Fréttir
Úr Laugardalnum í Reykjavík.

Tíðarfar í október 2016

Stutt yfirlit

1.11.2016

Októbermánuður var sérlega hlýr og víða á landinu sá hlýjasti síðan mælingar hófust. Tíð var mjög hagstæð um mestallt land, en rigningar þóttu ganga úr hófi sums staðar á Suður- og Vesturlandi. Á nokkrum stöðvum var þetta úrkomusamasti októbermánuður sem vitað er um. Mánuðurinn var alveg frostlaus víða við strendur landsins og telst það óvenjulegt.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 7,8 stig, 3,4 stigum ofan meðallags árannna 1961 til 1990, en 3,0 yfir meðallagi síðustu tíu októbermánaða. Þetta er næsthlýjasti október sem vitað er um í Reykjavík, lítillega hlýrra var 1915, en munurinn í raun ómarktækur. Á Akureyri var meðalhitinn 7,5 stig, 4,5 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 4,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.  Þetta er einnig næsthlýjasti október á Akureyri, heldur hlýrra var í október 1946. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 7,9 stig, sá hæsti nokkru sinni í október, mælingar í október ná aftur til ársins 1846. Á Höfn í Hornafirði var meðalhiti mánaðarins 8,1 stig.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð m.hiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2006-2015 °C
Reykjavík 7,8 3,4 2 146 3,0
Stykkishólmur 7,9 4,0 1 171 3,5
Bolungarvík 8,0 4,4 1 119 4,4
Grímsey 7,6 4,6 1 143 3,8
Akureyri 7,5 4,5 2 135 4,2
Egilsstaðir 8,4 5,3 1 62 4,7
Dalatangi 8,3 3,8 1 78 3,1
Teigarhorn 7,9 3,4 1 144 2,8
Höfn í Hornaf. 8,1 2,9
Stórhöfði 7,6 2,6 3 140 2,1
Hveravellir  3,4 4,6 1 52 4,2
Árnes 6,9 3,4 4 137 3,1

Meðalhiti og vik (°C) í október 2016

Að tiltölu var hlýjast inn til landsins um landið norðan- og austanvert, jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Nautabúi í Skagafirði, við Upptyppinga, Mývatn og í Möðrudal. Á þessum stöðvum var hiti +4,8 stigum ofan meðallags. Kaldast að tiltölu var á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og á Garðskagavita þar sem hiti var +2,1 stigi ofan meðallagsins.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Seyðisfirði og í Neskaupstað, 8,9 stig. Þetta er hæsti staðfesti mánaðarmeðalhiti í október á íslenskum veðurstöðvum.  Lægstur var meðalhitinn á Brúarjökli og á Skálafelli 2,1 stig. Á Dyngjujökli var meðalhitinn -3,6 stig, en ekki er um staðalmæliastæður að ræða þar. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, 5,0 stig.  

Mest frost í mánuðinum mældist -7,7 stig við Setur þann 28. Sama dag mældist frostið á Dyngjujökli -11,8 stig. Mest frost í byggð mældist -6,4 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 29. Sama dag mældist þar einnig mest frost á mannaðri stöð, -6,2 stig. Sjaldgæft er að lægsta lágmark októbermánaðar sé svo hátt, og þarf að fara allt aftur til gisinna athugana snemma á 20. öld til að finna hærri tölur, síðast í hinum ofurhlýja októbermánuði 1915. Í þeim samanburði þarf að hafa sterklega í huga að lágmarksmælingar voru óvíða gerðar. Hæsti hiti mánaðarins mældist 18,2 stig á Skjaldþingsstöðum þann 6. Ekkert óvenjulegt er við þá tölu. 


Á Þingvöllum. Hrafnabjörg í augsýn. Ljósmynd: Vilhjálmur Smári Þorvaldsson.

Úrkoma

Úrkoma var óvenjumikil um landið sunnan- og vestanvert og á allmörgum stöðvum meiri en áður er vitað um í októbermánuði. Aftur á móti var hún í minna lagi víða norðaustan og austanlands – og á nokkrum stöðvum sú minnsta sem um er getið í október.

Úrkoman í Reykjavík mældist 206,9 mm, það langmesta sem vitað er um í október og ríflega tvöföld meðalúrkoma, næstmest mældist 1936, 180,8 mm. Úrkoma hefur aðeins þrisvar sinnum mælst meiri í einum mánuði í Reykjavík. Það var í nóvember 1993 (259,7 mm), febrúar 1921 (242,3 mm) og í nóvember 1958 (212,1 mm). Auk þess mældust 291 mm í janúar 1842 – en nokkur óvissa er um þær mælingar. Á Akureyri mældist úrkoma nú 19,6 mm, þriðjungur meðalúrkomu og minnsta úrkoma í október síðan 1993, en þá mældist úrkoma í október aðeins 4,0 mm á Akureyri.

Úrkoma í Stykkshólmi mældist 161,4 mm og hefur ekki verið meiri í október síðan 2007.

Úrkoma í mánuðinum mældist 945,4 mm á Nesjavöllum í Grafningi (óstaðfest). Ef rétt reynist er þetta mesta úrkoma sem nokkru sinni hefur mælst á veðurstöð í október hér á landi og sú næstmesta sem mælst hefur í einum mánuði. Í nóvember 2002 mældust 971,5 mm á Kollaleiru við Reyðarfjörð.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 23, átta fleiri en í meðalári, en voru 26 í október 2007. Aðeins voru þrír dagar alveg þurrir í mánuðinum í Reykjavík. Á Akureyri mældist úrkoma 1 mm eða meiri fimm daga mánaðarins, sex færri en í meðalmánuði og 21 í Stykkishólmi, átta fleiri en í meðalári.

Alautt var á athugunartíma allan mánuðinn bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 40,3 eða 43 færri en í meðaloktóber áranna 1961 til 1990 og 56 færri en að meðaltali síðustu tíu ár. Sólskinsstundir hafa ekki mælst svo fáar í október síðan 1969. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 58,5, 7 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 og tíu fleiri en að meðaltali í október síðustu tíu ár.

Vindur

Vindhraði var nærri meðallagi, en óvenjuhægviðrasamt hefur verið í október undanfarin ár og meðalvindhraði nú sá mesti í mánuðinum síðan 2011. Eindregin sunnanátt ríkti nær allan mánuðinn, aðeins þrjá daga að vindur varð norðlægur. Austlægar áttir voru sömuleiðis mun algengari en vestlægar, átta daga reiknast vindátt þó vestlæg.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1007,8 hPa, sem er 5,5 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Þetta er í hærra lagi, en telst þó ekki óvenjulegt. Hæstur mældist þrýstingurinn 1033,0 hPa á Keflavíkurflugvelli þann 31., en lægstur í Grindavík þann 26., 969,9 hPa.

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu mánuði ársins er 6,5 stig og er það sjötta til sjöundahæsta meðaltal sömu mánaða frá 1871 að telja, hæst var meðaltal sömu mánaða 2003 og 2010, 7,0 stig. Á Akureyri er meðalhiti þessara mánaða 5,3 stig og er í 17. til 18. sæti á lista sem nær aftur til 1882.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 660 mm og er mjög nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Úrkoma á Akureyri hefur verið um fimmtung ofan meðallags það sem af er ári, en var þó nokkuð meiri á sama tíma 2014.

Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2016 (textaskjal).

Þessa grein, Tíðarfar í október 2016, er einnig hægt að sækja eða lesa sem pdf.

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica