Fréttir
Árshiti í Stykkishólmi
Árshiti í Stykkishólmi frá upphafi samfelldra mælinga. Heildregnar línur sýna árshita byggðan á mælingum í Stykkishólmi, brotalínur sýna mat á árshita sem reiknaður er frá mælingum annarsstaðar á Íslandi. Mat á gæðum gagnanna ræður lit ferilsins. Blái ferillinn sýnir útjafnaðan hitaferil yfir u.þ.b. áratug og skyggða svæðið endurspeglar óvissu í í útjöfnun

Hlýjasta árið í Stykkishólmi frá upphafi mælinga

31.1.2017

Saga samfelldra veðurathugana í Stykkishólmi nær 171 ár aftur í tímann eða til haustsins 1845. Mæliröðin er lengsta órofa mæliröð á Íslandi og með því að nota slitróttari mælingar annars staðar af landinu má meta hver árshiti í Stykkishólmi var líklega á tímabilinu 1798 til 1845. Slíkt mat er auðvitað óáreiðanlegra en mæligögn frá staðnum en getur verið áhugavert til samanburðar.

 Myndin sýnir árshita í Stykkishólmi frá 1846 til 2016. Hún stækkar ef smellt er á hana. Stöplar með brotalínum sýna mat á árshita í Stykkishólmi á fyrri helmingi 19. aldar. Árið 2016 er merkt sérstaklega en það er hlýjasta árið frá upphafi mælinga.

Á myndina er einnig teiknaður útjafnaður hitaferill sem dregur fram hitasveiflur yfir áratugi og sýnir auk þess þá verulegu hlýnun sem orðið hefur frá því mælingar hófust. Á tímabili samfelldra mælinga má draga sögu hitafars í Stykkishólmi (og líklega á landinu öllu) saman á eftirfarandi hátt: Veðurfar var kalt á síðari hluta 19. aldar og ekki tók að hlýna verulega fyrr en á 3. áratug 20. aldar. Hlýindakaflanum lauk á 7. áratugnum en þá tók við kuldaskeið fram undir lok aldarinnar. Síðan þá hefur hlýnað og eru síðustu ár með þeim hlýjustu frá því mælingar hófust og síðasta ár það allra hlýjasta. Útjafnaði ferillinn sýnir að nú lætur nærri að meðalhiti yfir u.þ.b. áratug sé um 2,5 °C hærri hér á landi en þegar kaldast var á síðari helmingi 19. aldar. 

Taflan sýnir jafnaðarhlýnun fyrir nokkur tímabil. Vegna þess hversu áberandi áratugalangar sveiflur í árshita eru skipta upphaf og endir tímabilsins nokkru máli, sérstaklega ef tímabilið er stutt. 

Fyrir nægilega langt tímabil er meðalhlýnunin um 0,9°C á öld. Fyrir 20. öldina eina sér hagar áratugalöngum hitasveiflum þó þannig að aldarhlýnun reiknast 0,4°C, en með ríflegum óvissumörkum.  Ef jafnaðarhlýnun er reiknuð fyrir styttri tímabil má fá enn meiri hlýnun, eða jafnvel kólnun allt eftir því hvaða tímabil er valið. 

Tímabil Hlýnun á 100 árum (°C/100 ár)
1798–2016 0,8  [ 0,6 / 0,9]
1846–2016 0,9  [ 0,7 / 1,2]
1880–2016 1,1  [ 0,8 / 1,4]
1901–2000 0,4  [-0,1 / 0,8]
1901–2016 0,9  [ 0,5 / 1,3]
Jafnaðarhlýnun í Stykkishólmi fyrir nokkur tímabil. Tölur innan hornklofa sýna 95% óvissumörk. Hlýnunin er reiknuð sem halli bestu línu gegnum árshitagildin á hverju tímabili.

Á hnattræna vísu var árið 2016 einnig hlýjasta ár síðan farið var að mæla hita nægilega víða til þess að leggja megi traust mat á meðalhita jarðar. Mynd 2 sýnir samanburð á þróun hita í Stykkishólmi og á hnattræna vísu. Augljóslega eru sveiflurnar í Stykkishólmi miklu meiri, en til lengri tíma er hallinn á röðunum svipaður.

Á hnattræna vísu hefur hlýnunin 1880–2016 verið að jafnaði um 0,7 °C á öld (sem samsvarar um 1°C hlýnun yfir tímabilið 1880 til 2016). Þetta er lægri tala en fyrir Stykkishólm á sama tímabili, en mynd 1 sýnir að upphafsárið 1880 fellur á kaldasta tímabil þar síðan mælingar hófust, og því kann þetta að vera óheppilegt upphafsár til að miða við. Ef upphafsárið er fært aftur um 20 ár er hlýnunin 0,9 °C á öld, sem er aðeins meira en hnattræn hlýnun á sama tímabili.

Árshiti samanburður

Samanburður á þróun árshita í Stykkishólmi og á hnattræna vísu. Sýndur er hiti sem frávik frá meðaltali áranna 1880 til 2016.

Eðlilegt er að líta á þá hlýnun sem orðið hefur í Stykkishólmi síðan mælingar hófust, sem sambland af áratugalöngum hitasveiflum og hnattrænni hlýnun. Meðan ekki dregur úr hnattrænni hlýnun er því líklegt að til lengri tíma litið hlýni áfram í Stykkishólmi þótt náttúrulegar sveiflur í hitafari kunni að draga úr eða auka við hlýnun nokkra áratugi í senn.

Halldór BjörnssonTrausti Jónsson

Höfundar pistilsins, Halldór Björnsson, hópstjóri loftslagsrannsókna, og Trausti Jónsson, sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica