Fréttir
Yfirborðshrím í Heiðmörk á síðasta degi nóvembermánaðar.

Tíðarfar í nóvember 2019

Stutt yfirlit

3.12.2019


Nóvember var óvenju hægviðrasamur og tíð hagstæð. Óvenju þurrt var um landið norðanvert og var mánuðurinn víða þurrasti nóvembermánuður um áratugaskeið. Að tiltölu var kaldast á Norðausturlandi en hlýrra vestantil á landinu.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 2,4 stig og er það 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,8 stig, -0,5 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi og í Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 2,0 stig.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2009-2018 °C
Reykjavík 2,4 1,2 43 til 44 149 -0,3
Stykkishólmur 2,0 1,1 55 174 -0,1
Bolungarvík 2,4 1,6 23 122 0,6
Grímsey 2,2 1,6 31 146 -0,2
Akureyri -0,8 -0,5 94 til 95 139 -1,8
Egilsstaðir -1,5 -0,8 57 65 -2,6
Dalatangi 2,6 0,8 40 82 -0,9
Teigarhorn 1,8 0,4 79 til 80 147 -1,3
Höfn í Hornaf. 2,0


-1,1
Stórhöfði 4,1 1,6 25 142 0,3
Hveravellir -3,2 1,6 16 55 0,0
Árnes 0,8 1,1 49 til 51 140 -0,3

Meðalhiti og vik (°C) í nóvember 2019.

Að tiltölu var hlýjast á Vestfjörðum en kaldast að tiltölu á Norðuausturlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Skarðsheiði 1,3 stig og 1,2 stig á Þverfjalli. Neikvætt hitavik var mest á Sauðárkróksflugvelli, -2,9 stig.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í nóvember miðað við síðustu tíu ár (2009-2018).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 5,2 stig. Lægstur var hann -5,6 stig í Sandbúðum. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -4,7 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 10,7 stig á Skjaldþingsstöðum þ. 15. Mest frost í mánuðinum mældist -19,7 stig á Setri þ. 18. Mest frost í byggð mældist -19,0 stig í Möðrudal þ. 18. og í Svartárkoti þ. 27.

Úrkoma

Óvenju þurrt var um landið norðanvert og allmörg nóvember þurrkamet voru slegin.

Úrkoma á Akureyri mældist aðeins 4,6 mm sem eru tæp 10% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Þetta er næstþurrasti nóvembermánuður frá upphafi samfelldra úrkomumælinga á Akureyri 1927. Þurrara var í nóvember 1952 þegar úrkoman mældist 3,0 mm. Í Reykjavík mældist úrkoman 73,1 mm sem er jafnt meðallagi áranna 1961 til 1990. Úrkoman í Stykkishólmi mældist 36,1 mm sem er um helmingur af meðaltali áranna 1961 til 1990.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri á Akureyri voru aðeins 3, átta færri en í meðalári. Í Reykjavík mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 13 daga, jafnmargir og í meðalári.

Snjór

Alhvítt var 1 morgun í Reykjavík, 6 færri en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítir dagar 4, ellefu færri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 49,2, sem er 10,6 stundum fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 18,0, sem er 3,7 stundum fleiri en í meðalári.

Vindur

Mánuðurinn var óvenju hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 1,7 m/s undir meðallagi og hefur meðalvindhraði ekki verið eins hægur síðan í nóvember 1952. Austlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1009,0 hPa og er það 4,9 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1026,6 hPa á Egilsstaðaflugvelli þ.14. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 978,3 hPa í Grindavík þ. 11.

Fyrstu ellefu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 11 mánuði ársins var 6,3 stig sem er 1,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 6. til 7. sæti á lista 149 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna ellefu 4,8 stig. Það er 1,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 25.sæti á lista 139 ára. Úrkoma í Reykjavík hefur verið 11% umfram meðallag og 15% umfram meðallag á Akureyri.

Haustið (október og nóvember)

Meðalhiti haustsins í Reykjavík var 3,9 stig. Það er 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti haustsins 1,1 stig, -0,2 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Samanlögð úrkoma október og nóvembermánaða í Reykjavík mældist 150,5 mm sem er um 95% af meðalhaustúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoma haustsins 102,2 mm sem er 90% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990.

Skjöl fyrir nóvember

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember 2019 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnumveðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica