Fréttir
Vel viðraði til norðurljósaskoðunar í Reykjavík í lok október. Mynd tekin 30. október um kl. 23. (Ljósmynd:Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson)

Tíðarfar í október

Stutt yfirlit

3.11.2021


Október einkenndist af norðaustlægum áttum og var úrkomusamur á Norðaustur- og Austurlandi. Samanborið við sama mánuð undanfarin tíu ár var mánuðurinn tiltölulega kaldur á norðanverðu landinu en tiltölulega hlýr á því sunnanverðu. Sólskinsstundir voru færri en í meðalári á Akureyri og þar var mánaðarúrkoman sú næstmesta sem mælst hefur þar. Talsvert sólríkara og úrkomuminna var í Reykjavík. Óvenjumikil úrkoma í upphafi mánaðar á Norðausturlandi olli miklum skriðuföllum í Kinn og Útkinn.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í október var 5,6 stig og er það 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,8 stig sem er 0,7 stigum undir meðallagi síðustu þriggja áratuga og 1,2 stigum undir meðallagi síðastliðinna 10 ára. Meðalhiti mánaðarins var 4,3 stig í Stykkishólmi. Það er 0,2 stigum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 0,7 stigum undir meðallagi undanfarinna tíu ára. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 5,7 stig, eða um 0,1 stigi yfir meðallagi síðasta áratugar.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í eftirfarandi töflu.


stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2011-2020 °C
Reykjavík 5,6 0,8 30 151 0,4
Stykkishólmur 4,3 -0,2 73 til 74 176 -0,7
Bolungarvík 3,2 -0,5 74 124 -1,2
Grímsey 3,5 -0,3 67 148 -1,1
Akureyri 2,8 -0,7 83 141 -1,2
Egilsstaðir 3,2 -0,5 40 67 -1,2
Dalatangi 5,2 0,2 35 84 -0,5
Teigarhorn 5,3 0,3 36 149 -0,1
Höfn í Hornaf. 5,7


0,1
Stórhöfði 6,1 0,6 27 til 28 145 0,3
Hveravellir -0,6 0 27 57 -0,4
Árnes 4,6 0,8 29 142 0,5

Meðalhiti og vik (°C) í október 2021

Þegar hitavik októbermánaðar er skoðað miðað við sama mánuð undanfarin tíu ár má sjá að almennt höfðu stöðvar á norðanverðu landinu neikvætt vik en stöðvar á sunnanverðu landinu jákvætt. Mest var jákvætt hitavik 1,3 stig við Lómagnúp. Neikvætt hitavik var mest -1,6 stig á Reykjum í Fnjóskadal.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í október miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 7,9 stig á Steinum undir Eyjafjöllum. Lægstur mældist mánaðarmeðalhitinn -2,1 stig í Sandbúðum á Sprengisandi. Lægsti meðalhiti mánaðarins í byggð var -0,1 stig í Svartárkoti.

Hæsti hitinn í október mældist 15,3 stig á Kvískerjum 13. dag mánaðarins. Lægsti hiti mánaðarins mældist -12,3 stig þann 28. í Svartárkoti, sem var jafnframt lægsti mældi hiti í byggð.

Úrkoma

Október var úrkomusamur á Norðaustur- og Austurlandi og úrkoma mældist þar víða vel yfir meðallagi. Mikið rigningarveður gerði á norðaustanverðu landinu í byrjun október, þá sérstaklega á Tröllaskaga og í Kinnarfjöllum. Miklar skriður féllu í Kinn og Útkinn. Einnig var rýmt á Seyðisfirði í mánuðinum vegna möguleika á skriðuföllum í kjölfar úrkomu.

Heildarúrkoma mánaðarins var 55,1 mm í Reykjavík, eða 69% af meðalúrkomu októbermánaðar í Reykjavík á tímabilinu 1991 til 2020. Á Akureyri var heildarúrkoma októbermánaðar 164,8 mm. Það er meira en tvöföld úrkoma meðaloktóbermánaðar árin 1991 til 2020. Úrkoma í október hefur aðeins einu sinni mælst meiri á Akureyri, en það var árið 1995 þegar hún mældist 176,3 mm. Úrkoman mældist 84,0 mm í Stykkishólmi sem er 23% yfir meðallagi og 205,5 mm á Höfn í Hornafirði.

Úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri 11 októberdaga í Reykjavík, tveimur færri en að meðaltali síðustu 30 árin. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 16 daga mánaðarins, en það er 5 dögum yfir meðaloktóbermánuði á tímabilinu 1991 til 2020.

Snjór

Jörð var alhvít einn morgun mánaðarins í Reykjavík og alauð aðra daga. Alautt var á Akureyri allan mánuðinn nema einn dag þegar það var flekkótt.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir mánaðarins mældust 102,3 í Reykjavík og er það 10,7 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 32,9 sem er 15,0 stundum undir meðallagi síðustu þriggja áratuga.

Vindur

Meðalvindhraði á landsvísu var 0,4 m/s yfir meðallagi októbermánaðar. Hvassast var þ. 7. (austanátt) og dagana 18. til 19. (norðaustanátt). Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1000,8 hPa sem er 3,5 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1026,5 hPa á Egilsstaðaflugvelli þ. 11. Lægstur mældist loftþrýstingur 965,6 hPa í Surtsey þ. 26.

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Fyrstu tíu mánuði ársins var meðalhiti í Reykjavík 6,1 stig. Hann var 0,2 stigum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti fyrstu tíu mánaða ársins í Reykjavík raðast í 21. sæti á lista 151 árs. Á Akureyri var meðalhitinn fyrstu tíu mánuði ársins 5,6 stig, 0,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,3 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 8. sæti á lista 141 árs.

Heildarúrkoma fyrstu tíu mánaða ársins var 533,5 mm í Reykjavík og er það 77% af meðalheildarúrkomu sama tímabils undanfarin 30 ár. Fyrstu tíu mánuðir ársins hafa ekki verið eins þurrir í Reykjavík síðan 2010. Á Akureyri var úrkoma fyrstu tíu mánuði ársins 529,7 mm sem er 22% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2021

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækjaí sérstaka töflu

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica