Tryggingastofnun samnýtir tölvusal með Veðurstofu Íslands
Styður við áherslur hjá hinu opinbera um aukinn samrekstur í upplýsingatæknirekstri stofnana
Tryggingastofnun hefur samið við Veðurstofu Íslands um aðstöðu fyrir miðlægan tölvubúnað í tölvusal Veðurstofunnar. Samningurinn styður við áherslur hjá hinu opinbera um aukinn samrekstur í upplýsingatæknirekstri stofnana. Tölvusalur Veðurstofunnar er með vottun samkvæmt ISO27001 upplýsingaöryggisstaðlinum sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru um upplýsingaöryggi í rekstri á miðlægum tölvubúnaði Tryggingastofnunar sem vinnur með viðkvæm persónugreinanleg gögn og rekur umfangsmikil upplýsingakerfi. Starfsmenn Tryggingastofnunar munu eftir sem áður vinna með vélbúnaðinn og hafa einir aðgang að gögnunum sem þar verða vistuð.
„Samnýting á aðstöðu með Tryggingastofnun fellur ágætlega að rekstri miðlægs tölvubúnaðar Veðurstofunnar sem gerir miklar kröfur til upplýsinga- og rekstraröryggis“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands.
Reiknað er með að tölvubúnaður Tryggingastofnunar flytji í tölvusal Veðurstofunnar um miðjan janúar.