Fréttir
ArSi-Skjaldthingsstadir2-7.8.2019
Mönnuð skeytastöð Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði. Henni verður breytt í úrkomustöð í vor. Dagsetning: 7. ágúst 2019. Ljósmynd: Árni Sigurðsson/Veðurstofa Íslands.

Veðurskeytastöðvar á Íslandi

Eftirlitshlutverk mannaðra veðurskeytastöðva hefur minnkað vegna tækniframfara

30.1.2024

Umhverfi veðurathugana hefur breyst mikið síðustu ár sökum tækniframfara og aukinnar kröfu um veðurupplýsingar í rauntíma. Teknar hafa verið í notkun þrjár nýjar veðurratsjár sem dekka allt landið og mælingar veðurþátta eins og hita, vinds og loftþrýstings er orðinn sjálfvirkur. Veðurspárlíkön hafa á sama tíma orðið sífellt áreiðanlegri.  Þessar framfarir hafa gert það að verkum að eftirlitshlutverk mannaðra veðurskeytastöðva hefur minnkað mikið.

Það eru hins vegar veðurþættir sem mikilvægt er að fá upplýsingar um sem tækninni hefur ekki tekist að leysa nógu vel. Þættir eins og úrkoma á ýmsu formi og snjóhula í byggð og til falla. Þessi gögn eru mikilvæg einkum vegna vöktunar á veðurfari til langs tíma. Á mönnuðum úrkomustöðvum hafa verið gerðar athuganir á þessum veðurþáttum og mikilvægi þeirra hefur af þeim sökum ekki minnkað.

Af 14 skeytastöðvum voru lagðar af fjórar um síðustu áramót, og tvær að auki munu hætta með vorinu. Skeytastöðvar sem breyttust í úrkomustöðvar eru Akureyri, Miðfjarðarnes og Hjarðarland í Biskupstungum. Hólar í Dýrafirði hættir, og í vor verður Ásgarði í Dölum og Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði breytt í úrkomustöðvar. Á öllum þessum stöðum verða eftir sem áður sjálfvirkar veðurstöðvar.

Úrkomustöðvarnar Bláfeldur, Kerlingardalur, Ólafsfjörður, Raufarhöfn, Sámsstaðir, Skaftafell, Svartárkot og Teigarhorn munu einnig hætta.

Ágrip af sögu veðurstöðavnna sem nú eru að hætta eða breyta um hlutverk

Akureyri

Elstu veðurathuganir á Akureyri gerðu danskir landmælingamenn á árunum 1807 til 1814, einnig voru gerðar athuganir 1846 til 1854. Danska veðurstofan hóf að mæla loftþrýsting á Akureyri 1874 og má segja að hefðbundnar og samfelldar veðurathuganir ásamt hitamælingum hafi hafist á Akureyri 1881. Eftir um 1920 sáu starfsmenn Ritsímans um veðurathuganirnar að Hafnarstræti 84, þar til Lögreglan tók við þeim 1943. Fyrst var lögreglustöðin staðsett við Smáragötu og Glerárgötu, en árið 1968 fluttist hún að Þórunnarstræti 138. Framvegis verða nú gerðar hitamælingar með sjálfvirkum hitamæli í hitamælaskýlinu við lögreglustöðina og fljótlega verður vindmælingunum á þaki hússins einnig safnað sjálfvirkt. Úrkoma verður áfram mæld með hefðbundnum hætti (en aðeins einu sinni á sólarhring) og loftþrýstingur ásamt sólskinsstundum verða mæld á sjálfvirku veðurstöðinni við Krossanesbraut.

Akureyri-N

Veðurskeytastöð á Akureyri. Dagsetning: 22. ágúst 2013. Ljósmynd: Árni Sigurðsson/Veðurstofa Íslands.

Miðfjarðarnes við Bakkaflóa

Veðurskeytastöðin Miðfjarðarnes var stofnuð 19 ágúst 1999. Sá Unnur E. Gunnlaugsdóttir fyrst um veðurathuganirnar ásamt eigimanni og dóttur. Árið 2006 tók dóttir þeirra, Sigríður Ósk Indriðadóttir alfarið við athugununum ásamt manni sínum Krzysztof Krawczyk. Sjálfvirk veðurstöð var sett upp í Miðfjarðarnesi 2008, en skeytastöðin breytist núna í mannaða úrkomustöð.

ArSi-Midfjardarnes1-13.7.2016

Veðurskeytastöðin Miðfjarðarnes. Myndin er tekin í norður í áttina að Finnafirði og Gunnólfsvíkurfjalli. Dagsetning: 13. júlí 2016. Ljósmynd: Árni Sigurðsson/Veðurstofa Íslands.

Hjarðarland í Biskupstungum

Veðurskeytatöðin Hjarðarland var stofnsett í janúar 1990. Helgi Kristbergur Einarsson sá fyrst um veðurathuganirnar ásamt Kolbrúnu Sæmundsdóttur. Kolbrún tók við búi Helga 2003 og sá eftir það um athuganirnar ásamt eiginmanni sínum. Árið 2004 var sett upp sjálfvirk veðurstöð á Hjarðarlandi og lengst af hafa þar einnig verið gerðar þar sjálfvirkar skýja- og skyggnismælingar. Skeytastöðin breytist nú í mannaða úrkomustöð.

Hjardarland-1997

Skeytastöðin Hjarðarland í Biskupstungum. Úrkomumælir og hitamælaskýli. Séð í austur. Dagsetning: 25. júní 2997. Ljósmynd: Elvar Ástráðsson/Veðurstofa Íslands.

Hólar í Dýrafirði

Guðbrandur Stefánsson hóf að gera veðurathuganir á Hólum 14. Júlí 1983. Guðbrandur lést í desember 2006, en Ásta Guðríður Kristinsdóttir tók við athugunum 24. Janúar 2007 ásamt Friðberti Jóni Kristjánssyni. Þann 10. desember 2020 var sett upp sjálfvirk veðurstöð á Hólum ásamt sjálfvirkum úrkomumæli, sem verða rekin þar áfram.

ArSi-Holar-i-Dyrafirdi-5.9.2018

Veðurskeytastöðin Hólar í Dýrafirði. Myndin er tekin 9. maí 2018. Ljósmynd: Árni Sigurðsson/Veðurstofa Íslands.

Bláfeldur á Snæfellsnesi

Veðurskeytastöðin Bláfeldur var stofnsett 15. desember 1997 og athugunarmenn voru Erla Hafdís Steingrímsdóttir og Jóhannes Lúther Gíslason, en Jóhannes sá einn um athuganirnar eftir um 2010. Bláfeldi var breytt í úrkomustöð 2. október 2018 þegar Eiríkur Böðvar Rúnarsson og Franziska María Kopf taka við búinu. Eftir það eru örar mannabreytingar á Bláfeldi. Sjálfvirk veðurstöð var sett upp á Bláfeldi árið 2003.

Skjaldþingsstaðir

Veðurathuganir í Vopnafirði voru fyrst gerðar í Fagradal 1925 og sá Kristján N. Wiium bóndi fyrst um athuganirnar. Fagridalur var staðsettur í afskekktum dal norðan undir Hellisheiði eystri. Oddný S. Wiium tók við athugunum í Fagradal 1932 og Guðbjörg dóttir hennar var henni til aðstoðar. 1. ágúst 1964 flutti fjölskyldan til Vopnafjarðar og tók Guðbjörg alfarið við athugununum 1972 að Hamrahlíð 23. Skeytastöðin í Vopnafirði hætti 1993 og hefur Jón H. Ingólfsson annast veðurathuganirnar að Skjaldþingsstöðum síðan 30. júlí 1994. Sjálfvirk veðurstöð var sett upp á Skjaldþingsstöðum 2006 og sjálfvirkur úrkomumælir 6. September 2023. Skjaldþingsstaðir verða framvegis mönnuð úrkomustöð.

ArSi-Skjaldthingsstadir2-7.8.2019

Mönnuð skeytastöð Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði. Henni verður breytt í úrkomustöð í vor. Dagsetning: 7. ágúst 2019. Ljósmynd: Árni Sigurðsson/Veðurstofa Íslands.

Ásgarður í Dölum

Veðurathuganir höfðu verið gerðar nokkuð samfellt í Búðardal á árunum 1960 til 1992 en fremur tíð skipti á athugunarfólki. Stöðin flutti að Ásgarði í Dölum kringum 5. ágúst 1992, en þar hafa Arndís Erla Ólafsdóttir og Bjarni Ásgeirsson annast athuganirnar síðan. Stöðin verður framvegis mönnuð úrkomustöð. Sjálfvirk veðurstöð var sett upp í Ásgarði 2003.

Asgardur

Skeytastöðin á Ásgarði, Dalasýslu. Hitamælaskýli og úrkomumælir er fjær. Íbúðarhúsið er í baksýn. Ásgarði í Dölum verður breytt í úrkomustöð í vor. Dagsetning: 9. ágúst 2000. Ljósmynd: Elvar Ástráðsson/Veðurstofa Íslands.

Kerlingardalur í Mýrdal

Karl Pálmarsson hefur séð um að gera úrkomumælingar í Kerlingardal síðan 1999.

Ólafsfjörður

Í Ólafsfirði voru fyrst gerðar úrkomumælingar af Jóhannesi Jóhannessyni í Kálfsárkoti 1987 til 2010 en þá fluttist mælirinn niður í bæ og mælirinn settur upp á túnfleti ekki fjarri opi Múlaganga. Snjóathugunarmenn Veðurstofu hafa séð um úrkomumælingarnar og þá einkum samhliða snjóamælingum að vetrarlagi. Ari Eðvalds sá um mælingarnar til um 2015 en Tómas Atli Einarsson hefur séð um þær síðan. Í Ólafsfirði hefur einnig verið rekin sjálfvirk veðurstöð af Ofanflóðasjóði ásamt úrkomumæli síðan 1997.

Raufarhöfn

Veðurathuganir voru gerðar á Raufarhöfn á vegum dönsku veðurstofunnar á árunum 1884 til 1899, lögðust þá af, en hófust síðan aftur. Sá Árni Árnason um athuganirnar ásamt Rannveigu Lund sem tók alfarið við þeim 1932. Sonur hennar Árni Pétur var henni til aðstoðar. Hún bjó í Lundshúsi sem var nyrst í bænum og í um 700 m fjarlægð frá Raufarhafnarvita. Árið 1951 tóku bræðurnir Valtýr og Vilhjálmur Hólmgeirssynir við athugununum og var hitamælaskýlið staðsett við Símstöðvarhúsið. Valtýr var símstöðvarstjóri og sá að mestu um athuganirnar á daginn en Vilhjálmur á nóttunni. Þegar Valtýr lést 1991 tók Vilhjálmur alfarið við athugunum að nóttu og degi og stöðin flutt að heimili hans við Víkurbraut. Vilhjálmur hætti 2009 og var stöðinni þá breytt í úrkomustöð. Óskar Óskarsson sá um úrkomumælingarnar ásamt starfsmönnum áhaldahússins. Sjálfvirk veðurstöð ásamt úrkomumæli var sett upp nærri símstöðvarhúsinu árið 2005.

Villi-Raufarhofn

Vilhjálmur Hólmgeirsson veðurathugunarmaður á Raufarhöfn frá 1951 til 2010. Hann sá einn um að gera veðurathuganir á þriggja klukkustunda fresti að nóttu í 59 ár og á þriggja fresti allan sólahringinn frá 1991 til 2010 eða í 19 ár samfleitt. Vilhjálmur vann einstakt afrek. Myndin er tekin 24. ágúst 2004. Ljósmyndari: Elvar Ástráðsson/Veðurstofa Íslands.

Sámsstaðir í Fljótshlíð

Það hefur lengst af verið veðurfars- og búveðursstöð á Sámsstöðum síðan 1927 ásamt mælingum á sólskinsstundum. Klemenz Kristjánsson tilraunarstjóri sá um veðurathuganirnar til 1967 og  Kristinn Jónsson til 1994. Síðan hefur Ingvar Helgason séð um mælingarnar. Sjálfvirk veðurstöð var sett upp árið 2000, ásamt úrkomumæli og hitamælaskýlið var tekið niður 7. Júlí 2005.

Skaftafell í Öræfum

Jakob Guðlaugsson sá um úrkomumælingar í Bölta 1964 til 1992. Eftir að hann dó tók Guðlaug Bjarnadóttir kona hans við úrkomumælingunum til 2008. Klaus Kretzer og Regína Hreinsdóttir í Hæðum sinntu úrkomumælingunum 2008 til 2018 en þá var mælirinn fluttur niður í Sandakot þar sem Hrafnhildur Ævarsdóttir hefur annast mælingarnar. Sjálfvirk veðurstöð var sett upp við þjólustumiðstöðina 1995 og sem var flutt á betri stað 11. maí 2023 og settur upp sjálfvirkur úrkomumælir.

Svartárkot

Hörður Tryggvason sá fyrst um að gera veðurathuganir í Svartárkoti 13. júlí 1948 til 30. september 1949. Elín Baldvinsdóttir sá um að gera úrkomumælingar frá því 1990 til 2010, þegar dóttir hennar Sigurlína Tryggvadóttir tók við. Sigurlína sá einnig um úrkomusýnatöku samsæturannsókna fyrir Háskóla Íslands. Sjálfvirk veðurstöð hefur verið í Svartárkoti síðan 2003.

Teigarhorn við Berufjörð

Á Teigarhorni hafa verið gerðar veðurfarsathuganir síðan 1881, en þá var stöð sem verið hafði á Djúpavogi frá 1872 flutt þangað. Jón Kr. Lúðvíksson bóndi sá um athuganirnar frá 1921 til 1958. Kristján jónsson bóndi 1958 til 1995 og Herbert Hjörleifsson 1995 til 2008. Veðurfarsstöðinni var breytt í úrkomustöð og hún flutt um tíma á Djúpavogi en skilaði sér til baka um stund eftir 2015 og þá gerðar af starfsmanni safnisins á Teigarhorni. Sjálfvirk veðurstöð var sett upp á Teigarhorni 2001 og sjálfvirkur úrkomumælir settur settur upp 22. nóvember 2022.

Teigarhorn-2020

Úrkomustöðin Teigarhorn í Berufirði. Dagsetning: 26. maí 2020. Ljósmynd: Árni Sigurðsson/Veðurstofa Íslands.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica