Veðurstofa Íslands og Háskóli Íslands efla samvinnu um doktorsnám
Nýr samningurinn tekur mið af fyrri samningum en aukin áhersla er á samstarf um doktorsnám á fagsviðum Veðurstofunnar
Veðurstofa Íslands og Háskóli Íslands endurnýjuðu samstarfssamning sinn um nám, kennslu og rannsóknir þann 15. mars. Samningurinn tekur mið af fyrri samningum en meðal helstu breytinga er aukin áhersla á samstarf um doktorsnám á fagsviðum Veðurstofunnar, sem eru m.a. veður, loftslag, jarðhræringar, jöklar, ofanflóð og auðlindir. Aðilar samningsins munu vinna að sameiginlegri stefnumótun um vísindi og rannsóknarstörf með það í huga að efla akademískt rannsókna- og vísindastarf og styrkja lögbundið hlutverk Veðurstofu Íslands.
Markmiðið með gerð samningsins er að efla og styrkja
samstarf Háskóla Íslands og Veðurstofunnar enn frekar með það fyrir augum að
nýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu sem samningsaðilar búa
yfir. Í þessu felst samvinna og samskipti Háskólans og Veðurstofunnar sem miðar að því að efla kennslu,
faglega hæfni, rannsóknir og doktorsnám í greinum sem tengjast fagsviðum Veðurstofunnar. Samningurinn tekur einnig til samvinnu um
þróun þekkingar, ráðgjafar og þjónustu.
Fulltrúar Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands við undirritun samstarfssamningsins í húsakynnum Veðurstofunnar. Frá vinstri: Sigurður M. Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, Jórunn Harðardóttir, rannsóknarstjóri VÍ, Hrafnhildur Valdimarsdóttir, staðgengill forstjóra VÍ, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, ,Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri athuguna- og upplýsingatæknisviðs VÍ, Matthew James Roberts, framkvæmdastjóri þjónustu- og rannsóknarsviðs VÍ, Svandís Helga Halldórsdóttir, deildarstjóri styrkjaskrifstofu á Vísinda- og nýsköpunarsviði HÍ, Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri Upplýsingatæknisviðs HÍ, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs HÍ.
Hlutverk Háskóla Íslands samkvæmt samningnum er að stuðla að eflingu doktorsnáms á fagsviðum Veðurstofunnar , standa fyrir grunn- og viðfangsbundnum rannsóknum í náttúruvísindagreinum og öðrum greinum sem tengjast hegðun náttúrunnar og efla þróun faggreina er tengjast fagsviðum Veðurstofu Íslands. Samkvæmt samningnum mun Veðurstofa Íslands taka við nemendum Háskóla Íslands til leiðbeiningar í skilgreindum verkefnum og styðja við doktorsnema en jafnframt er gert ráð fyrir því að sérfræðingar Veðurstofunnar geti kennt og leiðbeint nemendum Háskóla Íslands í fræðilegri og verklegri kennslu. Einnig mun Veðurstofan í samstarfi við HÍ skapa tækifæri til rannsóknatengds náms við skólann í greinum tengdum fagsviðum Veðurstofu Íslands.. Loks mun Veðurstofan veita nemendum aðstöðu og aðgengi að innviðum VÍ eins og þörf er á hverju sinni og samkvæmt skilmálum VÍ um slíkt aðgengi.
Frá vinstri: Hrafnhildur Valdimarsdóttir, staðgengill forstjóra Veðurstofu Íslands og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands.
„Samstarfið við Veðurstofuna er háskólanum afar mikilvægt. Ástandið á Reykjanesi sl. fjögur ár hefur ekki farið fram hjá neinum. Samfara slíkum viðburðum verður náttúruvá og viðbrögð við henni sífellt umfangsmeira viðfangsefni beggja stofnana. Þegar mikið reynir á er afar brýnt að sérfræðingar og vísindamenn miðli þekkingu og gögnum og grundvelli samstarfs sem byggir á trausti og virðingu eins og einkennt hefur samstarf Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands í gegnum áratugina,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Hrafnhildur Valdimarsdóttir staðgengill forstjóra Veðurstofu Íslands tekur undir orð rektors og segist fullviss um að með aukinni áherslu á samstarf um doktorsnám í nýundirrituðum samning muni vísindastarf og þekkingarmiðlun aukast enn frekar milli stofnananna. „Mikið hefur mætt á vísindafólki okkar á Veðurstofunni í ljósi jarðhræringanna á Reykjanesskaganum og aukinnar tíðni ofanflóðaatburða og þar hefur gott samstarf við Háskóla Íslands skipt lykilmáli. Við vöktun fjölþættrar náttúruvár sem Veðurstofan sinnir þarf sérhæft starfsfólk og þá eru rannsóknir og úrvinnsla gagna lykilþáttur til að skilja forboða náttúruvár, undirstaða fyrir hættu og -áhættumat og bætt verklag við vöktun náttúruvár. Góð samvinna Veðurstofunnar og Háskóla Íslands er því afar mikilvæg.”