Fréttir
Bægisá í gær mældis 27 m3/s nálægt hámarki. Ljósmynd: Njáll Fannar Reynisson

Leysingaflóð á Norðurlandi í rénun

2.7.2021

Mikil hlýindi hafa verið á norðanverðu landinu undanfarna viku með tilheyrandi leysingu og þar af leiðandi flóðum í ám og lækjum. Vorið var kalt á svæðinu og t.d. var meðalhiti maímánaðar á Akureyri um 1,5°C undir meðallagi í samanburði við undanfarna áratugi og hélst þessi kuldatíð fram yfir miðjan júnímánuð. Af þessum sökum hefur snjó til fjalla ekki leyst fyrr en með miklum hita og vindi undir lok júnímánaðar. Taka má sem dæmi að síðastliðna viku hefur hiti á Akureyri ekki farið niður fyrir 10°C um nætur og farið allt upp í 25°C yfir daginn. Miklir vatnavextir og staðbundið tjón hefur verið á svæðinu og er um að ræða stærstu flóð sem mælst hafa í Bægisá og Hörgá en flóðið í Fnjóská er á pari við flóð sem varð þar í júní 1995. Tjón hefur orðið á vegum og við brýr og ræsi víða á svæðinu og flætt hefur inn á tjaldsvæðið í Vaglaskógi.

Frumniðurstöður benda til að flóð af þessari stærð í Fnjóská, Hörgá og Bægisá hafi u.þ.b. 50 ára endurkomutíma, sem þýðir að slík flóð verði að jafnaði einu sinni yfir 50 ára tímabil.

Eyjafjarðará hefur einnig verið eins og haf yfir að líta og flætt úr farvegi sínum yfir tún og valdið skemmdum á vegum. Slík flóð í Eyjafjarðará eru þekkt og árið 2006 varð þar t.a.m. mikið flóð sem olli tjóni á brúm og vegum á vatnasviði árinnar.

Flóðin náðu hámarki í flestum vatnsföllum aðfaranótt fimmtudagsins 1. júlí. Nú er vatnsborð víðast hvar farið að lækka og gera spár ráð fyrir að dragi úr leysingu næstu daga. Þó ber að hafa í huga að áfram verður mikið í ám lækjum og ástæða til að fara varlega í nágrenni þeirra.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica