Fréttir
Forsida

Veðurstofa Íslands tekur þátt í fjölþjóðlegu verkefni um bætta áhættustjórnun vegna náttúruvár

Verkefnið er unnið yfir þriggja ára tímabil af 18 samstarfsaðilum frá sjö Evrópulöndum.

18.12.2023

MEDiate verkefnið hlaut árið 2022 tæplega 5 milljón evra styrk til þriggja ára úr Horizon Europe rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB. Verkefnið snýst um að þróa kerfi fyrir fjölþátta náttúruvá og að varpa ljósi á seiglu samfélagsins til að bæta staðbundna og svæðisbundna áhættustjórnun vegna náttúruvár. Verkefnið mun jafnframt stuðla að bættu mati á áhættu vegna samverkandi þátta náttúruvár og samhliða því að bættri áhættustjórnun.

Mediate hópurinn samanstendur af 18 samstarfsaðilum frá sjö Evrópulöndum og leiðir rannsóknastofnunin NORSAR verkefnið. Innan samstarfshópsins eru sérfræðingar með ólíkan bakgrunn, s.s. veðurfræðingar, umhverfis-, félags- og jarðeðlisfræðingar, byggingar- og áhættuverkfræðingar, upplýsingatæknifræðingar, rekstrarhagfræðingar, stjórnendur og notendur sem vinna saman að því að tryggja að MEDiate skili lausnum sem eru notendastýrðar og studdar með viðeigandi tækni.

MEDiate mun þróa ákvarðanakerfi (e. Decision support system) fyrir sveitarfélög til að bæta áhættustjórnun vegna náttúruváratburða  . Þetta er gert með því að skoða samspil náttúruvár af ólíkum toga sem kunna að hafa keðjuverkandi áhrif, s.s. áhrif aftakaúrkomu á skriður, samverkandi áhrif sjávarflóða og árflóða o.s.frv.  Ákvarðanakerfið mun nota upplýsingar um seiglu samfélaga og beita þjónustu- og almennings miðaðri nálgun sem tekur mið af núverandi ástandi sem og spáðum breytingum á hættu, tjónnæmi og berskjöldun vegna loftslagsbreytinga.

Ítarlegri upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Norsar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica