sé flæðið komið niður í u.þ.b ¼ af því sem það var þá. Líkanreikningar benda til að 17-27 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu í Svartsengi frá því að eldgosið hófst.

GPS__26082024

Færslur á GPS stöðinni HS02 við Svartsengi síðan í lok júní 2024 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu eldgosa, sem hófust 28. maí og 22. ágúst.

Ekki verður hægt að fullyrða um  áframhaldandi kvikuflæði inn í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi fyrr en landris fer að sjást aftur. Það gæti byrjað að sjást eftir að hraunflæði í eldgosinu verður komið niður fyrir 4 m3/s sem er sambærilegt við innflæðið undir Svartsengi eins og það hefur verið áætlað til þessa.

Jarðskjálftavirkni er áfram lítil á svæðinu og þá aðallega við nyrstu sprunguna síðasta sólahring, en einn skjálfti M 3,4 að stærð varð nærri Kleifarvatni rétt fyrir miðnætti í nótt.

Samkvæmt veðurspá er hæg austlæg eða breytileg átt á gosstöðvunum í dag. Mengun frá gosinu og gróðureldum dreifist væntanlega um Reykjanesskaga, hennar gæti orðið vart um tíma m.a. í Svartsengi, Reykjanesbæ og Vogum. Í nótt verður suðaustan og austan 5-13 m/s og mun gasið þá berast til norðvesturs og vesturs, yfir Reykjanesbæ. Hægari norðlæg eða breytileg átt eftir hádegi á morgun og þá gæti gasmengunar orðið vart í Grindavík.

Hættumat uppfært

Veðurstofa Íslandshefur gefið út uppfært hættumat sem gildir til 29. ágúst, að öllu óbreyttu. Miðað við þróun gossins undanfarna daga og gasspá hefur hættumatið tekið nokkrum breytingum. Helsta breytingin er á Svæði 1 (Svartsengi) sem færist úr mikilli hættu (rauð) í töluverða hættu (appelsínugul). Talið er að minni hætta sé vegna hraunflæðis en meiri líkur á gasmengun og gjóskufalli. Svæði 7 færist úr talsverði hættu (appelsínugul) í nokkra hættu (gul), það er vegna þess að minni líkur eru á hraunrennsli og gasmengunar á svæðinu. Hin svæðin eru óbreytt, hins vegar er metin meiri hætta vegna hugsanlegs gjóskufalls á Svæði 5.

Haettusvaedi_VI_26agust_2024_2

(Smellið á kortið til að stækka)

Uppfært 25. ágúst kl. 8:50

  • Virkni eldgossins stöðug

  • Ennþá gýs á tveimur stöðum

  • Gígbarmar farnir að hlaðast upp

  • Lítil skjálftavirkni á svæðinu

  • Mikilvægt að fylgjast með gasdreifingarspá

Virkni eldgossins hefur verið nokkuð stöðug í nótt. Ennþá gýs á tveimur stöðum norðaustan við Stóra-Skógfell. Af vefmyndavélum að dæma eru gígbarmar farnir að hlaðast upp.

Hraun flæðir að mestu til norðurs en einnig er örlítill hraunstraumur til vesturs. Framrás hraunsins er hæg. Sú hrauntunga sem rann upphaflega til vesturs í átt að Grindavíkurvegi milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells virðist byrjuð að kólna og engin hreyfing þar sjáanleg á vefmyndavélum.

Skjálftavirkni er heilt yfir lítil á svæðinu og aðallega bundin við þann hluta svæðis þar sem gýs. Einn skjálfti M2.2 var við gosstöðvarnar um klukkan tvö í nótt.

Við minnum á spá veðurvaktar um gasdreifingu frá gosstöðvunum

Vefmyndavel_Fagradalsfjall_25082024_0455

Skjáskot úr eftirlitsmyndavél Almannavarna á Fagradalsfjalli sem sýnir virknina um klukkan fimm í morgun.


Uppfært 24. ágúst kl. 9:30

  • Eldgosið virðist hafa náð jafnvægi í gærkvöldi

  • Virknin er öll norðan við Stóra-Skógfell

  • Engin skjálftavirkni mælist syðst, nálægt Hagafelli eða Grindavík.

  • Gasmengun mun berast til suðurs

Eldgosið virðist hafa náð jafnvægi í gærkvöldi og hefur virknin verð nokkuð stöðug í alla nótt. Hún er öll norðan við Stóra Skógfell.

Virknin er bundin tvö staði á nyrðri sprungunni sem opnaðist í fyrrinótt. Myndarlegir kvikustrókar eru enn sjáanlegir en miðað við sjónmat þá virðast strókarnir hafa minnkað frá því í gærkvöldi.

Hraunið flæðir að mestu til norðvesturs og virðist ekki fara hratt. Hraunflæði í átt að Grindavíkurvegi virðist hafa stöðvast.

Jarðskjálftavirkni mjög lítil, einstaka skjálftar hafa mælst norður af Stóra-Skógfelli og við Fagradalsfjall. Engin virkni mælist syðst, nálægt Hagafelli eða Grindavík.

Áfram er spáð norðanátt og gerir spá veðurvaktar um gasmengun að hún muni berast til suðurs yfir Grindavík.

Vefmyndavel_Fagradalsfjall_24082024_0548

Skjáskot úr eftirlitsmyndavél Almannavarna á Fagradalsfjalli sem horfir til norðvesturs.


Uppfært 23. ágúst kl. 15:00

Hægt hefur á skjálftavirkni og aflögun á gosstöðvunum. Virknin það sem af er degi hefur verið bundin við svæðið norður af Stóra-Skógfelli.

Samkvæmt upplýsingum úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar nú upp úr hádegi er megin virknin bundin við tvö svæði á norðan við Stóra-Skógfell.

Gossprungur_23082024_1330

Mynd úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar sem tekin var í flugi rétt upp úr hádegi í dag og horfir yfir nyrsta hluta gossprungunnar. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Mjög lítil virkni er á sprungunni sem opnaðist í upphafi goss. Einungi virðist gjósa á litlum kafla beint austur af Stóra-Skógfelli. Virðist virknin vera að dragast saman á afmarkaðri svæðum, líkt og sést hefur í fyrri gosum. Hrauntungan sem nálgaðist Grindavíkurveg í upphafi goss hefur því nánast stöðvast.

Hraunbreidan_23082024_1330

Ljósmynd úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar í morgun. Horft til suðurs. Þorbjörn og Svartsengi sjást í fjarska hægra megin á myndinni. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Megnið af hraunflæðinu hefur verið til norðvesturs eins og sést á ljósmyndinni hér að ofan og á yfirlitskortinu sem birt var fyrir hádegi í færslu hér fyrir neðan.

Talsvert er um gróðurelda vegna hraunflæðis. Mengun vegna þessa sem og gasmengun berst í suður. Sjá nánar gasdreifingarspá veðurvaktar næstu daga.

Hættumat uppfært

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat í ljósi nýjustu gagna. Þar er meðal annars tekið tillit til þess að engin skjálftavirkni eða aflögun hefur mælst suður af Stóra-Skógfelli. Einnig er tekið tillit til þess að ekkert hraunflæði er til suðurs. Því er helsta breytingin frá síðasta hættumati sú að hættustig fyrir svæði 4 – Grindavík – hefur verið fært niður úr rauðu í appelsínugult.

Hættumatið gildir til kl. 15, mánudaginn 26. ágúst, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_23agust_2024_1500


Uppfært 23. ágúst kl. 11:45

Í upphafi gossins opnaðist gossprungan á milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks líkt og í síðustu eldgosum. Fyrstu klukkustundir gossins lengdist sprungan stöðugt í norðaustur frá Stóra-Skógfelli þar til á milli kl. 5 og 6 í morgun. Á sama tíma og gosvirknin færðist norðaustur þá dró úr virkninni á suðurhlutanum og gýs nú á sprungu á svæðinu frá Stóra-Skógfelli og þaðan til norðaustur í um 2-3 km. Gossprungan sem nú er virk nær nokkuð norðar heldur en í þeim eldgosum sem hafa orðið síðan í desember 2023 á þessu svæði.       

Þegar virkni á gossprungunni færðist norðar hægði á hraunflæði í átt að Grindavíkurvegi norðan Svartsengis. Meginstraumur hraunflæðis er því til norðvesturs norðan Stóra-Skógfells. 

Hraunbreidan23082024

Kort sem sýnir útbreiðslu hraunsins (skástrikað svæði) sem hefur myndast í þessu gosi og staðsetningu gossprungunnar (rauð lína) eins og hún var kl. 03:39 í nótt. Einnig eru sýndar þær hraunbreiður sem hafa myndast á svæðinu frá desember 2023 (Fjólubláar þekjur). Kortið er byggt á gögnum úr IcEYE gervitungli.

Samhliða því að gossprungan lengdist mældist töluverð skjálftavirkni og aflögun í kringum gossprunguna.  Eftir klukkan 4 í morgun dró verulega úr skjálftavirkni og hægðist sömuleiðis á aflögun, sem passar vel við þróun gossprungunnar. Þrátt fyrir að dregið hafi úr hraða aflögunar mælist hún þó enn.  

Kortjardskjalftar23082024

Til vinstri er kort sem sýnir yfirlit yfir þróun og staðsetningu jarðskjálfta í kringum Sundhnúksgígaröðina síðan kl. 20:00 í gærkvöldi til kl. 11:00 í dag. Til hægri er súlurit sem sýnir fjölda skjálfta sem mældust á hverri klukkustund.

Í dag og á á morgun er norðan og norðvestanátt á gosstöðvunum. Gasmengun frá eldgosinu mun því berast til suðurs og suðausturs. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá á vefnumokkar.


Uppfært 23. ágúst kl. 9:35

Dregið hefur nokkuð úr virkni eldgossins frá því sem mest var í gærkvöldi.

Virknin er nú að mestu bundin við norðurenda gossprungunnar sem opnaðist fyrst og á gossprungunni sem opnaðist í nótt norður af upphaflegu sprungunni.

Skjálftavirknin minnkað hratt upp úr klukkan 4 í nótt. Áfram mælist þó gliðnun norður af Stóra-Skógfelli. Það bendir til þess að gosið er ekki búið að ná jafnvægi.

Gossprungan sem opnaðist norður af þeirri fyrstu virðist hafa lengst um 2 km milli klukkan 4 og 8 í morgun.

Hraunflæði í átt að Grindavíkurvegi hefur að mestu stöðvast og eins og staðan er núna eru engir innviðir í hættu.

Ekkert í gögnum bendir til þess að virknin komi til með að færast í suður í átt að Grindavík.

Samkvæmt vefmyndavélum virðist engin virkni vera suður af Stóra-Skógfelli.

Verið er að rýna nýjustu gögn til að meta betur mögulega þróun atburðarrásarinnar.



Uppfært 23. ágúst, kl. 01:00

Lengd gossprungunnar hefur haldist óbreytt síðustu klukkustundina.

Skjálftavirknin helst nú nokkuð jöfn og er mesta virknin við norðurenda gossprungunnar. Því er ólíklegt að gossprungan komi til með lengjast til suðurs. Ekki er hægt að útiloka að gossprungan geti lengst til norðurs.

Hraunrennsli er áfram til austurs og til vesturs í átt að Grindavíkurvegi. Ekkert hraunrennsli er til suðurs í átt að Grindavík.

Landhelgisgæslan mun fara í annað eftirlitsflug síðar í nótt.

Næsta uppfærsla á vefnum verður með morgninum. Sólarhringsvakt Veðurstofunnar mun birta færslur á Facebook síðar í nótt með nýjar upplýsingar af virkninni.

Veðurstofan hefur uppfært hættumat sem gildir til kl. 15 í dag, föstudaginn 23. ágúst.

Haettusvaedi_23082024
Rauða strikið innan hættusvæðis 3 táknar núverandi gossprungu.

Uppfært kl. 23:25

Við minnum á spá veðurvaktar um gasdreifingu.

Norðan og norðvestanátt á gossvæðinu á morgun. Gasmengun berst til suðurs og suðausturs.

Uppfært kl. 22:54

Gossprungan núna nær jafnt langt í norður og gossprungan náði sem opnaðist í eldgosinu í desember á síðasta ári.

Uppfært kl. 22:45

Áfram er talsverð skjálftavirkni við norðurenda gossprungunnar.

Klukkan 22:37 mældist skjálfti að stærð 4. Upptök skjálftans voru um 3 km norðaustur af Stóra-Skógsfelli.

Hraunrennsli er til austurs og vesturs. Ekkert hraunrennsli er í átt að Grindavík.

Uppfært kl. 22:30

Gossprungan hefur lengst til norðurs.

Heildarlengd sprungunnar er núna um 3.9 km og hefur því lengst um 1.5 km á um 40 mínútum.

Gossprungan_2228

Uppfært kl. 22:15

Myndaröð úr vefmyndavél á Stóra-Skógfelli.

Hún sýnir þróun hraunbreiðunnar á 10 mín fresti frá kl. 21:30 til 21:50.

Út frá þessum myndum hefur hraunbreiðan ferðast um 1 km á 10 mínútum.

Hreyfing_Webcam_2130

Uppfært kl. 22:00

Fyrstu myndir af eldgosinu úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar.

Gossprungan virðist stækka meira til norðurs en suðurs.

Lengd gossprungunnar er áætluð núna um 1.4 km.

Midill--16-

Gossprungan kl. 22:00. Horft til suðausturs. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Uppfært kl. 21:58

Gossprungan stækkaði til að byrja með bæði til norðurs og suðurs.

Á þessum tímapunkti sést engin skjálftavirkni til suðurs eftir kvikuganginum. Mesta skjálftavirknin er til norðurs sem bendir til þess að kvikan sé að brjóta sér leið í norður frekar en til suðurs.

Image--27-

Uppfært kl. 21:26

Eldgos er hafið.

Upptökin eru austan við Sýlingarfell.

Gosmökkur liggur til hásuðurs og var um 21:30 í innan við kílómetershæð.


Uppfært 22. ágúst kl. 21:25

Klukkan 20:48 hófst áköf smáskjálftahrina á Sundhnúksgígaröðinni milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells.

Einnig hefur mælst aukinn þrýstingur í borholum. 

Þetta eru skýr merki um að kvikuhlaup sé hafið og líklegt að eldgos hefjist í kjölfarið.



Uppfært 20. ágúst kl. 13:15

  • Skjálftavirkni vex dag frá degi
  • Tveir skjálftar yfir 2 að stærð mældust í nótt
  • Skýr merki um að þrýstingur er að aukast á svæðinu
  • Þróun í kvikusöfnun og landrisi hefur verið óbreytt síðustu daga
  • Magn kviku undir Svartsengi meira en fyrir síðustu atburði
  • Hættumat og sviðsmyndir óbreyttar

Skjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina sýnir áfram sömu merki og sáust dagana fyrir eldgosið sem hófst 29. maí. Tveir skjálftar yfir 2 að stærð mældust í nótt og hafa alls sex skjálftar yfir tveimur mælst síðustu viku.

Skjálftavirknin er merki þess að þrýstingur heldur áfram að vaxa á svæðinu vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi.

Þróun í kvikusöfnun og landrisi hefur verið óbreytt síðustu daga. Líkanreikningar sýna að heildarrúmmál kviku undir Svartsengi er nú meira en það hefur verið fyrir síðustu atburði.

Áfram eru því taldar miklar líkur á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni hvenær sem er.

Hættumat og sviðsmyndir eru áfram óbreyttar.

Graf_Merking_Landscape_IS_20082024

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. október. Heildarrúmmál kviku undir Svartsengi er nú meira en það hefur verið fyrir síðustu atburði


Uppfært 19. ágúst kl. 10:00

  • Aukning í skjálftavirkni á kvikuganginum um helgina
  • Um 110 skjálftar mældust í gær, í síðustu viku voru þeir um 60-90 á sólarhring
  • Meira en 50 skjálftar frá miðnætti
  • Skjálftavirkni svipar mjög til virkninnar dagana fyrir síðasta eldgos
  • Landris og kvikusöfnun á svipuðum hraða síðustu daga
  • Rúmmál kviku undir Svartsengi áætlað meira en fyrir síðasta eldgos 29. maí

Undanfarna daga hefur verið aukning dag frá degi í fjölda skjálfta í kringum Sundhnúksgígaröðina. Um 110 skjálftar mældust í gær, 18. ágúst, en í síðustu viku voru þeir um 60 til 90 á sólarhring. Meira en 50 skjálftar hafa mælst frá miðnætti í dag.

Flestir skjálftanna sem mælast eru undir 1,0 að stærð en um helgina mældust þó tveir skjálftar yfir 2,0 að stærð. Annar þeirra var skammt austan við Sýlingarfell og hinn á milli Hagafells og Sýlingarfells. Sá síðarnefndi var 2,5 að stærð og er það stærsti skjálftinn sem hefur mælst á svæðinu frá því að síðasta eldgosi lauk.

Skjálftavirknin nú svipar mjög til skjálftavirkninnar dagana fyrir eldgosið sem hófst 29. maí.

Áfram er því líklegt að dragi til tíðinda á Sundhnúksgígaröðinni með kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.


Uppfært 16. ágúst kl. 14:00

  • Landris og kvikusöfnun á svipuðum hraða síðustu daga
  • Rúmmál kviku undir Svartsengi áætlað meira en fyrir síðasta eldgos 29. maí
  • Skjálftavirkni stöðug og hafa um 60-90 skjálftar mælst á sólarhring
  • Hægt er að sjá hættumat hér, gildir til 20. ágúst að öllu óbreyttu

Jarðskjálftavirkni hefur verið nokkuð stöðug síðustu daga og hafa um 60 til 90 skjálftar mælst á sólarhring. Flestir skjálftanna er smáskjálftar undir 1.0 að stærð á svæðinu frá Stóra-Skógfelli að Grindavík. Þetta er svipuð virkni og hefur verið síðustu tvær vikur.

Landris og kvikusöfnun hefur verið á nokkuð stöðugum hraða undanfarna daga. Einnig sýna líkanreikningar að rúmmál kviku undir Svartsengi er núna áætlað meira en fyrir síðasta eldgos sem hófst þann 29. maí. Fyrir síðasta gos hélt kvikusöfnun áfram í 2 vikur eftir að fyrri mörkum var náð þar til eldgos hófst.

Ef skoðuð er virkni fyrir fyrri eldgos og kvikuinnskot, að þá er skjálftavirkni nú ásamt landrisi að sýna skýr merki um að kvikuinnskot og jafnvel eldgos geti hafist hvenær sem er. Ef miðað er við síðasta eldgos, þá gæti þurft áframhaldandi kvikusöfnun í 2-3 vikur til viðbótar áður en nýtt eldgos hefst.

GPS-svartsengi16082024

Færslur á GPS stöðinni SENG við Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (15. ágúst) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu fimm eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. Mars og 29. maí 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. Nóvember 2023 og 2. mars 2024).

Veðurstofa Íslands heldur áfram að fylgjast grannt með stöðunni allan sólahringinn.   Hægt er að sjá hættumat hér, en það gildir að öllu óbreyttu til 20. ágúst.


Uppfært 13. ágúst kl. 12:00

  • Aflögun og jarðskjálftavirkni sýna svipuð merki og fyrir síðustu eldgos á Sundhnúksgígaröðinni

  • Rúmmál kviku undir Svartsengi áætlað rúmlega 20 milljón rúmmetrar

  • Jarðskjálftavirkni á svæðinu hefur farið vaxandi síðustu vikur. Um 60-80 skjálftar á sólahring.

  • Hættumat óbreytt frá síðustu viku og gildir til 20. ágúst, að öllu óbreyttu.

Mælingar á aflögun og jarðskjálftavirkni sýna svipuð merki og fyrir síðustu eldgos á Sundhnúksgígaröðinni. Einnig sýna líkanreikningar að rúmmál kviku undir Svartsengi er núna áætlað meira en fyrir síðasta eldgos sem hófst þann 29. maí. Landris og kvikusöfnun hélt áfram í tvær vikur áður en til eldgoss kom. Þess vegna þarf að gera ráð fyrir því að kvikuhlaup og eldgos geti hafist hvenær sem er, en fyrri dæmi sýna að það gæti þó dregist.

Jarðskjálftavirkni á svæðinu hefur farið vaxandi síðustu vikur og sýnir svipaða þróun og fyrir síðustu kvikuhlaup og eldgos. Síðustu sjö daga hefur virknin verið svipuð á milli daga og um 60 til 80 skjálftar mælst á sólarhring á svæðinu frá Stóra-Skógfelli að Grindavík. Flestir skjálftanna eru á um 2 – 4 km dýpi, þeir grynnstu á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells.

Mynd_13082024-1

Jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni síðan 1. desember 2023 sem sýnir breytingar í jarðskjálftavirkni á milli eldgosa og kvikuhlaupa sem hafa orðið síðan þá.

Aflögunargögn sýna að landris hefur verið stöðugt síðustu eina og hálfa viku en áfram hægir örlítið á því. Það bendir til þess að kvikuþrýstingur sé að aukast undir Svartsengi. Líkanreikningar áætla að rúmlega 20 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi frá síðasta eldgosi. Þetta er svipuð þróun og í aðdraganda síðustu kvikuhlaupa og eldgosa eins og eftirfarandi línurit sýnir.

Likan_Textaleidretting13082024

Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. október. Hvert kvikuhlaup hefur ekki tæmt kvikusöfnunarsvæðið og því er upphafsstaða kvikusöfnunar undir Svartsengi mismunandi í hverri lotu eftir nóvember 2023.

Hættumat óbreytt

Hættumat Veðurstofunnar er óbreytt frá því sem áður var. Uppfært hættumat gildir til 20. ágúst að öllu óbreyttu. Sviðsmyndir eru einnig óbreyttar.

Haettusvaedi_VI_13agust_2024

(Smellið á kortið til að sjá stærri)

Sviðsmynd 1 - Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur).
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1,5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi utan varnargarða.

Sviðsmynd 2  - Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti og efsti hluti svæðis 4). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024.

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Lengri fyrirvari ræðst af því hversu langt til suðurs kvikan brýtur sér leið áður en hún leitar upp á yfirborðið.
  • Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.
  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Kvikugangur sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 
  • Í þessari sviðsmynd þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Einn möguleikinn er sá að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík geti flætt ofan sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna.


Uppfært 9. ágúst kl. 11:30

  • Fjöldi skjálfta á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram að aukast
  • Um 300 skjálftar frá því á mánudaginn, 5. ágúst. Allt smáskjálftar undir M2,0 að stærð.
  • Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi er svipuð og síðustu daga
  • Hættumat er óbreytt. Sjá hér.

Fjöldi jarðskjálfta sem mælist á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram að aukast. Allt eru þetta smáskjálftar undir M2,0 að stærð og meiri hluti þeirra undir M1,0 að stærð. Í þessari viku, frá því á mánudaginn 5. ágúst, hafa hátt í þrjú hundruð jarðskjálftar mælst á svæðinu. Fjöldi skjálfta hefur farið vaxandi undanfarnar vikur.

Aflögunargögn og líkanreikningar sýna að landris og kvikusöfnun undir Svartsengi er svipuð og síðustu daga. Þessi gögn sýna merki um það að kvikuþrýstingur sé áfram að aukast og er þetta svipuð þróun eins og vikurnar fyrir undanfarin kvikuhlaup og eldgos.

Skjalftar09082024

Hér er yfirlit yfir jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina byggt á yfirförnum jarðskjálftum frá 3. júní til 9. ágúst. Vinstra megin má sjá staðsetningu jarðskjálftanna á korti, uppi hægra megin er línurit sem sýnir stærð skjálftanna og niðri hægra megin er súlurit sem sýnir fjölda jarðskjálfta á viku. Súluritið sýnir vaxandi skjálftavirkni síðustu vikur samanborið við litla skjálftavirkni á meðan síðasta gosi stóð frá 29. maí til 22. júní.

Hættumat Veðurstofunnar er óbreytt frá því sem áður var og gildir til 13. ágúst að öllu óbreyttu. Sviðsmyndir sem settar voru fram í síðustu fréttauppfærslu eru einnig óbreyttar.


Uppfært 6. ágúst kl. 12:00

  • Fjöldi skjálfta á dag á Sundhnúksgígaröðinni fer hægt vaxandi
  • Samkvæmt líkanreikningum er nægur þrýstingur búinn að byggjast upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði á næstu dögum
  • Hættumat óbreytt frá síðustu viku

Fjöldi skjálfta á dag sem mælast á Sundhnúksgígaröðinni og nágrenni heldur áfram að aukast. Um 60 skjálftar mældust síðasta sólarhring. Til samanburðar var fjöldi skjálfta fyrir rúmri viku um 30 skjálftar að meðaltali á dag.

Þróun landriss og kvikusöfnunar undir Svartsengi er svipuð og síðustu daga. Áfram hægir örlítið á landrisinu og sú þróun samfara aukinni jarðskjálftavirkni eru vísbendingar um að þrýstingur í kerfinu sé að aukast. Nú er í raun spurning um hversu mikinn þrýsting jarðskorpan þolir áður en hún gefur undan og nýtt kvikuhlaup fer af stað.

Samkvæmt líkanreikningum er áætlað magn í kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi orðið svipað og fyrir gosið sem hófst í lok maí. Upphaflegir líkanreikningar gerðu ráð fyrir að í lok þessarar viku yrði efri mörkum þess sem talið er þurfa til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi náð. Hægst hefur á landrisinu og því þarf að reikna með að lengst geti í þeim tímaglugga ef ekki dregur til tíðinda á næstu dögum.

Hættumat Veðurstofunnar er óbreytt frá því sem áður var. Uppfært hættumat gildir til 13. ágúst að öllu óbreyttu. Sviðsmyndir eru einnig óbreyttar.

Haettusvaedi_VI_06agust_2024

Sviðsmynd 1 - Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks (Miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024.

  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur).
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1,5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi utan varnargarða.

Sviðsmynd 2  - Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli (Syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti og efsti hluti svæðis 4). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024.

  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Lengri fyrirvari ræðst af því hversu langt til suðurs kvikan brýtur sér leið áður en hún leitar upp á yfirborðið.
  • Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.
  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Kvikugangur sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 
  • Í þessari sviðsmynd þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Einn möguleikinn er sá að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík geti flætt ofan sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna.






Uppfært 2. ágúst kl. 12:45

  • Fjöldi skjálfta á Sundhnúksgígaröðinni á dag fer hægt vaxandi
  • Samkvæmt líkanreikningum er nægur þrýstingur búinn að byggjast upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði á næstu dögum

Eins og kom fram fyrr í vikunni þá sýna GPS mælingar að hægt hefur örlítið á landrisinu síðustu daga. Þegar sú þróun í landrisi fer saman við jarðskjálftavirkni líkt og mældist á Sundhnúksgígaröðinni í gær, geta það verið það vísbendingar um að það styttist í næsta kvikuhlaup og jafnvel eldgos.

Viðbragðsáætlanir Veðurstofunnar miðað við að kvikuhlaup gæti farið af stað hvenær sem er næstu daga og það jafnvel endað með eldgosi. Ef atburðarrásin verður sambærileg og í aðdraganda fyrri eldgosa, gæti fyrirvarinn verið mjög stuttur.





Eldri færslur





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica