Fréttir
Hlaupvatn rennur yfir brúna yfir Skálm. Ljósmynd tekin um kl. 15 í dag. (Ljósmynd: Sveinbjörn Darri Matthíasson)

Hlaup úr Mýrdalsjökli. Hlaupið hefur ekki náð hámarki við þjóðveg 1

Svæðið við jökulsporð Sólheimajökuls rýmt vegna óvissu um framhald virkninnar

27.7.2024

Uppfært 27. júlí kl. 17:00. Fréttin verður uppfærð síðar í kvöld.

  • Aukning í rafleiðni fór að mælast í Skálm í nótt og í morgun mátti sjá aukinn óróa undir jöklinum
  • Hlaupvatn kemur undan Sandfellsjökli eins og staðan er núna og fer niður í farveg Skálmar
  • Miðað ljósmyndir virðist hlaupið hafa náð hámarksrennsli við jökulsporðinn
  • Líklegast að þetta hlaup núna hafi ekki náð hámarki við þjóðveginn og umtalsvert meira hlaupvatn eigi eftir að koma undan jöklinum
  • Ekki hægt að útiloka að hlaupvatn komi undan jöklinum á fleiri stöðum og hlaupvatn berist niður í Múlakvísl
  • Ljóst er að um óvenju stórt hlaup er að ræða

Í morgun sendi Veðurstofan frá sér tilkynningu um að aukin rafleiðni hafi mælst í ám umhverfis Mýrdalsjökul.

Aukning í rafleiðni fór að mælast í Skálm í nótt og í morgun mátti sjá aukinn óróa undir jöklinum. Jökulhlaup fór svo að mælast í ánni Skálm um kl. 13:20 í dag og það var stórt hlaup, mögulega stærra en síðasta stóra hlaup sem var árið 2011 og kom undan Kötlujökli í austanverðum Mýrdalsjökli.

Samkvæmt upplýsingum sem Veðurstofan fékk frá flugmanni kemur hlaupvatn undan Sandfellsjökli eins og staðan er núna og fer niður í farveg Skálmar. Miðað við þær myndir virðist hlaupið hafa náð hámarksrennsli við jökulsporðinn. Hlaupið á þó enn eftir að ná hámarki við þjóðveg 1.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni flæðir vatn yfir brúna yfir ánna Skálm og yfir Hringveginn á um kílómetra metra kafla austan við brúna. Starfsfólk frá Vegagerðinni og lögreglunni er komið á staðinn og búið er að loka hringveginum vegna hlaupsins. Vegurinn er farinn í sundur austan megin við brúna og skemmdir eru á brúarendunum sökum vatnsflaumsins. Vatn hefur einnig flætt yfir veginn niður í Álftaver.

Ekki hægt að útiloka að mun meira hlaupvatn komi undan jöklinum

Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn nokkrar klukkustundir að ferðast undir jöklinum og niður í árfarvegi. Seint í gærkvöldi sást óróamerki sem gæti verið upphafsmerki hlaupsins og þess vatnsmagns sem nú er komið niður í farvegi á ánni Skálm og flæðir yfir þjóðveginn. Órói jókst svo verulega um kl. 11 í morgun. Þessi aukni órói sem mældist í morgun gætu verið merki þess að von sé á enn meira hlaupvatni undan jöklinum. Þá er ekki hægt að útiloka að hlaupvatn komi undan jöklinum á fleiri stöðum og hlaupvatn berist niður í Múlakvísl.

Ekkert er hægt að fullyrða um hvenær megi búast við að hlaupið nái hámarki. Í hlaupi sem varð 2011, sem var óvenju stórt hlaup, liðu um 10 klukkustundir frá því að mikill samfelldur órói mælist þangað til að hlaupvatn kom undan jöklinum. Árið 2011 barst hlaupvatn í Skálm en einnig Múlakvísl. Ekki er hægt að fullyrða að þetta hlaup sem nú er í gangi hagi sér á sambærilegan hátt og hlaupið 2011. Það er þó líklegast að þetta hlaup núna hafi ekki náð hámarki og umtalsvert meira hlaupvatn eigi eftir að koma undan jöklinum. Ljóst er að um óvenju stórt hlaup er að ræða.

20240727_153011

Mynd sem Veðurstofan fékk senda frá flugmanni sem flaug yfir svæðið um kl. 15 í dag. Myndin sýnir hlaupvatnið flæða yfir þjóðveg 1. (Ljósmynd: Sveinbjörn Darri Matthíasson)

Fluglitakóði fyrir Kötlu færður upp á gult. Svæðið við Sólheimajökul rýmt

Vegna virkninnar í Mýrdalsjökli hefur fluglitakóði fyrir Kötlu verið færður upp á gult. Það þýðir að eldstöðin sýnir virkni umfram það sem telst til grunnvirkni. Almannavarnir ríkislögreglustjóra hafa lýst yfir óvissustigi vegna hlaupsins í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi.

Vegna mikillar óvissu um áframhaldandi þróun á atburðum í Mýrdalsjökli og mögulegri hættu á jökulhlaupum niður Sólheimajökul, lagði Veðurstofan til við Almannavarnir að Sólheimajökull, svæðið framan við jökulsporðinn og þjónustusvæðið við enda Sólheimajökulsvegar verði rýmt. Tími til viðvörunar vegna yfirvofandi hlaups í Jökulsá á Sólheimasandi gæti verið mjög stuttur og áhætta á svæðinu mikil verði hlaup. 

Sérfræðingar Veðurstofunnar ásamt vísindamönnum úr Háskóla Íslands vinna nú að því að greina gögn enn frekar til meta hver möguleg þróun virkninnar í Mýrdalsjökli geti orðið.

Hlaupvatn rennur yfir brúna yfir Skálm. Ljósmynd tekin um kl. 15 í dag. (Ljósmynd: Sveinbjörn Darri Matthíasson)





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica