Fréttir
Mynd-2-island
Uppsöfnuð úrkoma (mm) yfir 48 tíma spá. HARMONIE-AROME veðurlíkan Veðurstofu Íslands, upphafstími 18. september 2023 kl. 00. Veðurlíkanið er reiknað í neti sem er með 2,5 km möskvastærð og því nær líkanið ekki að spá vel fyrir aðstæðum og úrkomumynstri í þröngum dölum og fjörðum.

Úrkoma og úrkomuákefð í vatnsveðrinu á austanverðu landinu í september.

Mest mældist úrkoman í Neskaupstað og á Fáskrúðsfirði var úrkomuákefðin óvenjulega mikil

29.9.2023

Veðurlíkan Veðurstofu Íslands spáði mikilli úrkomu á austanverðu landinu, einkum á norðanverðum Austfjörðum. Þann 18. og 19. september síðastliðinn var lægð á austurleið fyrir sunnan land en sömuleiðis nálgaðist landið hlý lægð úr suðaustri. Veðraskil tengd þessum lægðum báru mikla úrkomu inn á austanvert landið, einkum Austfirði, sjá mynd 1.

Samsett-mynd

Mynd 1. Veðurkort sem sýnir veðurspá í gildi mánudaginn 18. september kl. 12 (vinstri) og þriðjudaginn 19. september kl. 12 (hægri). Sýndur er loftþrýstingur við sjávarmál (hPa, heilar línur), 6 klst úrkoma (mm, lituð svæði) og hiti í 850 hPa (°C, brotnar línur). Spá frá Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, upphafstími 18. september kl. 00, 12 og 36 tíma spár.

Eins og sést á mynd 2 og 3 þá var uppsöfnuð úrkoma yfir 200 mm til fjalla, 150 -200 mm víða á norðanverðum Austfjörðum og 100- 150 mm á sunnanverðum Austfjörðum. Til samanburðar er meðalársúrkoma á veðurstöðvum á Austfjörðum á bilinu 1300-1900 mm. Úrkoman er reiknuð yfir 48 tíma, frá kl. 00 mánudag 18. september til kl. 00 þriðjudag 20. september. Úrkomuskugginn á Héraði var áberandi, og meiri heldur en raungerðist.

Mynd-2-island

Mynd-2_2-klippa-nytt

Mynd 2 og 3. Uppsöfnuð úrkoma (mm) yfir 48 tíma spá. Allt landið (efri) og þysjað inn á austanvert landið (neðri). HARMONIE-AROME veðurlíkan Veðurstofu Íslands, upphafstími 18. september 2023 kl. 00. Veðurlíkanið er reiknað í neti sem er með 2,5 km möskvastærð og því nær líkanið ekki að spá vel fyrir aðstæðum og úrkomumynstri í þröngum dölum og fjörðum.

Á mynd 3 má sjá uppsafnaða úrkomu í vatnsveðrinu, en þar sést vel hvernig mest úrkoma féll á norðanverðum Austfjörðum, frá Gilsá á Breiðdal og að Bakkagerði á Borgarfirði eystri. Á Dalatanga mældist mun minni úrkoma en inni á fjörðunum. Frá sjálfvirku stöðinni þar vantar úrkomumælingar frá kl. 19 þann 19. september en þá varð jarðfall undir veginum út á Dalatanga og ljósleiðari fór í sundur. Mæld úrkoma á sjálfvirku stöðinni þar er því líklega minni en raunin var. Einnig var minni úrkoma hlémegin við Austfirðina, í úrkomuskugganum. Minnst mældist úrkoman á Egilsstaðaflugvelli eða 61 mm.

Mynd-3-

Mynd-3_2

Mynd 4 og 5. Mæld uppsöfnuð úrkoma (mm) frá kl. 18 þann 17. september til kl. 09 þann 20. september (68 tímar) á mönnuðum stöðvum (efri mynd) og sjálfvirkum stöðvum (neðri mynd). Stærð hringanna gefur til kynna úrkomumagn. Þó nær allur hluti úrkomunnar hafi fallið þann 18. og 19. september er tímabilið lengra hér. Það er til að hafa sambærilegar mælingar á mönnuðum og sjálfvirkum stöðvum, en á mönnuðum stöðvum er úrkoma mæld kl. 09 og kl. 18.

Landslag hefur mikil áhrif á hvar úrkoma fellur til jarðar

Úrkomumælingar eru mikil áskorun, ekki síst í jafn vindasömu landi og Ísland, þar sem erfitt getur reynst að fanga úrkomu í mæla. Þannig er að minna mælist með auknum vindhraða en einnig er erfiðara að fanga snjókorn en regndropa. Að auki er úrkomu mjög breytileg, þar sem landslag hefur mikil áhrif á hver hún fellur til jarðar. Í fjalllendi er iðulega mest úrkoma áveðurs í hlíðum fjalla. Dæmi um slíkan breytileika sést vel í Seyðisfirði. Um þessar mundir eru fjórir úrkomumælar í firðinum og mældu þeir 183‒268 mm í atburðinum. Sömuleiðis er nokkur munur á mannaðri og sjálfvirkri mælingu á Teigarhorni, 33 mm, þrátt fyrir að mælarnir teljist vera á sama stað.

Áhugavert er að skoða úrkomu yfir mismunandi tímalengdir. Í töflu 1 má finna mestu 1, 12, 24 og 48 klst úrkomu sem mældist í atburðinum á sjálfvirkum veðurstöðvum. 1 klst ákefð mældist mest á Fáskrúðsfirði en mesta 12, 24 og 48 klst ákefðin mældist í Neskaupstað. Á Fáskrúðsfirði mældist 12 og 24 klst úrkoma sú mesta sem mælst hefur á stöðinni, en hún hefur einungis mælt frá árinu 2008. Til samanburðar hefur verið mælt sjálfvirkt í Neskaupstað frá árinu 1997. Mesta 12, 24 og 48 klst uppsafnaða úrkoma í Neskaupstað mældist í vatnsveðri 13.‒14. maí 2017.

Tafla 1. Mesta 1, 12, 24 og 48 klst úrkoma (mm) á sjálfvirkum stöðvum í atburðinum 18. og 19 september. Mesta mælda úrkoma á stöð er feitletruð.

STOD NAFN 1 klst 12 klst 24 klst 48 klst
5990 Neskaupstaður 12.3 116.2 171.6 263.9
5982 Fáskrúðsfjörður Ljósaland 15.8 107.4 161.5 234.6
5981 Eskifjörður 11.0 98.1 155.7 212.7
4180 Seyðisfjörður - Vestdalur 8.1 79.5 141.8 210.0
4183 Seyðisfjörður - Innri-Botnar 12.4 75.0 119.9 182.5
4182 Seyðisfjörður 10.0 62.7 101.8 159.0
4380 Bakkagerði 8.3 70.4 107.1 155.7
5872 Teigarhorn 6.4 45.4 78.2 114.8
4193 Dalatangi 6.0 39.8 70.7 111.6
4271 Egilsstaðaflugvöllur 3.5 27.3 44.1 59.3


Mynd 6 sýnir hins vegar IDF ferla fyrir Neskaupstað byggða á mældri úrkomu á tímabilinu 1997‒2017. Úrkomumælingar í vatnsveðrinu 18.‒19. september, þ.e. hámarks uppsöfnuð úrkoma yfir 12, 24 og 48 klst eru sýndar með rauðum punktum. Samkvæmt myndinni virðist þessi atburður því hafa verið um 20‒30 ára atburður í Neskaupstað. Tilsvarandi IDF ferlar gefa til kynna að úrkomuákefðin í atburðinum hafi verið sjaldgæf á Eskifirði, eða 25‒50 ára atburður, en töluvert algeng í Seyðisfirði, á Dalatanga og Egilsstaðaflugvelli. Ekki voru reiknaðir IDF ferlar fyrir mannaðar stöðvar.   

Mynd-4

Mynd 6. IDF ferlar fyrir Neskaupstað byggðir á mælingum 1997—2017. IDF ferlar sýna samtímis ákefð, tímalengd og tíðni (e. intensity duration frequency). Rauðu punktarnir sýna mælingar í vatnsveðrinu núna í september.

Ný veðursjá á Bjólfi sér betur til hafs úti fyrir Austfjörðum

Í sumar reisti Veðurstofan nýja veðursjá á toppi Bjólfs fyrir ofan Seyðisfjörð, mynd 7. Þessi veðursjá mun taka við af þeirri sem er á Miðfelli. Ný veðursjá á Bjólfi sér betur til hafs en sú eldri og mun því geta séð úrkomubakka á Austfjörðum, mynd 6. Hún var sett í gang í fyrsta skipti að morgni 18. september og samkvæmt vakthafandi veðurfræðingum nýttust myndir frá henni vel í atburðinum. Taka mun þó einhvern tíma að koma veðursjánni í fullan rekstur sem og að læra að túlka myndirnar, meðal annars vegna þess að hún er staðsett um 400 m hærra en sú eldri á Miðfelli. Veðurstofan bindur miklar vonir um að þessi nýja veðursjá muni nýtast vel til veðurvöktunar á Austurlandi.

Onnur-mynd-njall

Ljósmynd: Hermann Arngrímsson/Veðurstofa Íslands

Nokkrar skriður féllu í kjölfar vatnsveðursins

Mikill viðbúnaður var hjá ofanflóðadeild Veðurstofunnar vegna þessarar mikluúrkomu sem  spáð var á Austfjörðum, á Mið-Norðurlandi og á Ströndum. Gefnar voru út skriðuaðvaranir fyrir ofangreinda staði. Þar sem spáð var mestri úrkomu á Austfjörðum var farið á óvissustig vegna rigningarinnar og hættustig á Seyðisfirði þar sem rýmt var á atvinnusvæðinu undir Strandartindi.

Reitir 4, 5, 6 og 7a.

Skridur


Eins og við var að búast féllu fjölmargar skriður í veðrinu 18. og 19. september á Austfjörðum. Flestar skriðurnar féllu í Vöðlavík en þar er ekki föst búseta. Skriður féllu einnig í Seyðisfirði, innarlega í Norðfirði og í Reyðarfirði. Hluti vegarins inn að Dalatanga í Mjóafirði hljóp í sjó fram og víða féllu smáskriður í norðanverðum Mjóafirði.

Á Mið-Norðurlandi gerði einnig mikla úrkomu og féllu a.m.k sjö skriður í Dalsmy

nni sem meðal annars lokuðu veginum um Dalsmynni. Einnig féllu skriður í Glérárdal en ein þeirra þveraði veginn sem liggur upp að stíflunni í Glerárdal og olli tjóni á ræsi í vegi. Skriðurnar í Hörgárdal og Öxnadal ollu engu tjóni.

Á myndinni hér að neðan má sjá skriðuna sem féll við Landsenda í Vöðlavík.

Skrida-mynd-axel
Ljósmyndari: Axel Ólafsson

Höfundar: Guðrún Nína Petersen, Kristín Björg Ólafsdóttir, Andréa Massad og Tinna Þórarinsdóttir.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica