Um veðurspá og flóðaástand
Spár hafa gengið eftir og vatnavextir miklir
Mikið hefur rignt á Suður- og Vesturlandi síðan í gær og hafa veðurspár gengið eftir. Mest úrkoma hefur mælst í Bláfjöllum en þar er sólarhringsúrkoma nú um 150 mm (um kl 16). Búast má við mikilli rigningu á Vesturlandi fram yfir miðnætti en á Suðurlandi má búast við mikilli úrkomu allan næsta sólarhring.
Mestu flóðin
Mestu flóðin hingað til hafa verið á Barðaströnd, Snæfellsnesi og á svæðinu við Mýrdalsjökul. Einnig hafa verið miklir vatnavextir í ám í nágrenni Reykjavíkur og er enn að vaxa í þeim.
Hvítá, Ölfusá og Sogið
Enn hafa ekki verið mjög miklir vatnavextir á vatnasviði Hvítár og Ölfusár en rennslið þar á eftir að vaxa allan morgundaginn. Mjög mikið hefur verið í Soginu. Rennsli þar er nú um 220 m³/s og er enn að vaxa. Til samanburðar má geta þess að meðalrennsli í Soginu er um 109 m³/s. Hámarki verður líklega náð þar á morgun en spáð er mikilli úrkomu þar í nótt.
Múlakvísl, Jökulsá á Sólheimasandi og Krossá
Rennsli Múlakvíslar og Jökulsár á Sólheimasandi hefur líkega sjaldan orðið meira undanfarna áratugi nema í jökulhlaupum. Í Krossá í Þórsmörk er einnig mjög mikið rennsli og er áin farin að dreifa mikið úr sér. Enn á eftir að vaxa mjög í ám á svæðinu frá Mýrdalsjökli til Hornafjarðar.
Skaftafellssýsla
Veðurstofan er með vatnshæðarmæli í Djúpá; rennsli þar er nú komið yfir 100 m³/s og vex hratt. Gera má ráð fyrir að rennsli Djúpár og annarra vatnsfalla í Skaftafellssýslu haldi áfram að vaxa þangað til síðdegis á morgun.