Tíðarfar í nóvember 2017
Stutt yfirlit
Nóvember var kaldur og sker sig nokkuð úr öðrum mánuðum ársins, sem flestir hafa verið hlýir. Norðanhvassviðri gekk yfir landið dagana 21. til 24. nóvember sem olli þó nokkru fannfergi norðan og austanlands. Færð spilltist víða.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík mældist 0,2 stig, -0,9 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 og -2,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,2 stig, -0,8 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 og -2,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,0 stig og 0,8 stig á Höfn.
stöð | meðalhiti °C | vik 1961-1990 | röð | af | vik 2007-2016 °C |
Reykjavík | 0,2 | -0,9 | 120 | 147 | -2,6 |
Stykkishólmur | 0,0 | -0,9 | 129 til 133 | 172 | -2,3 |
Bolungarvík | 0,2 | -0,6 | 90 | 120 | -1,6 |
Grímsey | 1,3 | 0,7 | 56 til 59 | 144 | -0,9 |
Akureyri | -1,2 | -0,8 | 104 | 137 | -2,3 |
Egilsstaðir | -0,6 | 0,1 | 39 | 63 | -1,7 |
Dalatangi | 2,0 | 0,2 | 52 | 80 | -1,4 |
Teigarhorn | 1,4 | 0,1 | 88 til 92 | 145 | -1,6 |
Höfn í Hornaf. | 0,8 | -2,3 | |||
Stórhöfði | 1,3 | -1,1 | 120 | 140 | -2,6 |
Hveravellir | -6,5 | -1,7 | 49 | 53 | -3,5 |
Árnes | -3,2 | -2,9 | 133 | 138 | -4,5 |
Kalt var á öllu landinu í nóvember og var mánuðurinn víða sá kaldasti á árinu til þessa. Að tiltölu var kaldast í innsveitum sunnanlands, neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var til að mynda -4,5 stig á Árnesi og -4,4 stig í Hjarðalandi. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Veiðivatnahrauni, -4,6 stig. Að tiltölu var hlýjast á útnesjum norðaustanlands, minnsta hitavikið miðað við síðustu tíu ár var -0,9 stig á Fonti.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Garðskagavita, 2,8 stig. Lægstur var hann á Veiðvatnahrauni, -7,4 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -4,8 stig.
Mest frost í mánuðinum mældist -21,3 stig í Þúfuveri þ. 10. Mest frost í byggð mældist -17,6 stig, þ. 18. í Árnesi og svo aftur þ. 20. á Grímsstöðum í Fjöllum. Hæsti hiti mánaðarins mældist 12,8 stig á Dalatanga þ. 1.
Úrkoma
Úrkoma í Reykavík mældist 91,5 mm og er það 26% umfram meðallag áranna 1961 til 1990 en rétt yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældist úrkoman 93,5 mm og er það 72% yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og um 20 % yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mikill meirihluti úrkomunnar á Akureyri féll sem snjór eða 91%. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 45,0 mm og 83,0 í Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 12, einum færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 10 daga sem er einum degi færri en í meðalári.
Snjór
Snjór var með meira móti norðan og austanlands. Alhvítt var 17 morgna í Reykjavík, 10 fleiri en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 13, 2 færri en að meðaltali sama tímabils. Mesta snjódýpt á Akureyri mældist 59 cm, þ. 25.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 45,1 sem er um 6,5 stundum fleiri en að meðallagi í nóvember. Á Akureyri mældust 21,2 sólskinstundir, 6,9 fleiri en í meðalári.
Vindur
Vindhraði á landsvísu var nærri meðallagi síðustu tíu ára á sjálfvirku stöðvunum. Norðlægar áttir voru ríkjandi. Suðaustanillviðri gekk yfir að kvöldi þess 5. og norðanhvassviðri gekk yfir landið dagana 21. til 24.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1010,0 hPa sem er 5,9 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti þrýstingur í mánuðinum mældist 1032,4 hPa á Reykjavíkurflugvelli þ. 28. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 975,3 hPa á Gufuskálum þ. 6.
Haustið (október og nóvember)
Meðalhiti haustsins í Reykjavík var 3,6 stig. Það er 0,8 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti haustsins 2,5 stig, 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Mikill munur var á mánuðunum tveimur þar sem október var óvenju hlýr en nóvember óvenju kaldur.
Samanlögð úrkoma október og nóvembermánaða í Reykjavík mældis 133,6 mm sem er 84% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoma haustsins 147,7 mm sem er 31% umfram meðallag áranna 1961-1990.
Fyrstu 11 mánuðir ársins
Fyrstu 11 mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Kaldur nóvember breytir þar litlu, þar sem flestir aðrir mánuðir ársins hafa verið hlýir. Þar munar mest um febrúar, maí, september og október sem voru sérlega hlýir. Í Reykjavík var hiti 1,4 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en 0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Reykjavík eru mánuðirnir ellefu í 10. hlýjasta sæti frá upphafi samfelldra mælinga. Á Akureyri var hiti 1,8 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 fyrstu ellefu mánuði ársins og 0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þessi hiti er í 5. sæti af 136 á Akureyri. Úrkoma í Reykjavík hefur verið 16% umfram meðallag áranna 1961 til 1990 og 26% umfram meðallag á Akureyri.
Skjöl fyrir nóvember
Meðalhiti
á sjálfvirkum veðurstöðvum í nóvember
2017
(textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnumveðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.