Fréttir
Friðarsúlan í Viðey nýtur sín í félagsskap við norðurljós í kvöldstillu í lok október.

Tíðarfar í október 2022

Stutt yfirlit

3.11.2022


Október var tiltölulega kaldur um mest allt land, þó var hlýtt í byrjun og lok mánaðar. Fyrri hluti mánaðarins var úrkomusamur, sérstaklega á norðan- og austanverðu landinu. Töluverð úrkoma féll á norðaustanverðu landinu í óveðri sem gekk yfir landið þ. 9. og þar snjóaði víða í byggð. Seinni hluti mánaðarins var hægviðrasamur og tíð almennt góð.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í október var 4,9 stig og er það jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,8 stig, 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,6 stig og 5,6 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðum má sjá í efirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2012-2021 °C
Reykjavík 4,9 0,0 55 152 -0,5
Stykkishólmur 4,6 0,2 55 til 56 177 -0,4
Bolungarvík 4,0 0,2 47 til 48 125 -0,5
Grímsey 3,7 -0,1 57 149 -0,8
Akureyri 2,8 -0,7 84 141 -1,1
Egilsstaðir 3,3 -0,4 36 til 37 68 -0,9
Dalatangi 5,3 0,2 34 85 -0,4
Teigarhorn 5,2 0,2 40 150 -0,1
Höfn í Hornaf. 5,6


0,1
Stórhöfði 5,8 0,4 36 145 0,0
Hveravellir -0,9 -0,3 31 til 32 58 -0,8
Árnes 3,8 -0,1 59 143 -0,4

Meðalhiti og vik (°C) í október 2022

Október var tiltölulega kaldur um land allt. Þó var hlýtt í byrjun og lok mánaðarins. Að tiltölu var kaldast á Norðausturlandi en hlýrra  á sunnanverðu landinu. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -1,8 stig á Ólafsfirði og Reykjum í Fnjóskadal. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,3 stig á Gagnheiði og Kvískerjum.



Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í október miðað við síðustu tíu ár (2012 til 2021).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 6,9 stig á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur -2,2 stig á Sátu norðan Hofsjökuls. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -0,6 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,0 stig á Teigarhorni þ. 2. Mest frost í mánuðinum mældist -13,7 stig á Grímsstöðum í Fjöllum þ. 21., sem er jafnframt mesta frostið sem mældist í byggð í mánuðinum.

Úrkoma

Fyrri hluti mánaðarins var úrkomusamur, sérstaklega á norðan- og austanverðu landinu. Töluverð úrkoma féll á norðaustanverðu landinu í óveðri sem gekk yfir landið þ. 9. og þar snjóaði víða í byggð.

Úrkoma í Reykjavík mældist 79,7 mm sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 109,4 mm sem er um 50% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 69,6 mm og 97,3 mm mældust á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 11, tveimur færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 14 daga mánaðarins, þremur fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 109,8 í október sem er 18,2 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 92,0, sem er 44,1 stund yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þetta er sólríkasti októbermánuður á Akureyri síðan 1986.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,5 m/s undir meðallagi. Norðlægar áttir voru tíðar fyrri hluta mánaðarins. Slæmt óveður gekk yfir landið þ. 9. (norðvestanátt). Seinni hluti mánaðarins var hægviðrasamur.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 999,7 hPa og er það 4,6 hPha undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1031,9 hPa í Garðabæ-Urriðaholti og í Surtsey þ. 18. Lægstur mældist þrýstingurinn 957,3 hPa á Fonti þ. 4.

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu mánuði ársins var 6,0 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,2 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 26. sæti á lista 152 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna tíu 5,2 stig sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,2 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 23. til 24. sæti á lista 142 ára.

Heildarúrkoma fyrstu tíu mánaða ársins í Reykjavík var 951,7 mm og er það 37% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Heildarúrkoma hefur aðeins tvisvar sinnum mælst meiri í Reykjavík yfir þessa tíu mánuði en nú, en það var árin 1921 og 1959. Á Akureyri mældist heildarúrkoma mánaðanna tíu 468,0 mm, sem er 8% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica