Fréttir
Arctic Circle
Frá málstofu um væntanlega loftslagsskýrslu. IMO-led session on climate variations in Iceland.

Veðurstofa Íslands á hringborði Norðurslóða 2017

17.10.2017

Ráðstefnan „Arctic Circle 2017“ var haldin í Hörpu síðastliðna helgi (13.-15. okt.). Um 2000 þátttakendur frá meir en 50 löndum sóttu þetta árlega þing, sem nú var haldið í Reykjavík í fimmta sinn.

Ráðstefnur þessar hafa nú fest sig í sessi sem einn helsti vettvangur umræðu um málefni norðurslóða og að þessu sinni tóku um 600 manns til máls í rúmlega 100 sérhæfðum málstofum sem skipulagðar voru af einstökum ríkjum, háskólum, rannsóknastofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum.

Á þinginu kynntu nokkrir starfsmenn Veðurstofu Íslands samvinnuverkefni á sviði loftslagsmála, vatnafræði og jöklarannsókna.

Veðurstofan skipulagði sérstaka málstofu til kynningar á helstu niðurstöðum nýrrar skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi, sem gefin verður út fyrir áramót með stuðningi Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og samstarfsaðila, í ritstjórn Halldórs Björnssonar, hópstjóra loftslagsrannsókna á Veðurstofunni. Hann kynnti nýjustu gögn um hlýnun á Íslandi og sviðsmyndir veðurfars til aldarloka. Til máls tóku einnig Jón Ólafsson haffræðingur, sem fjallaði um súrnun sjávar kringum landið; Ólafur Ástþórsson fiskifræðingur, sem ræddi breytingar á lífríki hafsins, Trausti Baldursson líffræðingur, sem lýsti breytingum á gróðurfari og dýralífi og Brynhildur Davíðsdóttir hagfræðingur, sem ræddi um áhrif loftslagsbreytinga á innviði og samfélagsgerð.

Arctic Circle

Hluti þátttakenda á ráðstefnunni Arctic Circle 2017. Þátttakendur voru 2000.

Á málstofu um kynningu á gagnasöfnum um náttúrufar á norðurslóðum kynnti Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, þátt Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) í mælingum og greiningu veðurfars á norðurskautssvæðinu. Þar tóku einnig til máls fulltrúar frá Norðurlöndum, Bandaríkjunum, geimferðastofnun Evrópu (ESA) og Kína og kynntu framlög til mælinga á meginlöndunum, í Norður-Íshafinu og með fjarkönnun.

Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs Veðurstofunnar, tók þátt í málstofu um áhrif eldgosa og öskuskýja á flugumferð á norðurslóðum og Halldór Björnsson og Þorsteinn Þorsteinsson töluðu á fundi um ferskvatnsstreymi á Norðurslóðum, m.a. frá jöklum á svæðinu. Þorsteinn tók einnig þátt í fundi sem skipulagður var á vegum þingmannasamtaka Norðurskautsráðsins og sagði þar frá áhrifum loftslagsbreytinga á jökla á Íslandi og afrennsli frá þeim.

Halldór Björnsson tók ennfremur þátt í málþingi Alkirkjuráðsins og þjóðkirkjunnar um frið við jörðina, loftslagsbreytingar og réttlæti, sem haldið var sem hluti af Arctic Circle. Hann flutti erindi og tók þátt í pallborðsumræðum fimmtudag og laugardag. Síðari daginn tók Bartólómeus I, patríarki Réttrúnaðarkirkjunnar, þátt í málstofunni.

Sigrún Karlsdóttir, náttúruvárstjóri á Veðurstofunni, tók þátt í forfundi um “Energy in the Arctic”.

Starfsnemi á Veðurstofunni, Aldís Elfarsdóttir, var í teymi sjálfboðaliða á ráðstefnunni og miðlaði upplýsingum á Facebook- og Twitter-reikningi Arctic Circle.

Fleiri myndir frá ráðstefnunni má skoða á vefsvæði.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica