Viðvaranir árið 2023
Tiltölulega rólegt ár. Engin rauð viðvörun var gefin út síðastliðið ár
Árið 2023 var tiltölulega
rólegt ef litið er til fjölda viðvarana sem gefnar voru út á árinu, en þær voru
samtals 311 talsins sem er heldur undir meðallagi, en frá 2018 hafa að
meðaltali verið gefnar út um 380 viðvaranir á ári. Viðvaranirnar dreifðust
nokkuð jafnt yfir spásvæðin og voru yfirleitt um 25 – 35 viðvaranir gefnar út fyrir
hvert spásvæði nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem einungis 15 viðvaranir voru
gefnar út og á Austurlandi að Glettingi þar sem 18 viðvaranir voru gefnar út.
Árið 2023 voru gefnar út 280 gular viðvaranir sem langflestar voru vegna vinds eða hríðar eða 252 talsins, en 28 viðvaranir voru vegna snjókomu, rigningar eða asahláku. Appelsínugular viðvaranir voru 31 sem skiptust þannig að 22 voru vegna vinds, sex vegna hríðar, en þrjár appelsínugular viðvaranir voru gefnar út vegna annarra veðurþátta, þ.e. vegna rigningar, snjókomu og asahláku, og voru þær allar gefnar út fyrir Austfirði. Engin rauð viðvörun var gefin út síðastliðið ár.