Bætt framsetning rýmingarkorta vegna ofanflóðahættu
Kort fyrir þéttbýlisstaði á Austurlandi staðfest formlega með undirritun ráðherra í dag
Ofanflóðasérfræðingar á Veðurstofunni hafa unnið með Almannavarnanefnd Austurlands undanfarið ár að því að uppfæra rýmingarkort vegna ofanflóðahættu fyrir þéttbýlin í Múlaþingi og Fjarðabyggð.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, staðfesti nýju rýmingarkortin formlega með undirritun á Veðurstofunni í dag.
Um er að ræða rýmingarkort fyrir Seyðisfjörð, Neskaupstað, Eskifjörð, Fáskrúðsfjörð og Stöðvarfjörð.
Nýir rýmingarreitir á kortunum taka nú tillit til ofanflóðavarna sem hafa risið frá því að hættumat var gert og í sumum tilfellum einnig til stórra bygginga sem draga úr hættu í húsum sem standa í skjóli við þær. Tekið er tillit til bæði snjóflóða, krapaflóða og skriðna. Einnig miðast reitirnir við að viðbragðsaðilar geti haft eins gott skipulag á framkvæmd rýmingar og kostur er.
Stafræn útgáfa kortanna aðgengileg á kortasjám sveitarfélaganna
Ein mikilvægasta breytingin frá fyrri rýmingarkortum er sú að nú eru kortin sett fram á stafrænan hátt og verða aðgengileg í kortasjám á heimasíðum viðkomandi sveitarfélaga. Þegar hættuástand skapast verður hægt að sjá hvaða reiti á að rýma og hvenær rýmingu er lokið á hverjum reit. Með stafrænni framsetningu og notkun landupplýsingakerfa er þannig tekið tilliti til breytinga innan þéttbýlanna með nýjum götum og húsum, en einnig verður hægt að halda utan um ýmsar upplýsingar sem auðvelda starf viðbragðsaðila.
Nýju rýmingarkortin taka gildi í dag og mun Almannavarnarnefnd Austurlands bjóða upp á kynningar á kortunum fyrir íbúa í byrjun næsta mánaðar og verða þeir fundir auglýstir á heimasíðum sveitarfélaganna. Kortin verða svo aðgengileg íbúum á kortasjám á vefsíðum Múlaþings og Fjarðarbyggðar á næstu dögum. Geta þá íbúar kynnt sér á hvaða rýmingareitum hús þeirra eru.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra við undirritun kortanna á Veðurstofunni í dag. Með honum á myndinni er Hildigunnur H.H. Thorsteinsson, forstjóri, (f.h.) Matthew J. Roberts, framkvæmdastjóri þjónustu- og rannsóknasviðs, Tómas Jóhannesson, sérfræðingur í ofanflóðahættumati og Ragnar Heiðar Þrastarson, fagstjóri landupplýsingakerfa á Veðurstofunni. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson)