Fréttir
Inntakslón Andakílsárvirkjunar. Skessuhorn.

Tíðarfar í september 2016

Stutt yfirlit

3.10.2016

Úrkomusamt var víða norðaustan- og austanlands og sömuleiðis norðantil á Vestfjörðum en að öðru leyti var tíð talin hagstæð. Óvenjuhægviðrasamt var lengst af. Nokkrar frostnætur komu inn til landsins en víðast hvar var alveg frostlaust allan mánuðinn og ber óskemmd til mánaðamóta. Uppskera úr görðum var víðast góð.  

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 8,7 stig, 1,3 stigum ofan meðallags árannna 1961 til 1990, en -0,2 undir meðallagi síðustu tíu septembermánaða. Á Akureyri var meðalhitinn 7,9 stig, 1,6 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en -0,4 undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 8,5 stig og 9,4 á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð mhiti °C vik 1961 til1990 röð af vik 2006 til 2015
Reykjavík 8,7 1,3 41 146 -0,2
Stykkishólmur 8,5 1,8 27 171 0,2
Bolungarvík 7,7 1,6 34 119 0,0
Grímsey 7,9 2,6 14 143 0,7
Akureyri 7,9 1,6 42 135 -0,4
Egilsstaðir 8,2 2,1 12 62 0,1
Dalatangi 8,7 2,1 11 til 12 78 0,4
Teigarhorn 8,8 1,9 17 144 0,3
Höfn í Hornafirði 9,4 0,7
Stórhöfði 8,8 1,4 27 140 0,0
Hveravellir  4,0 1,6 17 51 -0,1
Árnes 8,1 1,2 40 137 0,1

Meðalhiti og vik (°C) í september 2016

Að tiltölu var hlýjast á annesjum norðaustanlands, jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Fonti á Langanesi, +0,9 stig, og +0,7 stig í Grímsey. Kaldast að tiltölu var á Brúarjökli þar sem hiti var -1,3 stigum undir meðallagi (hugsanlega rangur mælir) en næstmest var neikvæða vikið á Torfum í Eyjafirði þar sem hiti var -0,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur við Sandfell í Öræfum og á Steinum undir Eyjafjöllum, 9,9 stig. Lægstur var meðalhitinn á Brúarjökli, 1,5 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 5,7 stig. Mest frost í mánuðinum mældist -8,1 stig á Brúarjökli þann 2. Mest frost í byggð mældist -4,8 stig á Þingvöllum þann 27. Hæsti hiti mánaðarins mældist 19,3 stig í Ásbyrgi þann 4.

Mjög kalt var í veðri í upphafi mánaðarins. Dagana 1. til 3. voru sett ný landsdægurlágmarksmet á Brúarjökli en vegna ákveðinnar óvissu í mælingum þar verða þau að bíða endanlegrar staðfestingar. Líklega fá þau þó að standa.

Úrkoma

Úrkoma var yfir meðallagi áranna 1971 til 2000 á ríflega helmingi þeirra stöðva sem slíkt meðatal eiga og á fáeinum stöðvum var hún meiri en áður er vitað um þar. Það var í Bolungarvík (mælt frá 1994), í Hnífsdal (mælt frá 1995), á Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi (1992), á Mýri í Bárðardal (1956), í Svartárkoti (1990), Desjarmýri (1998) og Hánefsstöðum í Seyðisfirði (2002).  Vestanlands var úrkomu nokkuð misskipt, t.d. virðist hafa verið minni úrkoma bæði á Augastöðum í Hálsasveit og Hænuvík utan Patreksfjarðar heldur en áður hefur mælst á þessum stöðvum.

Úrkoman í Reykjavík mældist 59,3 mm og er það um 10 prósent neðan meðallags áranna 1961 til 1990 og minnsta úrkoma í september frá 2005. Á Akureyri mældist úrkoman í september 115,0 mm og er það nærri því þrefalt meðallag. Þetta er þriðja mesta septemberúrkoma sem vitað er um á Akureyri; hún mældist meiri 2012 og mest 1946. Úrkoman í Stykkishólmi mældist 90,9 mm og er það 60 prósent umfram meðalag.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 14 í Reykjavík, tveimur fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1 mm eða meiri 13 daga mánaðarins, fimm fleiri en í meðalmánuði. Í Stykkishólmi voru þeir dagar sem úrkoma mældist 1 mm eða meiri 12, einum fleiri en í meðalári.

Lyng að hausti
""
Lyng að hausti í Vatnsendahlíð, 30. september 2016. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 135,0 eða 10 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 og 25 fleiri en í meðalseptember síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 89,2 og er það 12 stundum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, 4 fleiri en í meðalári síðustu tíu ára.

Vindur

Veðrátta var óvenjuhægviðrasöm í september. Meðalvindhraði var um 0,8 m/s undir meðallagi síðustu 20 ára. Þarf að fara allt aftur til 2002 til að finna hægviðrasamari september en nú. Vestanáttadagar voru aðeins 5 en norðlægar og suðlægar áttir skiptust nokkuð á.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 997,0 hPa, sem er -8,5 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er óvenjulágt, var þó enn lægra í september 2011. Hæstur mældist þrýstingurinn 1016,6 hPa á Teigarhorni þann 14., en lægstur á Skjaldþingsstöðum þann 10., 973,6 hPa.

Sumarið (júní til september)

Sumarið var hlýtt. Meðalhiti í Reykjavík var 11,0 stig og hefur aðeins fjórum sinnum verið hærri frá upphafi samfelldra mælinga 1871. Það var 2010, 1939, 1941 og 2003. Jafnhlýtt var 2008 og 1958. Í Stykkishólmi er sumrið það níundahlýjasta frá upphafi mælinga 1845. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 10,3 stig, þar eru 20 sumur hlýrri frá upphafi mælinga 1882.

Sumarið hefur verið í þurrara lagi suðvestanlands; í Reykjavík er úrkoman um 80 prósent af meðallagi. Enn þurrara var þar sumarið 2011, en síðan þarf að fara aftur til 1994 til að finna þurrara sumar. Úrkomudagafjöldi var hins vegar í meðallagi. Norðanlands hefur úrkoma víða verið allmikil, 70 prósent umfram meðallag á Akureyri og hefur sumarúrkoma aðeins þrisvar mælst meiri þar frá því að mælingar hófust, 1928. Það var 1946, 1950 og 2005.

Í Reykjavík mældust 699 sólskinsstundir; það er tæplega 87 stundum umfram meðallag sömu mánaða 1961 til 1990 en 12 fleiri en að meðaltali síðustu tíu ár. Á Akureyri mældust sólskinsstundir þessara þriggja mánaða 538 stundir og er það um 18 stundum færra en að jafnaði í sömu mánuðum síðustu tíu ára.

Á landsvísu var sumarið það hægviðrasamasta síðan 2002 og 2003 – en þá var vindur ámóta lítill og nú.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 9 mánuði ársins er 6,3 stig og er það fjórtánda- til átjándahæsta meðaltal sömu mánaða frá 1871 að telja. Á Akureyri er meðalhiti þessara mánaða 5,1 stig og er í 35. til 38. sæti á lista sem nær aftur til 1882.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 453 mm og er það um 20 prósent undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er með minna móti; var þó ámóta árið 2010. Úrkoma á Akureyri hefur verið um þriðjung ofan meðallags það sem af er ári en var þó meiri á sama tíma 2014.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2016 (textaskjal)

Þessa grein, Tíðarfar í september 2016, er einnig hægt að sækja eða lesa sem pdf.

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica