Fréttir
Mjög slæmt óveður gekk yfir landið dagana 24. og 25., í flokki þeirra verri í septembermánuði. Veðrið var verst á Norðaustur- og Austurlandi og olli talsverðum usla þar. Sjór flæddi víða upp á land eins og þessi mynd frá Akureyri sýnir. (Ljósmynd: Jón Ingi Cæsarsson)

Tíðarfar í september 2022

Stutt yfirlit

4.10.2022


September var hægviðrasamur og hlýr um nánast allt land. Á Akureyri var mánuðurinn bæði þurr og sólríkur, en aðeins einu sinni hafa mælst fleiri sólskinsstundir í september á Akureyri. Mjög slæmt óveður gekk yfir landið dagana 24. og 25., í flokki þeirra verri í septembermánuði. Veðrið var verst á Norðaustur- og Austurlandi og olli talsverðum usla þar. Mikið foktjón varð, sérstaklega á Austfjörðum. Auk þess voru töluverðar samgöngutruflanir og rafmagnsleysi í þessum landshlutum. Sjór gekk á land á Akureyri og olli miklu tjóni.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í september var 9,3 stig. Það er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,0 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 8,7 stig, eða 0,7 stigum hærri en að meðaltali tímabilsins 1991 til 2020 og 0,6 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn var 8,8 stig í Stykkishólmi í mánuðinum og 9,3 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

Meðalhiti og vik (°C) í september 2022.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2012-2021 °C
Reykjavík 9,3 0,8 21 152 1,0
Stykkishólmur 8,8 0,7 25 177 0,7
Bolungarvík 8,5 1,2 21 125 1,1
Grímsey 7,1 0,2 36 149 -0,1
Akureyri 8,7 0,7 24 til 25 124 0,6
Egilsstaðir 8,9 1 8 68 0,8
Dalatangi 8,3 0,3 22 85 -0,1
Teigarhorn 8,4 0,1 29 150 -0,1
Höfn í Hornaf. 9,3


0,6
Stórhöfði 9,4 1 12 145 1,1
Hveravellir 5,7 1,8 4 58 2,0
Árnes 9,1 1,2 13 143 1,5

September var hlýr um allt land nema á Austfjörðum. Þar var meðalhitinn víða undir meðallagi undanfarins áratugar, en annars staðar á landinu var meðalhitinn víðast hvar yfir því. Jákvætt hitavik var mest 2,6 stig við Setur sunnan við Hofsjökul.  Neikvætt hitavik var mest -0,4 stig á Flatey í Skjálfanda.Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í september miðað við síðustu tíu ár (2012 til 2021).

Meðalhiti septembermánaðar mældist hæstur 10,5 stig á Steinum undir Eyjafjöllum og lægstur 3,6 stig á Gagnheiði. Í byggð mældist lægsti meðalhitinn 6,8 stig í Svartárkoti.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,1 stig á Dalatanga þ. 24. Lægsti hiti mánaðarins mældist -7,0 stig í Sátu þ. 26. Í byggð mældist lægsti hiti mánaðarins -5,6 stig á Haugi í Miðfirði þ. 27.

Úrkoma

Úrkoma mánaðarins í Reykjavík mældist 97,7 mm, eða um 12 % yfir meðallagi septembermánaðar tímabilsins 1991 til 2020. Á Akureyri mældust aðeins 13,8 mm í mánuðinum, eða um 26 % af meðallagi áranna 1991 til 2020. Ekki hefur mælst eins lítil úrkoma í septembermánuði á Akureyri síðan árið 1994. Í Stykkishólmi mældist mánaðarúrkoman 55,6 mm og á Höfn í Hornafirði mældust 134,0 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 11, en það er fjórum dögum sjaldnar en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri fjóra daga mánaðarins sem er fimm dögum sjaldnar en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældust sólskinsstundir mánaðarins 147,6, eða 29,3 stundum yfir meðallagi septembermánaðar árin 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 142,9 sólskinsstundir, sem er 52,5 stundum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Aðeins einu sinni hafa mælst fleiri sólskinsstundir í septembermánuði á Akureyri, en það var árið 1976 þegar þær mældust 188,7.

Vindur

September var hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 1,0 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hvassast var 24. (suðvestanátt) og 25. (vestnorðvestanátt) daga mánaðarins þegar fyrsta kröftuga haustlægð ársins gekk yfir landið. Veðrið var í flokki þeirra verri í septembermánuði. Mjög hvasst  var á Norðuaustur- og Austurlandi og olli hvassviðrið talsverðum usla þar. Mikið foktjón varð, sérstaklega á Austfjörðum. Auk þess voru töluverðar samgöngutruflanir og rafmagnsleysi í þessum landshlutum. Sjór gekk á land á Akureyri og olli miklu tjóni. 

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1011,3 hPa sem er 6,3 hPa yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1031,5 hPa á Fonti þ. 3. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 958,3 hPa á Vattarnesi og Kambanesi þ. 30.

Sumarið (júní til september)

Sumarið var kalt framanaf en september var hlýr. Mjög hlýir dagar voru fáir.

Meðalhiti í Reykjavík var 9,9 stig sem er 0,3 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Reykjavík raðast meðalhiti sumarsins í 52. sæti á lista 152 ára. Meðalhiti sumarsins var einnig 9,9 stig á Akureyri. Það er við meðallag sumranna 1991 til 2020 og 0,3 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhiti sumarsins á Akureyri raðast í sæti 37 til 38 á lista 142 ára. Sumarið í fyrra var hlýjasta sumar frá upphafi mælinga á Akureyri. Í ár var sumarið þar að meðaltali 1,9 gráðum kaldara en í fyrra.

Heildarúrkoma sumarsins mældist 291,1 mm í Reykjavík. Það er um 19 % umfram meðallag tímabilsins 1991 til 2020 og um 12 % umfram meðallag undanfarins áratugar. Sumarið var fremur þurrt á Akureyri. Heildarúrkoman mældist 109,8 mm sem er um 73 % af meðallagi sumranna 1991 til 2020 og 64% af meðalsumarúrkomu síðustu tíu ára þar. Úrkoma í Reykjavík mældist 1,0 mm eða meiri einum degi sjaldnar en að meðallagi árin 1991 til 2020 og fjórum dögum sjaldnar en að meðaltali undanfarinn áratug. Á Akureyri voru dagar þar sem úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri þremur færri en eða meðallagi sumrin 1991 til 2020 og sex færri en að meðaltali undanfarin tíu ár.

Sólskinsstundir sumarsins mældust 685,4 í Reykjavík. Það er um 30 stundum yfir meðallagi 1991 til 2020 og 50 stundum yfir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 621,1, eða 50 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020 og um 40 stundum fleiri en að meðallagi undanfarinn áratug.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu níu mánuði ársins mældist 6,1 stig. Það er 0,1 stigi yfir meðaltali fyrstu níu mánaða áranna 1991 til 2020 en 0,1 stigi undir meðallagi þeirra undanfarinn áratug. Meðalhiti ársins hingað til í Reykjavík raðast í 29. til 30. sæti á lista 152 ára. Á Akureyri mældist meðalhitinn 5,5 stig sem er 0,3 stigum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri fyrstu níu mánuði ársins raðast í 20. sæti á 142 ára lista.

Úrkomusamt hefur verið í Reykjavík það sem af er ári, en heildarúrkoma fyrstu níu mánaða ársins mældist 872,0 mm í Reykjavík. Það er um 42% umfram meðallag sama tímabils árin 1991 til 2020 og 36% umfram meðallag undanfarins áratugar. Aðeins tvisvar áður hefur heildarúrkoma janúar til septembermánaða mælst meiri í Reykjavík, en það var árin 1925 (897,0 mm) og 1921 (890,9 mm). Heildarúrkoma fyrstu níu mánaða ársins á Akureyri mældist 358,6 mm, eða við meðallag áranna 1991 til 2020 en um 90% af meðalúrkomu síðustu tíu ára.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica