Fréttir

Tíðarfar í mars 2022

Stutt yfirlit

4.4.2022


Mars var hlýr um mestallt land. Það var óvenju úrkomusamt á Suður-, Suðaustur- og Vesturlandi og mældist úrkoman þar víða með því mesta sem vitað er um í mars. Suðlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Það var umhleypinga- og illviðrasamt fram eftir mánuðinum. Víða myndaðist mikill vatnselgur í kjölfar leysinga eftir kaldar og snjóþungar vikur.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í mars var 2,5 stig og er það 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,7 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 1,9 stig, 1,9 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 1,0 stig og 3,1 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2012-2021 °C
Reykjavík 2,5 1,3 28 152 0,7
Stykkishólmur 1,0 0,7 41 177 0,0
Bolungarvík 0,4 0,9 32 125 0,1
Grímsey 0,9 1,2 23 149 0,3
Akureyri 1,9 1,9 18 142 1,2
Egilsstaðir 1,9 2,1 12 til 13 68 1,3
Dalatangi 2,9 1,7 11 84 0,8
Teigarhorn 2,4 1,1 25 til 28 150 0,4
Höfn í Hornaf. 3,1


0,7
Stórhöfði 3,6 1,4 22 145 1,0
Hveravellir -2,8 2,2 7 58 1,5
Árnes 1,8 1,8 21 143 1,2

Meðalhiti og vik (°C) í mars 2022

Mars var hlýr um mestallt land. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðausturlandi, Suðurlandi og inná hálendi. Kaldara var að tiltölu á Vestfjörðum og á Snæfellsnesi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,9 stig við Mývatn. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,4 stig á Reykhólum.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í mars miðað við síðustu tíu ár (2012-2021).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 4,6 stig í Surtsey en lægstur -5,1 stig á Þverfjalli. Í byggð var meðalhitinn lægstur -1,9 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 18,6 stig á Kvískerjum þ. 26. Mest frost í mánuðinum mældist -16,6 stig á Kárahnjúkum þ. 14. Í byggð mældist frostið mest -15,3 stig í Svartárkoti þ. 2.

Úrkoma

Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur á Suður-, Suðaustur- og Vesturlandi og mældist úrkoman þar víða með því mesta sem vitað er um í mars.

Úrkoma í Reykjavík mældist 209,5 mm sem er nærri þrefalt meira en meðalúrkoma áranna 1991 til 2020. Þetta er úrkomusamasti marsmánuður í Reykjavík frá upphafi mælinga. Næstmesta marsúrkoma sem vitað er um í Reykjavík mældist 183,2 mm árið 1923. Úrkoma hefur aðeins fjórum sinnum mælst meiri í einum mánuði í Reykjavík. Það var í nóvember 1993 (259,7 mm), febrúar 1921 (242,3 mm ), janúar 1907 (218,6 mm) og í nóvember 1958 (212,1 mm). Auk þess voru janúar 1842 og desember 1843 mjög úrkomusamir en nokkur óvissa er um þær mælingar.

Á Akureyri mældist úrkoman 46,5 mm sem er rétt undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 161,0 mm og 243,8 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 23, níu fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 12 daga mánaðarins, þremur fleiri en í meðalári.

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 14, fimm fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 11, fimm færri en að meðaltali 1991 til 2020.

Sólskinsstundafjöldi

Mars var þungbúinn í Reykjavík, sólskinsstundir mældust aðeins 68,5 sem er 41,8 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var sólríkara, þar mældust sólskinsstundirnar 112,1 sem er 34,3 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundir í marsmánuði hafa ekki mælst eins margar á Akureyri síðan í mars 1996.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,1 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sunnanáttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvassast var þ. 14. (sunnanátt) og þ. 17. (suðvestanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1003,5 hPa og er það 0,3 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1032,6 hPa í Húsavík og Grímsey þ. 28. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 960,2 hPa á Höfn í Hornafirði þ. 9.

Fyrstu þrír mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði ársins var 0,8 stig sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020, en -0,6 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 44. til 45. sæti á lista 152 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja -0,2 stig. Það er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 32.sæti á lista 142 ára. Það hefur verið mjög úrkomusamt það sem af er ári í Reykjavík. Heildarúrkoma mánaðanna þriggja var 465,3 mm sem er 80% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoman hefur aldrei mælst meiri þessa fyrstu þrjá mánuði ársins í Reykjavík frá upphafi mælinga. Á Akureyri hefur heildarúrkoma mánaðanna fjögurra mælst 184,3 mm sem er 15% umfram meðallag.

Veturinn (desember 2021 til mars 2022)

Veturinn 2021 til 2022 var illviðrasamur, þá sérstaklega frá janúar yfir í miðjan mars. Desember var aftur á móti óvenju hægviðrasamur og tíð góð. Það var óvenju úrkomusamt sunnan- og vestanlands og víða var veturinn sá úrkomusamasti sem vitað er um. Það var tiltölulega snjólétt fram eftir vetri en töluverð snjóþyngsli voru á landinu frá byrjun febrúar og fram í mars. Samgöngur riðluðust margoft bæði vegna illviðra og snjóþyngsla. Nokkur slæm óveður gengu yfir landið og ollu töluverðu tjóni víða um land, þau verstu þ. 7. febrúar og dagana 21. til 22. febrúar.

Meðalhiti í Reykjavík í vetur var 1,0 stig og er það 0,2 stigum ofan meðallags sömu mánaða 1991 til 2020, en -0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Veturinn var í 34. til 35. sæti yfir hlýjustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871. Á Akureyri var meðalhitinn -0,5 stig sem er  jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020 en -0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var veturinn í 37. til 38. hlýjasta sæti frá upphafi mælinga.

Veturinn var óvenju úrkomusamur í Reykjavík. Úrkoman mældist 557,5 mm sem er um 60% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Veturinn er sá úrkomusamasti sem vitað er um í Reykjavík, næstúrkomusamastur er veturinn 1920 til 1921 þegar úrkoman mældist 543,6 mm. Á Akureyri mældist heildarúrkoma vetrarins 231,1 mm sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020.

Í Reykjavík voru alhvítir dagar í vetrarmánuðunum fjórum 49, 4 fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Veturinn var tiltölulega snjóléttur fram í byrjun febrúar en óvenju snjóþungt var á tímabilinu frá 8.febrúar til 8.mars. Á Akureyri voru alhvítir dagar 60, 12 færri en að meðaltali 1991 til 2020.

Athugasemdir

Þess má geta að hitamælirinn í Reykjavík var bilaður frá 26.febrúar til 24.mars og tölurnar sem birtust á vefnum þá daga voru rangar. Hitinn mældist aðeins of lágur miðað við aðra hitamæla á sama stað. Mælirinn var lagaður þ. 24. mars og hefur hitinn fyrir þann tíma nú verið leiðréttur í samræmi við nærliggjandi mæla.

Skjöl fyrir mars

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

 
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica