Fréttir
Frá Skaftárhlaupi 2018. Mynd úr eftirlitsflugi 4. ágúst en þá hafði rennsli náð hámarki við Sveinstind.

Rennsli í Skaftá nálgast nú dæmigert grunnrennsli

Upptök hlaupsins voru í Eystri Skaftárkatli en rennslið hefur farið hægt minnkandi undanfarna daga.

4.9.2023

Uppfært 4. september kl. 13:45

Rennsli í Skaftá hefur farið hægt minnkandi undanfarna daga og nálgast nú dæmigert grunnrennsli við Sveinstind. Niðri í byggð fer hlaupvatn hægt sjatnandi. Í þessu hlaupi mældist mesta rennsli við Sveinstind tæplega 750 m3/s og er það mun minna en í stærstu hlaupum. T.d. var hámarksrennslí í hlaupinu 2021 áætlað um 1500 m3/s og 3000 m3/s í hlaupinu 2015  Áætlað er að 220 gígalítrar (=0.22 km3) hlaupvatns hafi runnið fram við Sveinstind. Að vatnsmagni er þetta því meðalstórt hlaup úr Eystri Skaftárkatli, þótt rennslishámark hafi verið í lægra lagi. Ekki sjást þess merki að rennsli sé hafið úr Vestari Skaftárkatli en hafa ber í huga að hann getur hlaupið hvenær sem er úr þessu.

Uppfært 31. ágúst kl. 8:00

Flogið var með þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, upp með Skaftá í gær og alla leið að upptökum jökulhlaupsins í vestanverðum Vatnajökli. Skyggni var gott og staðfest var að hlaupið á upptök sín í Eystri Skaftárkatli.

Talsverður vatnsagi er af völdum hlaupsins í Eldhrauni vestan Kirkjubæjarklausturs en ekki er útlit fyrir að hlaupvatnið nái upp á þjóðveg 1, líkt og gerst hefur í stórum Skaftárhlaupum. Dökkur jökullitur er á hlaupvatninu upp eftir Skaftárdal og alla leið að Skaftárjökli, þar sem hlaupið kemur undan jökulsporðinum á nokkrum stöðum. Ekki voru teljandi merki þess að jökulísinn hefði brotnað upp af völdum hlaupvatns sem þrengir sér til yfirborðs.

Þegar flogið var yfir Vestari Skaftárketil sást að þar var allt með kyrrum kjörum. Í katlinum var allstór leysingarpollur auk þess sem gjóskubunkar sjást í katlinum norðanverðum. Eystri ketillinn var hins vegar talsvert mikið siginn og leysingarvatn í honum hafði tæmst niður um sprungur og rásir í jöklinum. Stórar hringsprungur, greinilega alveg nýmyndaðar, voru mjög áberandi við austur- og norðurjaðar ketilsins. Það er því ljóst að hlaupvatnið hefur komið úr lóninu undir Eystri Skaftárkatli.

Í gær má áætla að um 100 gígalítrar (= 0.1 km3) hlaupvatns hafi þegar runnið fram við Sveinstind. Það er einungis helmingur af rúmmáli dæmigerðra hlaupa úr eystri katlinum. Rennslið nú í morgun var um 640 m3/s og verður áfram fylgst með framvindunni.

IMG_9674

Hlaupið í farvegi Eldvatns. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands / Þorsteinn Þorsteinsson)

IMG_9717

Eystri Skaftárketill hlaupinn. Miðbik ketilsins hefur sigið um tugi metra og nýjar hringsprungur hafa myndast. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands / Þorsteinn Þorsteinsson)

IMG_9703

Vestari Skaftárketill sýnir engin merki hlaups. Í katlinum var allstór leysingarpollur auk þess sem gjóskubunkar sjást í katlinum norðanverðum. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands / Þorsteinn Þorsteinsson)

IMG_9722

Nærmynd af sprungunum. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands / Þorsteinn Þorsteinsson)


Uppfært 30. ágúst kl. 15:40

Athuganir gerðar í flugi staðfesta að Skaftárhlaupið sem nú er í gangi á upptök sín í Eystri-Skaftárkatlinum. Sú staðfesting barst frá flugmanni Atlantsflugs fyrir skömmu.

Rennsli Skaftár við Sveinstind kl. 15 mældist tæpir 700 m3/s en um 750 m3/s í morgun. Því eru vísbendingar um að byrjað sé að draga úr rennsli við Sveinstind og að þetta hlaup verði í minna lagi m.v. fyrri hlaup úr Eystri-Skaftárkatli. Rennsli í Eldvatni kl. 15 mældist um 390 m3/s en var tæplega 380 m3/s kl. 9 í morgun.

Vísindamenn Veðurstofunnar eru enn í eftirlitsflugi yfir svæðinu með Landhelgisgæslu Íslands. Frekari túlkanir á hlaupinu og framvindu þess eru væntanlegar þegar vísindamenn hafa lagt frekara mat á stöðuna m.a. úr eftirlitsfluginu.

2023-08-30-14.33.31

Mynd af Eystri-Skaftárkatli. Sprungur staðfesta að hlaupvatnið kemur úr katlinum. (Ljósmynd: Jón Grétar Sigurðsson)

Uppfært 30. ágúst kl. 11:00

Rennsli Skaftár jókst rólega í gærkvöldi og fram á nótt en virðist hafa verið nokkuð stöðugt við Sveinstind frá kl. 03 í nótt. Mælitæki þar sýndu rennsli upp á um 740 m3/s kl. 9 í morgun. Mælir Veðurstofunnar við Eldvatn niðri við þjóðveg 1 endurspeglar sama hæga vöxt og mælist rennsli þar nú tæplega 380 m3/s. Talsverður hluti hlaupvatnsins fer svo um þá grein árinnar sem rennur framhjá Kirkjubæjarklaustri.

Ennþá er of snemmt að segja til um að hlaupið hafi náð hámarki, þótt rennsli við Sveinstind hafi verið nokkuð stöðugt síðustu klukkustundir.

Rennsli300823

Ekki er enn hægt að segja með fullri vissu hvort upptök hlaupsins séu í Vestari eða Eystri Skaftárkatli. Hlaupferillinn minnti í fyrstu meir á þekkt hlaup úr vestari katlinum, en nýjar radarmyndir úr SENTINEL-gervitunglinu sem Ingibjörg Jónsdóttir á Jarðvísindastofnun hefur aflað benda til þess að sig hafi orðið í eystri katlinum

Möguleg vá:

Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá:

  • Næstu daga munu flóðaaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.
  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnaárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls og Tungnaárjökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið


Uppfært 29. ágúst kl. 17:00

Mælingar við Sveinstind í Skaftá sýna að hægt hefur á rennslisaukningunni þar. Rennslið mældist um 620 m3/s kl. 15 í dag miðað við 600 m3/s kl. 9 í morgun.

Eins og myndin hér að neðan sýnir jókst rennsli smám saman neðar í ánni, en vanalega tekur hlaupvatnið um 8-10 klst. að berast milli mælis við Sveinstind og mælis í Eldvatni við Ása rétt við þjóðveg 1.

Rennsli290823

Myndin sýnir breytingar á rennsli við Sveinstind (blá lína) samanborið við breytingar á rennsli við Eldvatn (rauð lína)

Allar líkur á að um hefðbundið hlaup sé að ræða

Skaftárhlaup hafa komið með nokkuð reglulegu millibili undanfarin 50 ár. Á árabilinu 1955–2018 komu 28 hlaup úr eystri katlinum en hlaup úr þeim vestari eru tíðari. Úr honum komu 30 hlaup á tímabilinu 1972–2018. Undanfarin 50 ár lætur nærri að hlaupið hafi úr kötlunum einu sinni á ári að meðaltali.

Fylgni er á milli hámarksrennslis og tímans sem liðinn er frá síðasta hlaupi. Í kjölfar lengsta hlés milli hlaupa úr eystri katlinum (2010-2015) kom mesta Skaftárhlaup sem vitað er um í október 2015. Hámarksrennsli í því hlaupi nam um 3.000 m3/s. Ef rennslistölur nú eru bornar saman við fyrri hlaup og horft er til þess að síðast kom hlaup í Skaftá 2021, eru allar líkur á að um hefðbundið hlaup sé að ræða. Slík hlaup ógna ekki innviðum og hlaupvatn nær ekki yfir þjóðveg 1.

Ef horft er til sögunnar er líklegast að rennsli muni ekki aukast mikið úr þessu og að hlaupið muni fjara út á nokkrum dögum. Þó eru dæmi um að annar rennslistoppur mælist í kjölfar hins fyrsta. Í þeim tilvikum hleypur hinn ketillinn skömmu á eftir þeim fyrri og úr verður tvöfalt Skaftárhlaup. Þetta gerðist síðast í september 2021, þá hljóp vestari ketillinn fyrst og fimm dögum síðar bættist við vatn úr eystri katlinum. Hámarksrennsli mældist um 1.500m3/s í því hlaupi.  

Veðurstofan heldur áfram að fylgjast grannt með stöðu mála. Varað er við gasmengun samfara hlaupum úr Skaftá. Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á Kirkjubæjarklaustri á loftgaedi.is


Fréttin verður uppfærð eftir því sem nýjar upplýsingar berast

Í gærkvöldi fór rennsli í Skaftá við Sveinstind að aukast og einnig mældist aukin rafleiðni. Borist hafa tilkynningar um brennisteinslykt frá landvörðum í Hólaskjóli. Skaftárhlaup er því hafið. Síðast kom hlaup í Skaftá í september 2021.

Skaftárkatlarnir sem hlaupin koma úr eru tveir, eystri og vestari og eru í vestanverðum Vatnajökli. Hlaup úr Eystri-Skaftárkatli eru að jafnaði stærri en hlaupin úr Vestari katlinum. Verið er að rýna gögn s.s. gervitunglamyndir til að kanna úr hvorum katlinum hlaupið kemur eða hvort að hlaup komi úr þeim báðum. Það gerðist 2021 og vel hugsanlegt að slíkt endurtaki sig.

Rennsli við Sveinstind var um 600 m3/s kl. 9 og fór þá vaxandi. Búist er við að hámarksrennsli við þjóðveg 1 verði náð um 10 klukkustundum eftir að hámarki er náð við Sveinstind. Stærð hlaupsins ræðst af því úr hvorum katlinum hlaupið kemur.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi lýsir yfir óvissustigi Almannavarna vegna Skaftárhlaups

20170719_yfirlit_skaftarsvaedi_portrait_EHJ

Rauntíma eftirlitskort af Skaftá. Kortið sýnir staðsetningu vatnshæðamæla Veðurstofunnar. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri)

Rennsli_Sveinstind_Last48hrs

Rennsli í Skaftá við Sveinstind síðustu 2 sólarhringa. Rennslið mældist um 600 m3/s kl. 9, í dag, 29. ágúst. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri)

Möguleg vá:

Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá:

  • Næstu daga munu flóðaaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.
  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnaárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls og Tungnaárjökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið

Alls er vitað um 59 hlaup í Skaftá

Skaftárkatlarnir eru tveir, eystri og vestari, og eru í vestanverðum Vatnajökli. Þeir myndast þar vegna jarðhita sem bræðir jökulbotninn og vatns sem safnast þar saman. Þegar vatnsþrýstingur er orðinn það hár að farg jökulsins nær ekki að halda aftur af því hleypur það undan kötlunum. Hlaup úr Eystri-Skaftárkatli eru að jafnaði stærri en hlaupin úr Vestari katlinum. Skaftárhlaup eins og þau koma fram í dag hófust árið 1955 en síðan þá er vitað um 59 jökulhlaup í Skaftá. Að jafnaði hleypur úr hvorum katli fyrir sig á tveggja ára fresti.  

Hér er hægt að lesa meira um hættumat vegna jökulhlaupa í Skaftá


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica