Fréttir
Útlínur Langjökuls, Eiríksjökuls, Þórisjökuls, Oks og Hrútfellsjökuls á mismunandi tímum (~1890, 1945/46 og 2019) á bakgrunni Sentinel gervitunglamyndar frá 2019.

Heildarflatarmál íslenskra jökla minnkaði um hátt í 18% á síðustu 130 árum

Miðlungsstóru jöklarnir hafa misst allt að 80% flatarmálsins

31.5.2021

Jöklabreytingar á Íslandi hafa verið fremur samstíga og fylgt að mestu leyti loftslagsbreytingum frá lokum 19. aldar þó að framhlaup, eldgos undir jökli og jökulhlaup hafi áhrif á stöðu einstakra jökulsporða. Íslenskir jöklar náðu ekki hámarksútbreiðslu samtímis en flestir þeirra tóku að hörfa frá ystu jökulgörðum um 1890. Heildarflatarmál jökla árið 2019 var um 10.400 km2 og hafa þeir minnkað um meira en 2200 km2 frá lokum 19. aldar, sem samsvarar 18% flatarmálsins um 1890.

Jöklarnir hafa tapað um 750 km2 frá aldamótunum 2000. Stærri jöklarnir hafa tapað 10−30% af flatarmáli sínu en miðlungsstóru jöklarnir (3−40 km2 árið 2000) hafa misst allt að 80% flatarmálsins. Á fyrstu tveimur áratugum 21. aldar hafa jöklarnir minnkað um u.þ.b. 40 km2 á ári að jafnaði. Á þessu tímabili hafa nokkrir tugir lítilla jökla horfið með öllu. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði tímaritsins Jökuls í grein um breytingar á útbreiðslu íslenskra jökla frá lokum litlu ísaldar, seint á 19. öld. Nokkur dæmi um niðurstöður greinarinnar eru sýnd á meðfylgjandi myndum.


Útlínur Langjökuls, Eiríksjökuls, Þórisjökuls, Oks og Hrútfellsjökuls á mismunandi tímum frá því um 1890 til 2019. Flatarmál Langjökuls minnkaði 257 km2 á tímabilinu frá því um 1890 til 2019, úr 1093 km2 í 836 km2.


Útlínur Hofsjökuls og smájöklanna í Kerlingarfjöllum á mismunandi tímum frá því um 1890 til 2019. Flatarmál Hofsjökuls minnkaði um 202 km2 á tímabilinu frá því um 1890 til 2019, úr 1038 km2 í 836 km2.


Útlínur Vatnajökuls, Tungnafellsjökuls og jöklanna á Snæfelli á mismunandi tímum frá því um 1890 til 2019. Mj=Morsárjökull, Skj=Skaftafellsjökull, Svj=Svínafellsjökull, Kvj=Kvíárjökull. Flatarmál Vatnajökuls minnkaði um 1070 km2 á tímabilinu frá því um 1890 til 2019, úr 8790 km2 í 7720 km2.

Mikilvægt gagnasafn fyrir rannsóknir á loftslagsbreytingum

Höfundar greinarinnar eru Hrafnhildur Hannesdóttir, Oddur Sigurðsson, Ragnar H. Þrastarson, Snævarr Guðmundsson, Joaquín M.C. Belart, Finnur Pálsson, Eyjólfur Magnússon, Skúli Víkingsson, Ingibjörg Kaldal og Tómas Jóhannesson. Í greininni er safnað saman gögnum um útbreiðslu íslenskra jökla frá nokkrum rannsóknahópum, stofnunum og nemendaverkefnum. Þau hafa verið samræmd og yfirfarin og hafa verið send í alþjóðlegan gagnagrunn. Þetta gagnasafn er mikilvægur þáttur í vöktun jöklabreytinga á Íslandi vegna hlýnandi veðurfars og mikilvægt fyrir rannsóknir á loftslagsbreytingum, til þess að stilla af jöklalíkön, til rannsókna á framhlaupum og eðli jökla.

Margir vísindamenn hafa komið að rannsóknum sem teknar eru saman í greininni og er ástæða til þess að þakka Ágústi Þór Gunnlaugssyni, Áslaugu Geirsdóttur, Bjarka Björgvinssyni, Daða Björnssyni á Loftmyndum ehf., David Evans, David J. Harning, Ívari Erni Benediktssyni, Maríu Jónu Helgadóttur og Skafta Brynjólfssyni fyrir framlag þeirra. Einnig er umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þakkaður styrkur til verkefnis Hörfandi jöklar sem stóð straum af vinnu við ritun greinarinnar. Bakgrunnur kortanna af Vatnajökli, Hofsjökli og Langjökli hér að ofan er skygging stafræns landlíkans sem byggir á ArcticDEM landlíkani, leysikortum af íslensku jöklunum og landlíkani frá Landmælingum Íslands.


Hlutfallsleg flatarmálsbreyting íslenskra jökla frá síðari hluta 19. aldar (að undanskildum litlum jöklum sem eru minni en 3 km2). Þrátt fyrir að Drangajökull hafi náð hámarksútbreiðslu um 1850 miðast línuritið við 1890 til einföldunar.


Flatarmál meginjökla landsins og allra jökla landsins samtals frá því um 1890 til 2019. Skyndileg aukning í flatarmáli Vatnajökuls árið 1964 kemur til vegna framhlaups Brúarjökuls 1963−1964. Vinstri y-ásinn á við Vatnajökul (v) og alla jökla samtals („all“, blá lína), en hægri y-ás á við Langjökul (L), Hofsjökul (H) og Mýrdalsjökul (M).





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica