Tíðarfar í nóvember 2024
Stutt yfirlit
Tíðarfar í nóvember var mjög tvískipt. Óvenjuleg hlýindi voru á öllu landinu fyrri hluta mánaðarins. Á mörgum veðurstöðvum hefur meðalhiti þessara fyrstu 14 nóvemberdaga aldrei mælst eins hár. Mjög hlýjar og tiltölulega hvassar sunnanáttir voru allsráðandi þessa daga, með vætutíð sunnan- og vestanlands, en þurru og hlýju veðri á Norður- og Austurlandi. Um miðjan mánuðinn snerist svo í norðanáttir. Þá kólnaði hratt á landinu og var hiti vel undir meðallagi út mánuðinn. Þá var þurrt á sunnan- og vestanverðu landinu, en úrkomusamt og töluverð snjóþyngsli á Norður- og Austurlandi.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 1,7 stig. Það er 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 0,9 stig, 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 1,7 stig og 2,1 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2014-2023 °C |
Reykjavík | 1,7 | -0,5 | 74 | 154 | -1,3 |
Stykkishólmur | 1,7 | -0,1 | 71 | 179 | -0,9 |
Bolungarvík | 1,5 | 0,1 | 50 | 127 | -0,8 |
Grímsey | 1,3 | -0,5 | 60 til 61 | 151 | -1,3 |
Akureyri | 0,9 | 0,2 | 48 til 49 | 144 | -0,4 |
Egilsstaðir | 1,1 | 0,5 | 21 til 22 | 70 | -0,2 |
Dalatangi | 3,2 | 0,1 | 31 | 87 | -0,6 |
Teigarhorn | 2,1 | -0,4 | 65 | 152 | -1,2 |
Höfn í Hornaf. | 2,1 | -1,3 | |||
Stórhöfði | 2,7 | -0,8 | 81 | 147 | -1,5 |
Hveravellir | -4,3 | -0,8 | -1,6 | ||
Árnes | 0,4 | -0,4 | 67 | 145 | -1,0 |
Meðalhiti og vik (°C) í nóvember 2024.
Hitafar nóvembermánaðar var algjörlega tvískipt. Fyrri hluti mánaðarins var óvenjulega hlýr, þá sérstaklega norðaustanlands. Mjög hlýjar sunnanáttir voru meira og minna allsráðandi þessar tvær vikur. Meðalhiti fyrstu 14 daga mánaðarins var um fjórum til fimm stigum yfir meðallagi, og á mörgum veðurstöðvum hafa þessir fyrstu fjórtán nóvemberdagar aldrei mælst eins hlýir. Það snerist svo í norðanáttir um miðjan mánuð (þ. 15.). Þá kólnaði hratt á landinu og hiti var vel undir meðallagi það sem eftir var mánaðar.
Meðalhiti mánaðarins endaði ýmist rétt undir eða rétt yfir meðalhita áranna 1991 til 2020, en undir meðallagi síðustu tíu ára á langflestum veðurstöðvum. Að tiltölu var kaldast á sunnan- og vestanverðu landinu, en hlýjast norðaustanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,2 stig á Skjaldþingsstöðum en neikvætt hitavik var mest -1,9 stig á Lambavatni á Rauðasandi.
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í nóvember miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 3,8 stig. Lægstur var hann í Sandbúðum -5,1 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti -2,5 stig.
Nóvemberhitamet voru slegin á fjölda veðurstöðva um land allt í hlýindunum í fyrri hluta mánaðarins, flest í sunnan hvassviðri sem gekk yfir landið 11. og 12. dag mánaðarins. Til dæmis mældist hæsti hiti í nóvember frá upphafi mælinga á mönnuðu veðurstöðvunum í Reykjavík (12,9 stig, þ.12), Akureyri (20,4 stig, þ.12) og á Grímsstöðum á Fjöllum (16,5 stig, þ.12). En þetta eru allt stöðvar sem hafa mælt í yfir 100 ár. Hiti fór yfir 20 stig á þónokkrum stöðvum norðaustan- og austanlands þessa daga. Hæstur fór hitinn í 23,8 stig á Kvískerjum í Öræfum þ. 14. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í nóvember. Fyrra nóvembermetið var 23,2 stig sem mældust á Dalatanga þ. 11. nóvember 1999.
Mest frost í mánuðinum mældist -24,1 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 29.
Úrkoma
Úrkoman var líkt og hitafarið mjög tvískipt í mánuðinum. Fyrri hluti mánaðarins var mjög blautur á Suður- og Vesturlandi, á meðan það var tiltölulega þurrt á Norður- og Austurlandi. Mikið rigndi á vestanverðu landinu dagana 11.-13., þá sérstaklega á Vestfjörðum. Úrkoman, ásamt leysingum, ullu töluverðum vatnavöxtum og óvenju mikið var um grjóthrun og skriður í landshlutanum. Seinni helmingur mánaðarins var aftur á móti úrkomusamari á norðan- og austanverðu landinu en þurr á Suður- og Vesturlandi.
Úrkoma í Reykjavík mældist 77,7 mm sem er um 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 62,4 mm, eða 90% af meðalúrkomu nóvembermánaða áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í nóvember 106,4 mm sem er um 50% umfram meðallag og 138,7 mm á Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13, sem eru jafn margir og í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 12 daga sem er tveimur fleiri en í meðalári.
Snjór
Það var snjólaust á láglendi fyrri helming mánaðarins, en alhvítt og nokkuð snjóþungt á norðan- og austanverðu landinu seinni helminginn.
Jörð var alauð alla morgna í Reykjavík, nema fimm daga þegar það var flekkótt. Alhvítir dagar á Akureyri voru 15, sem er þremur fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.
Sólskinsstundafjöldi
Í Reykjavík mældust 56,0 sólskinsstundir í mánuðinum. Það er 16,3 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 20,6 sem er 5,4 stundum yfir meðallagi 1991 til 2020.
Vindur
Að tiltölu var hvasst um allt land í nóvember og nokkuð illviðrasamt. Á landsvísu var vindur 1,2 m/s yfir meðallagi. Í fyrri hluta mánaðar voru suðlægar áttir ríkjandi, en norðlægar í síðari hluta mánaðarins. Hvassast var 7. (S-átt), 12. (SV-átt), 14. (SV-átt) til 15. (VNV-átt) og 30. (NA-átt) dag mánaðarins.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur mánaðarins mældist 1010,5 hPa í Reykjavík, en það er 9,5 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1036,7 hPa á Hólum í Dýrafirði. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 972,1 hPa á Gufuskálum.
Fyrstu ellefu mánuðir ársins
Meðalhiti fyrstu ellefu mánaða ársins mældist 4,7 stig í Reykjavík. Það er 0,8 stigum undir meðallagi 1991 til 2020 og 1,1 stigi undir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhiti mánaðanna ellefu raðast í 83. til 84. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Á Akureyri mældist meðalhiti janúar til nóvember 3,7 stig. Það er 0,9 stigum undir meðallagi 1991 til 2020 en 1,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 80. til 81. hlýjasta sæti á lista 144 ára.
Það sem af er ári hafa mælst 738,4 mm af úrkomu í Reykjavík sem eru um 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoman á Akureyri mældist 556,8 mm, eða um 10% umfram meðalúrkomu janúar til nóvember 1991 til 2020.
Haustið (október og nóvember)
Haustið var kalt um allt land, að frátöldu óvenjulegum hlýindakafla í fyrri hluta nóvembermánaðar. Þrátt fyrir hlýindin voru hitavik bæði október og nóvembermánaða neikvæð um mest allt land samanborið við undanfarinn áratug. Á þónokkrum veðurstöðvum á norðanverðu landinu var nóvember hlýrri en október, t.d. á Akureyri, Siglufirði, Húsavík og Litlu-Ávík.
Meðalhiti haustmánaðanna tveggja mældist 2,5 stig í Reykjavík, en það er 1,0 stigi undir meðallagi haustmánaða áranna 1991 til 2020 og 1,7 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti haustsins í Reykjavík raðast í 103. til 105. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Á Akureyri mældist meðalhiti haustsins 0,8 stig, eða 1,2 stigum undir meðallagi 1991 til 2020 og 1,8 stigi undir meðallagi undanfarins áratugar. Haustmeðalhitinn á Akureyri raðast í 100. hlýjasta sæti á lista 144 ára.
Samanlögð úrkoma október og nóvembermánaða mældist 150,1 mm í Reykjavík, eða um 90% af meðalhaustúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 107,1 mm í haust sem eru um 75% af meðalúrkomu haustmánaða 1991 til 2020.
Það var engin alhvítur dagur í Reykjavík þetta haustið, en að jafnaði eru 5 alhvítir dagar í Reykjavík á haustin. Á Akureyri voru 23 alhvítir dagar í haust, eða 7 fleiri en í meðalári.
Skjöl fyrir nóvember
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember 2024
(textaskjal).