Veðurstofa Íslands 90 ára
árstíðasveifla
Kort sem sýnir mismun sumar- og vetrarhita á Íslandi í 28 ár (1874-1901).

Þorvaldur Thoroddsen 1855 til 1921

Veðurstofa Íslands 90 ára

Trausti Jónsson 28.9.2010


Í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofu Íslands árið 2010 lét stofnunin, í samvinnu við Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, mynda þrjú af höfuðritum Þorvaldar Thoroddsen. Þessi rit eru aðgengileg gegnum vef Veðurstofunnar:

Landskjálftar á Íslandi (269 s., kort og töflur). Bókin kom út í Kaupmannahöfn í tveimur hlutum, 1899 og 1905. Sá fyrri var gefinn út með titlinum Landskjálftar á Suðurlandi. Hið íslenzka bókmenntafjelag gaf út.

Árferði á Íslandi í þúsund ár (432 s). Kom út í Kaupmannahöfn 1916 og 1917. Hið íslenska fræðafélag gaf úr.

Die Geschichte der isländischen Vulkane : nach einem hinterlassenen Manuskript (458 s., myndir, kort, töflur). Kom út í Kaupmannahöfn 1925. Høst & Søn gaf út.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur var fæddur 6. júní 1855 í Flatey á Breiðafirði. Hann var sonur Jóns Þórðarsonar Thoroddsen, sýslumanns og skálds (1819-1868), og Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur, Þorvaldar Sigurðssonar (Sivertsen), alþingismanns í Hrappsey. Þorvaldur var elsta barn foreldra sinna. Bræður hans voru þeir Þórður læknir, Skúli, sýslumaður og alþingismaður, og Sigurður verkfræðingur, allt kunnir menn á sinni tíð.

Titilsíða Landskjálfta á Íslandi
landskjalftar
Ritið kom út í tveimur hlutum í Kaupmannahöfn, árin 1899 og 1905.

Þorvaldur ólst upp hjá foreldrum sínum í Haga á Barðaströnd og síðar á Leirá í Leirársveit, en Jón var sýslumaður á þeim stöðum. Honum var við 11 ára aldur komið í nám hjá Jóni Árnasyni, biskupsskrifara og þjóðsagnasafnara í Reykjavík, en hann var þá nýlega kvæntur systur Kristínar Ólínu, Katrínu Þorvaldsdóttur. Þegar faðir Þorvaldar lést 1868 fluttist móðir hans með börnin til Reykjavíkur en Þorvaldur var áfram í fóstri hjá frændfólki sínu.

Þetta fóstur varð Þorvaldi og fræðimannsvinnu hans mjög afdrifaríkt því Jón Árnason var einnig forstöðumaður stiftsbókasafnsins, forvera Landbókasafns. Kynntist unglingurinn þá þegar handritalestri og var varla kominn af barnsaldri þegar hann hafði lesið allt það sem safnið innihélt af erlendum bókum um Ísland. Hann lærði þar með að lesa úr handritum og varð vel lesfær í algengustu erlendum málum. Er óhætt að segja að þessi ár hafi reynst Þorvaldi drjúg undirstaða þegar kom að fræðimennsku hans 20 til 30 árum síðar. Hugur hans stóð þó ekki til þeirra greina sem mest var reynt að kenna mönnum í Latínuskólanum heldur til náttúrufræða og stærðfræði.

Þorvaldur fór til háskólanáms í Kaupmannahöfn sumarið 1875, í náttúrufræði sem þá sem lengi síðar var talið mesta óráð. Vorið eftir hafði hann þegar ritað sína fyrstu ritgerð í landafræði í tímaritið Andvara. Var hún um Gylfastrauminn sem svo var nefndur fyrir sérvisku Jóns Sigurðssonar en var þá þegar af öðrum kallaður Golfstraumur.

Sumarið 1876 kom Þorvaldur í rannsóknarferð með kennara sínum, J. F. Johnstrup, og héldu þeir til Öskju í Dyngjufjöllum þar sem feiknarlegt eldgos hafði orðið árið áður m.a. hafði allmikið öskufall náð til Noregs og Svíþjóðar. Eftir þetta lagði Þorvaldur sig eftir eldfjallasögu Íslands. Á árunum 1878 og 1879 ritaði hann á dönsku yfirlit um eldfjallasögu landsins „Oversigt over de islandske Vulkaners Historie“ sem kom út í Kaupmannahöfn 1882.

Frá 1880 kenndi Þorvaldur um hríð við Möðruvallaskóla í Hörgárdal og síðar við Menntaskólann í Reykjavík, auk þess sem hann ferðaðist mikið um landið. Má lesa um rannsóknir hans og ferðir í fjögurra binda ferðabók hans. Ferðapistlar um Ísland birtust einkum í tímaritinu Andvara, en í Ísafold má lesa stúfa um ferðalag hans suður um Þýskaland og Ítalíu 1885.

Alþingi var Þorvaldi tiltölulega velviljað í fjárveitingum þennan tíma, miðað við landlægt, almennt skilningsleysi yfirvalda gagnvart rannsóknum. Gætti samt ákveðins óþols, bæði hjá Þorvaldi sjálfum í „skýrslu til alþingis 1885“, og hjá andstæðingum hans á þingi næstu árin. Skýrslan var jafnframt umsókn um ríflegri styrki. Hann getur þess hvað Svíar, Norðmenn og Danir geri til að rannsaka lönd sín og að Danir rannsaki Grænland, en um það leyti sem þeir hófu rannsóknir þar hafi Ísland fengið fjárforráð sín og fyrir því ætlist þeir til að Íslendingar sjálfir rannsaki land sitt. Tilætlunarsemi náttúrufræðinga um nauðsyn rannsókna á náttúru landsins hefur lengi reynst yfirvöldum illskiljanleg, allt fram á okkar daga. Hafði þá, sem löngum síðar, allur þorri alþingismanna hvorki vit né áhuga á þessu máli og gekk á rætnu ræðuskaki næstu árin þegar styrkumsóknir Þorvaldar komu til umræðu.

Baráttan um fjárveitingar hélt síðan áfram svo lengi sem Þorvaldur lifði, seinni árin voru Danir reyndar mun lausari á fé en íslenska fjárveitingavaldið. Bogi Th. Melsted segir í langri minningargrein um Þorvald (1923): „Alls fekk Þorvaldur Thoroddsen á árunum 1882 - 1898 12934 kr. úr landssjóði til þess að rannsaka alt ísland, eða tæplega svo mikið sem það hefur kostað landið, að koma út á íslensku stirðbusalegri þýðingu af fyrri hlutanum af Faust 2, og fje þessu öllu varð hann að verja til þess aö kaupa fylgdarmenn, hesta, nesti, verkfæri og annan útbúnað á ferðunum.“

Þorvaldur Thoroddsen
Þorvaldur Thoroddsen
Þorvaldur Thoroddsen. (Mynd úr: Bogi Th. Melsted: Þorvaldur Thoroddsen: um ævi hans og störf. Kaupmannahöfn, 1923.)

Þorvaldur og Þóra, kona hans, fluttu til Kaupmannahafnar 1895 og hafði hann þar lengst af ágætar tekjur, styrki og laun fyrir ritstörf, auk eftirlauna frá danska ríkinu. Auk þess vann hann að gerð herforingjaráðs-kortanna svonefndu, lagði til örnefni og las prófarkir. Honum buðust nokkrum sinnum prófessorsstöður í Höfn en vildi ekki. Sat hann þess í stað í mörgum dómnefndum um slíkar stöður.

Fyrir utan rannsóknir tengdar ferðalögunum milli 1880 og 1895 safnaði Þorvaldur gögnum í rit sitt, Landfræðissögu Íslands, og tókst að koma henni út á árunum 1892 til 1904. Landfræðissagan er nú, meir en hundrað árum síðar, löngu sígilt verk og verður seint oflofuð.

Bogi Th. Melsted gefur í áðurnefndri grein yfirlit um þá breytingu sem varð á þekkingu á náttúru landsins vegna rannsókna Þorvaldar. Hér verður rúmsins vegna einungis að vísa til þeirrar löngu upptalningar. Þorvaldur skrifaði fjölda fræðigreina í vísindarit þess tíma og varð mjög þekktur á sínu sviði. Honum hlotnaðist heiður af mörgu tagi, vísindafélög kusu hann félaga og sæmdu hann heiðurspeningum. Sömuleiðis ritaði hann fjölda greina til alþýðufræðslu og ætíð á skýru og góðu máli, langoftast um náttúrufræði. Einnig brá þó fyrir félags- og heimsósómaskrifum þótt Þorvaldur skipti sér aldrei hið minnsta af stjórnmálum.

Á meðan Þorvaldur samdi Landfræðissöguna vann hann jafnframt að tveim öðrum stórum vísindalegum verkum sem bæði voru byggð á rannsóknum hans. Hið fyrra þeirra var „Jarðfræðisuppdráttur Íslands“, sem kom út 1901 með enskum titli Geological Map of Iceland. Hið síðara, Íslandslýsing hans, á þýsku Island. Grundriss der Geograþhie und Geologie, stórt og mikið rit. Hann taldi sjálfur að þetta væri mesta rit sitt um Ísland.

Á árunum 1908 til 1911 kom út bókin Lýsing Íslands í tveim bindum, mikið verk, yfir þúsund blaðsíður að lengd. Margt á enn við sem í bókinni stendur, m.a. er þar ágætur kafli um loftslag á Íslandi. Þegar Þorvaldur lést var hann að rita viðbótarbindi um atvinnuvegi þjóðarinnar, sögu þeirra og þjóðlíf almennt. Síðari tvö bindin í Lýsingu Íslands, um landbúnað, komu út 1919-1922.

Árið 1907 kom út æfisaga Péturs Péturssonar biskups, eftir Þorvald, en Pétur var tengdafaðir Þorvaldar. Nokkrar deilur spunnust um bók þessa og ritdómar skemmtilega snarpir þótt dónalegir séu.

Að þessu loknu sneri Þorvaldur sér að ritun eldfjallasögunnar á þýsku og lauk þeim skrifum 1912. Af ýmsum ástæðum tafðist útgáfan og síðan skall fyrri heimsstyrjöldin á. Bókin var ekki gefin út fyrr en eftir að Þorvaldur lést.

Ferðabókin kom út á árunum 1913 til 1915, stórvirki í fjórum bindum, samtals 1405 síður. Árferði á Íslandi í þúsund ár kom síðan út á árunum 1916 til 1917 á vegum Fræðafélagsins. Höfundurinn segir í inngangi að hann hafi haft rit þetta í smíðum í hjáverkum í rúm 30 ár. Efnissöfnun fór mest fram um leið og hann safnaði efni í fyrri rit, Landfræðissöguna og Lýsingu Íslands. „Árferðið“ er samtíningur úr fjölda heimildarrita. Í ritinu er árferðisannáll frá því að Ísland byggðist fram til aldamótanna 1900, auk innangs og yfirlits. Langur sérkafli er um hafískomur á Íslandi og nær sú lýsing til og með árinu 1915.

Bókinni var sérlega vel tekið af alþýðu manna enda er þar safnað saman gríðarlegum fróðleik. Þorvaldur sjálfur kallaði hana „safndyngju“ og segir hana yfirlitsrit og í því séu aðeins stuttir pistlar um hvert ár á síðari hluta 19. aldar til þess að ritið yrði ekki of langt.

Lengst af er hægt að rekja sig að frumheimildum í gegnum tilvísanir í bókinni, en hún var gagnrýnd nokkuð fyrir ónákvæmni hvað þetta varðar, sérstaklega 19. aldar efnið. Þessi gagnrýni er þó í aðalatriðum ómakleg. Við lestur tilvísana kemur t.d. í ljós að þær ná stundum einnig til annálaafbrigða sem ekki voru prentuð í hinni síðari almennu annálaútgáfu. Er sú ráðstöfun að rýra veðurupplýsingar frá því sem upphaflega er í heimildunum mjög í stíl útgefenda eldri heimilda allt fram á okkar daga.

Þorvaldur hafði fjögur stórverk í smíðum þegar hann lést. Hið fyrsta má telja Minningabók hans sjálfs. Átti hún að vera þrjú bindi. Tvö komu út og eru afskaplega fróðleg lesning, bæði hvað hann sjálfan varðar, sem og um viðhorf þess tíma til vísindarannsókna.

Annað stórvirkið er fjölþætt syrpa alþýðlegra fræðirita sem átti að vera sjö bindi. Alþýðuritin fyrirhuguðu voru: 1. Stjörnufræði, sú varð tilbúin undir prentun og kom út, 2. skoðanir nútímans um frumefni og náttúrulögmál, 3. um lönd og þjóðir, 4. almenn jarðfræði, 5. úr jarðfræði og landfræði Íslands, 6. nokkrir íslenskir sagnaþættir og 7. ferðabréf frá ýmsum löndum. Sumt af þessu efni var samantekt úr ýmsum greinum sem Þorvaldur hafði skrifað á víð og dreif á árum áður.

Þriðja stórverkið sem var í undirbúningi þegar Þorvaldur lést var um fiskveiðar við Ísland í framhaldi af Landbúnaðarbindi Lýsingar Íslands og það fjórða var rit um eldfjöll og eldgos á Íslandi en sú bók átti að koma út á ensku.

Þovaldur fékk heilablóðfall á fundi í danska vísindafélaginu 3. desember 1920, lamaðist hægra megin og náði ekki fullum mætti eftir það, þrátt fyrir að hann væri andlega heill. Hann lést 28. september 1921.

Kona Þorvaldar var Þóra, dóttir Péturs Péturssonar biskups, og gengu þau í hjónaband 1887. Bogi Th. Melsted segir um Þóru: [Hún] „var ástúðleg eiginkona og mjög umhyggjusöm húsmóðir. Hún var híbýlaprúð, nýtin og hin mesta ráðdeildarkona. Hún var mjög nærgætin við mann sinn og hugsaði um að hann fengi sem best næði til ritstarfa sinna. Sem dæmi upp á það hvernig hún var við hjú sitt, má geta þess, að hún hafði jafnan sömu vinnukonuna allan sinn búskap, og var svo nærgætin og umhyggjusöm við hana, að hún unni frú Thoroddsen sem móður sinni. En þótt frú Thoroddsen hugsaði fyrst og fremst um heimili sitt, gaf hún sig þó töluvert að fjelagsskap og ýmsum málum, og ritaði stundum greinar í íslensk og dönsk blöð. Hún var óvenjulega vel mentuð bæði til munns og handa, og hafði mikinn áhuga á hannyrðum, teikningu og málaralist“.

Við þetta er skylt að bæta að Þóra var fyrst íslenskra kvenna til að nema myndlist erlendis og rak um tíma teikniskóla í Reykjavík. Hún var meðhöfundur að fyrstu íslensku hannyrðabókinni (1886). Nokkur verka hennar eru til á söfnum hérlendis og hafa á síðari árum vakið áhuga á þessari merku konu sem síðari hluta æfi sinnar lifði í skugga manns síns. Þóra var 7 árum eldri en Þorvaldur, fædd 1848 en lést 1917. Þau eignuðust eina dóttur, Sigríði, en hún féll frá á 15. aldursári, 1903. Sigríður hét eftir móðurömmu sinni. Fyrir hjónaband (1883) átti Þorvaldur aðra dóttur, Maríu Kristínu Stephensen, hún var ættleidd og lést einnig ung (1907) eins og hálfsystir hennar.

Þessi texti er einkum byggður á ítarlegum minningarorðum um Þorvald eftir Boga Th. Melsted í ársriti fræðafélagins í Kaupmannahöfn 1923 og minningabók Þorvaldar sjálfs. Má á stöku stað sjá orðalag úr texta þessara rita hér að ofan, beðist er velvirðingar frjálslegri meðferð. Rangfærslur þær sem kunna að vera í pistli þessum eru á ábyrgð höfundar hans, en ekki Boga eða Þorvaldar.

Aðalheimildir:

Bogi Th. Melsteð (1923). Þorvaldur Thoroddsen. Ársrit hins íslenska fræðafjelags í Kaupmannahöfn, 7. árgangur, bls 1-78.

Þorvaldur Thoroddsen (1922-1923). Minningabók, tvö bindi. Hið íslenzka fræðafélag í Kaupmannahöfn. 325 s.

Einnig má benda netverjum á pistil um Þorvald á Wikipediu. Þar má fá gott og fljótlesið yfirlit um helstu rit hans og einnig eru þar fleiri tilvísanir tengdar Þorvaldi.

Jón Eyþórsson ritaði formála að annarri útgáfu Ferðabókarinnar (1958) og fjallaði þar um Þorvald. Ormstunga endurútgaf nýlega Landfræðissögu Þorvaldar, nú með myndum, skrám og athugasemdum.

Lesa má um Þóru Pétursdóttur Thoroddsen á vefsíðunni Fjallkonan og í bók Hrafnhildar Schram listfræðings um Huldukonur í íslenskri myndlist er m.a. fjallað um Þóru.

Sjá einnig frétt um sama efni.

Fleiri afmælisgreinar

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica