Aðgerðir til varnar stórum skriðum nauðsynlegar á Seyðisfirði
Niðurstöður hættumats kynntar bæjarbúum
Sérfræðingar Veðurstofunnar tóku þátt í íbúafundi á Seyðisfirði í gær til að kynna nýtt
ofanflóðahættumat fyrir Seyðisfjarðarbæ. Kynningin var haldin í tengslum við breytingar á aðalskipulagi sem stendur til að vinna á næstu árum. Tilefni endurskoðunar fyrra hættumats frá
2002 er að nýjar jarðfræðirannsóknir sýna að stórar, forsögulegar skriður hafa
fallið yfir svæðið þar sem suðurhluti Seyðisfjarðarbæjar stendur nú. Nýja matið
kallar meðal annars á varnaraðgerðir fyrir íbúðabyggðina í suðurbænum vegna
hættu á stórum skriðum úr Neðri-Botnum og er undirbúningsvinna þegar hafin.
Einnig óskaði Seyðisfjarðarkaupstaður eftir
nánari greiningu á ofanflóðahættu undir Strandartindi til þess að kanna hvort þar sé unnt að greina milli
svæða með mismikilli hættu. Nýja hættumatið undir Strandartindi er lítið breytt frá fyrra hættumati frá
2002 að því leyti að allt atvinnusvæðið undir Þófa er áfram á C-svæði samkvæmt nýja matinu. Það að byggð sé skilgreind á C-svæði má ekki reisa þar neinar nýbyggingar nema frístundahús og
húsnæði þar sem viðvera er lítil.
Hægt er að kynna sér hættumatið hér.
Forsögulegu stórskriðurnar fjórar á Seyðisfirði, þykkt og útbreiðsla. Rannsóknargryfjur sem gáfu nytsamar upplýsingar eru sýndar ásamt skriðuþykkt í hverri og einni (Árni Hjartarson og Jón Kristinn Helgason, 2017).
Fundurinn var vel sóttur. Hér svara sérfræðingar Veðurstofunnar spurningum bæjarbúa, þau Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur og Sigríður Sif Gylfadóttir, eðlisfræðingur og verkefnastjóri hættumatsins. Um 50 manns mættu á fundinn sem gekk vel og bæjarbúar áhugasamir um efni fundarins. (Ljósmynd: Jón Kristinn Helgason)