Fréttir
thorvaldur_jfrkort_1901
Hluti af jarðfræðikorti Þorvaldar Thoroddsen.

Þrjú af höfuðritum Þorvaldar Thoroddsen

Veðurstofa Íslands 90 ára

28.9.2010

Í tilefni af 90 ára afmælinu hefur Veðurstofan, í samvinnu við Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, látið mynda þrjú af höfuðritum Þorvaldar Thoroddsen. Tengjast þau öll starfssviði stofnunarinnar. Þetta eru: Landskjálftar á Íslandi, Árferði á Íslandi í þúsund ár og Die Geschichte der isländischen Vulkane.

Landskjálftar á Íslandi (269 s., kort og töflur) kom út í Kaupmannahöfn í tveimur hlutum, 1899 og 1905.

Sá fyrri var gefinn út með titlinum Landskjálftar á Suðurlandi. Hið íslenzka bókmenntafélag gaf út. Bókin lýsir jarðskjálftum á Íslandi á sögulegum tíma fram til 1900. Fyrri hlutinn fjallar um jarðskjálfta á Suðurlandi og sá síðari við Faxaflóa og á Norðurlandi. Í lokin er yfirlitsskrá um eldgos og jarðskjálfta á Íslandi 900-1900.

Samhliða heimildaöflun fyrir eldfjallasöguna safnaði Þorvaldur upplýsingum um jarðskjálfta og einnig í rannsóknarferðum sínum. Í fyrri hlutanum er ítarleg úttekt Þorvaldar á Suðurlandsskjálftunum 1896.

Að beiðni danskra stjórnvalda ferðaðist hann sumarið 1897 um Suðurland og rannsakaði ummerki skjálftanna og safnaði saman upplýsingum um þá. Hann sendi ýmsum mönnum á jarðskjálftasvæðinu spurningalista og aflaði upplýsinga um skemmdir og fleira. Þessar skýrslur birtir hann í bókinni.

Rannsóknarniðurstöður sínar um Suðurlandsskjálftana 1896, ásamt kortum af upptakasvæðum og áhrifum þeirra, birti hann einnig í erlendum tímaritum og fékk mikið lof fyrir. Enn þann dag í dag er bókin eitt helsta grunnrit um sögulega jarðskjálfta á Íslandi.

Árferði á Íslandi í þúsund ár (432 s). Kom út í Kaupmannahöfn 1916 og 1917. Hið íslenska fræðafélag gaf út.

Þorvaldur Thoroddsen
Þorvaldur Thoroddsen
Þorvaldur Thoroddsen. (Mynd úr: Bogi Th. Melsted: Þorvaldur Thoroddsen: um ævi hans og störf. Kaupmannahöfn, 1923.)

Þessi bók er merkasta og ítarlegasta samantekt um veðurfar á Íslandi frá upphafi til aldamótanna 1900. Oftast er hægt að rekja sig að frumheimildum við lestur tilvísana. Í inngangi gerir Þorvaldur grein fyrir heimildum sínum, prentuðum og handritum. Í titilslausum kafla sem heftst á síðu 349 fjallar hann um eðli heimildanna og birtir töflu um góðæri og harðæri á hverri öld.

Allvíða í þessum tveimur almennu köflum kemur sú skoðun Þorvaldar fram að veðurfar hafi í raun lítið breyst í aldanna rás og hugmyndir um mun betra tíðarfar á upphafsöldum Íslandsbyggðar séu ekki á rökum reistar. Hann ritaði um þessa niðurstöður sínar í erlend vísindatímarit og var mikilsvert innlegg í umræður um veðurfarsbreytingar. Saga þeirrar umræðu er rakin í grófum dráttum í greininni: "Little Ice Age Research: A Perspective from Iceland" eftir A.E.J. Ogilvie and T. Jónsson í tímaritinu Climatic Change, 48 (1), s. 9-52,

Die Geschichte der isländischen Vulkane: nach einem hinterlassenen Manuskript (458 s., myndir, kort, töflur). Kom út í Kaupmannahöfn 1925. Høst & Søn gaf út. Handrit að bókinni var tilbúið til útgáfu árið 1912 og til stóð að hún kæmi út í hinu þekkta þýska riti, Petermanns Mitteilungen. Fyrri heimsstyrjöldin kom í veg fyrir þær áætlanir og var bókin gefin út í Danmörku árið 1925 eftir upphaflegu handriti. Áður hafði Þorvaldur gefið út eldfjallasögu á dönsku árið 1882.

Fyrsti kaflinn og meginefni bókarinnar fjallar um eldfjallasögu Íslands og byggist á sögulegum rannsóknum Þorvaldar á eldgosum. Annar kaflinn fjallar um heitar laugar og hveri á Íslandi og sá þriðji um jarðskjálfta á Íslandi 1013-1908 ásamt skýrslu hans um Suðurlandsskjálftana 1896.

Eldfjallarit Þorvaldar áttu mikinn þátt í að kynna umheiminum fjölbreytileika íslenskra eldstöðva. Heimildasöfnun höfundar um íslensk eldgos er ennþá í hávegum höfð. Síðari tíma rannsóknir á eldfjöllum, sérstaklega öskulagarannsóknir, hafa svo aukið mikið við þekkingu á íslenskri eldfjallasögu. Meira um Þorvald Thoroddsen.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica