Fréttir
Starfsmenn Veðurstofu Íslands þeir Tómas Jóhannesson snjóflóðasérfræðingur og Tómas Zoëga, snjóathugunarmaður meta aðstæður í hlíðunum ofan Neskaupstaðar. Myndin er tekin daginn eftir að fyrstu flóðin féllu, en mikilvægt er að byrja strax að safna gögnum og mæla umfang snjóflóða. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands / Ragnar Heiðar Þrastarsson)

Gott skipulag byggðar og landnotkun mikilvægasta forvörnin til að draga úr slysum og tjóni vegna náttúruhamfara

27.4.2023

Áfram er unnið að því að skrá snjóflóð og krapaflóð sem féllu í hrinunni á Austfjörðum í lok mars og vinna úr ýmsum gögnum. Sérstök áhersla er lögð á að greina þær aðstæður sem sköpuðust á stuttum tíma í upphafi hrinunnar þegar snjóflóð féllu niður í byggð í Neskaupstað. Tilgangurinn er að draga lærdóm af flóðunum m.a. til þess að auka líkurnar á því að snjóflóðavakt geti greint slíkar aðstæður tímanlega. 

Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi með íbúum Fjarðabyggðar sem haldinn var á dögunum. Á fundinum sem var vel sóttur var einnig farið yfir aðdraganda og viðbrögð í kringum snjóflóðahrinuna dagana 26.-31. mars sem og stöðuna á framkvæmdum við varnarvirki. Eins fóru sérfræðingar Veðurstofunnar yfir ofanflóðahættumat í Fjarðabyggð, en ofanflóð er samheiti yfir snjóflóð, krapaflóð og skriðuföll.  Veðurstofa Íslands metur ofanflóðahættu og ákveður rýmingu húsnæðis í samráði við almannavarnir, lögreglu og heimamenn. Unnið hefur verið hættumat og hættumatskort ásamt tilheyrandi greinargerðum fyrir þéttbýlisstaði á Íslandi þar sem ofanflóðahætta er talin geta skapast.

Auk þess að greina aðstæður sem sköpuðust í upphafi hrinunnar er einnig verið að rýna ýmsa þætti s.s. kort og aðrar upplýsingar sem unnið var með í tengslum við rýmingar. Upplýsingum um hús og íbúa á rýmingarreitum er viðhaldið af lögregluyfirvöldum á hverjum stað og þær á að yfirfara í vetrarbyrjun á hverjum stað til þess að þær séu tiltækar komi til rýmingar. Þessar upplýsingar eiga að miðast við landfræðilega reitaskiptingu rýmingarkorta sem gefin hafa verið út og sýna því rétt yfirlit um innan hvaða reita þarf að rýma húsnæði þó svo viðkomandi byggingar séu ekki sýndar á rýmingarkortinu sjálfu. Verið er að skoða í samvinnu við bæjaryfirvöld hvernig er best að samræma upplýsingar um rýmingarreiti við nýjustu upplýsingar um allar byggingar á hverjum reit. Í því samhengi má nefna að upplýsingar um hættumatslínur og rýmingarreiti eru aðgengileg sem kortaþekjur á stafrænu formi hjá Veðurstofu Íslands.

Gott skipulag byggðar og landnotkun mikilvægasta forvörnin til að draga úr slysum og tjóni

Víða hafa bæir byggst upp á ofanflóðahættusvæðum hér á landi. Þótti það ljóst eftir snjóflóðaslysin í Súðavík og á Flateyri árið 1995 að gera þyrfti átak í snjóflóðamálum á Íslandi. Sveitarfélögum ber samkvæmt lögum að tryggja öryggi fólks vegna ofanflóðahættu með varanlegum varnarvirkjum eða uppkaupum íbúðarhúsnæðis þar sem áhætta er talin mest á hættusvæðum. Sveitarfélög þar sem íbúðarbyggð er  á snjóflóðahættusvæðum fá fjárhagslegan stuðning úr Ofanflóðasjóði til þess að tryggja öryggi byggðarinnar gagnvart ofanflóðum. Þrátt fyrir að varnarvirki  bæti öryggi fólks mjög mikið þá fylgir ofanflóðum alltaf ákveðin óvissa og því er ekki hægt að útiloka að grípa þurfi til rýminga í einhverjum tilfellum. Ofanflóðanefnd og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið annast ráðstöfun á fé úr Ofanflóðasjóði til uppbyggingar varna og annars viðbúnaðar og faglegs undirbúnings þeirra. Frá því Ofanflóðanefnd var komið á fót árið 1996 hafa framkvæmdir við ofanflóðavarnir eða uppkaup húseigna átt sér stað á alls 15 þéttbýlisstöðum og er þeim lokið á 6 þeirra. Þeir varnargarðar í Neskaupstað sem fengu á sig snjóflóð í þessari hrinu virkuðu eins og til er ætlast. Telja má líklegt að þar hafi talsverðu tjóni verið afstýrt. Hvað varðar varnir neðan Nes- og Bakkagils þar sem snjóflóð lenti á húsum og bílum þá er þar lokið hönnun á vörnum og má búast við því að þær verði reistar á næstu árum.

Ofanfl2

Myndin sýnir framkvæmdasvæði fyrir síðasta áfanga varnarvirkja í Neskaupstað milli Drangagils/Hjallaskógar og Fólkvangs Neskaupstaðar. Þegar varnarmannvirki fyrir neðan Nes- og Bakkagil hafa verið reist, verður komið að ákveðnum endapunkti í framkvæmdum varna í Neskaupsstað þar sem ekki er fyrirhugað að reisa fleiri mannvirki vegna ofanflóða á þessu svæði. Þá verða risnir 4 þvergarðar fyrir ofan byggðina og hver garður verður með tvöfalda keiluröð þar fyrir ofan. (Mynd af vefsíðu Fjarðabyggðar)

Besta leiðin til þess að draga úr ofanflóðahættu í byggð er að forðast að reisa hús á hættusvæðum. Ný hverfi má ekki reisa nema þau séu utan skilgreindra hættusvæða og miðað er við að byggð þróist smám saman yfir á hættuminni svæði eftir því sem kostur er. Ein mikilvægasta forvörnin til þess að draga úr tjóni vegna náttúruhamfara er gott skipulag og landnotkun sem byggir m.a. á hættu- og áhættumati. Þetta er meðal þess sem kom fram í nýrri skýrslu starfshóps á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um stöðu náttúruvár á Íslandi. Í skýrslu starfshópsins segir að margt jákvætt hafi áunnist síðustu ár og áratugi þegar kemur að þekkingu á náttúruvá og viðbrögðum við náttúruhamförum, en betur má ef duga skal.  „Okkur ber að vera ábyrg og sýna fyrirhyggju til að koma í veg fyrir, eins og kostur, alvarlegar afleiðingar náttúruhamfara. Atburðir í Neskaupstað og á Patreksfirði á árinu eru áminning um það“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra þegar skýrslan var kynnt.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica