Fréttir

Verður 2024 hlýjasta ár sögunnar?

Ágúst 2024 og 2023 voru hlýjustu ágústmánuðir á heimsvísu til þessa  

16.9.2024

Hnattrænn meðalhiti í ágúst síðastliðnum var 16,82°C sem er 0,71°C yfir meðaltali ágústmánaða viðmiðunartímabilsins 1991-2020. Þessar niðurstöður byggja á ERA5 gagnasafninu og er lýst í fréttatilkynningu frá loftslagsþjónustu Kópernikusar.

Ágúst 2024 var 1,51°C umfram það sem var fyrir iðnbyltingu og er þrettándi mánuðurinn á fjórtán mánaða tímabili þar sem hnattrænn meðalhiti er yfir 1,5°C frá áætluðum hita fyrir iðnbyltingu.
Hnattraenn-medalhiti

Mynd 1: Myndin sýnir frávik hnattræns meðalhita frá meðaltali ágústmánaða 1991-2020


Hnattrænn meðalhiti fyrir sumar á norðurhveli árið 2024 (júní–ágúst) var sá hæsti frá upphafi mælinga og var 0,69°C yfir sumarmeðaltalinu árin 1991–2020. Þetta er hærra en sumarmet síðasta árs (2023) en það var 0,66°C.

Hnattrænn meðalhiti síðustu tólf mánaða (september 2023 – ágúst 2024) er sá hæsti frá upphafi mælinga, óháð því 12 mánaða tímabili sem miðað er við. Hitinn var 0,76°C yfir meðaltali áranna 1991–2020 og 1,64°C yfir meðaltali áranna 1850–1900 (sem notuð eru til viðmiðunar fyrir tímann áður en áhrifa iðnbyltingar fór að gæta á loftslag).

Frávik hnattræns meðalhita frá janúar–ágúst (2024) er 0,70°C yfir meðaltali 1991–2020, sem er hæsta gildið fyrir þetta tímabil og 0,23°C heitara en á sama tíma í fyrra (2023).

Meðalhitafrávik fyrir restina af þessu ári þyrfti að lækka um að minnsta kosti 0,30°C til að 2024 yrði ekki heitara en 2023. Þetta hefur aldrei gerst í öllu ERA5 gagnasafninu, sem gerir ákaflega líklegt að 2024 verði hlýjasta ár sögunnar.


Mynd_02hnattraenfravik

Mynd 2: Hnattræn frávik meðalhita í ágúst miðað við 1850-1900.

Evrópa og önnur svæði

Meðalhiti Evrópu í ágúst 2024 var 1,57°C yfir meðaltali ágústmánaða 1991-2020, sem gerir ágúst 2024 að næsthlýjasta ágústmánuði sem mælst hefur í Evrópu, eftir ágúst 2022, en sá var 1,73°C yfir meðaltali ágústmánaða 1991-2020.

Hitar í suður- og austurhluta Evrópu voru langt yfir meðaltali, en hiti var undir meðaltali á Íslandi, suðurhluta Noregs, norðvesturhluta Írlands og Bretlands og á vesturströnd Portúgal. Hiti var undir meðaltali í austurhluta Rússlands, í Alaska, austurhluta Rússlands, hluta Suður-Ameríku, Pakistan og Sahel-svæðinu.

Meðalhiti Evrópu fyrir sumarið (júní–ágúst) 2024 var sá hæsti frá því mælingar hófust, 1,54°C yfir meðaltali áranna 1991-2020, og fór fram úr fyrra meti frá árinu 2022 en það var 1,34°C.

Yfirborðshiti sjávar

Meðalyfirborðshiti sjávar fyrir ágúst 2024 á svæðinu 60°S–60°N var 20,91°C sem er næsthæsti hiti sem mælst hefur fyrir mánuðinn og aðeins 0,07°C undir ágúst 2023.

Í hitabeltinu í Kyrrahafi var sjávarhiti undir meðaltali, sem bendir til að þar þróist sjávarhiti í átt að La Niña-ástandi, sem þýðir að sjávarhiti verður undir meðaltali á því svæði næstu mánuði.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica