Tíðarfar í mars 2020
Stutt yfirlit
Mars var fremur kaldur og tíð óhagstæð. Vindhraði var vel yfir meðallagi, illlviðri tíð og töluverðar truflanir voru á samgöngum. Mjög snjóþungt var um landið norðan- og austanvert og á Vestfjörðum.Hiti
Meðalhiti í Reykjavík mældist 0,4 stig, -0,1 stigi neðan meðallags áranna 1961 til 1990 en -1,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,4 stig, 0,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -0,3 stig og 1,3 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1961-1990 °C | röð | af | vik 2010-2019 °C |
Reykjavík | 0,4 | -0,1 | 82 | 150 | -1,5 |
Stykkishólmur | -0,3 | 0,5 | 74 | 175 | -1,3 |
Bolungarvík | -1,0 | 0,6 | 62 | 123 | -1,2 |
Grímsey | -0,4 | 1,4 | 45 til 46 | 147 | -0,8 |
Akureyri | -0,4 | 0,9 | 55 | 140 | -0,9 |
Egilsstaðir | -0,8 | 0,7 | 35 | 66 | -1,2 |
Dalatangi | 1,9 | 1,8 | 27 | 82 | 0,0 |
Teigarhorn | 1,2 | 0,8 | 59 | 148 | -0,7 |
Höfn í Hornaf. | 1,3 | -1,1 | |||
Stórhöfði | 1,8 | 0,1 | 71 til 72 | 144 | -1,0 |
Hveravellir | -5,8 | 0,1 | 33 | 56 | -1,6 |
Árnes | -1,1 | -0,4 | 84 | 141 | -1,8 |
Meðalhiti og vik (°C) í mars 2020
Mars var kaldur og
hiti undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu öllu. Að tiltölu var hlýjast við
austurströndina en að tiltölu kaldast inn til landsins suðvestanlands. Neikvætt
hitavik miðað við síðustu tíu ár var minnst -0,2 stig í Seley en mest -2,3 stig
í Þúfuveri.
Hitavik sjálfvirkra stöðva í mars miðað við síðustu tíu ár (2010–2019).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 2,9 stig. Lægstur var hann við Sátu -7,0 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -4,9 stig.
Mest frost í mánuðinum mældist -28,3 stig á Setri þ. 7. Mest frost í byggð mældist -23,9 stig í Svartárkoti þ. 7. Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,9 stig á Höfn í Hornafirði þ. 29.
Úrkoma
í Reykjavík mældist 86,7 mm sem er 6% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 57,9 mm sem er 33% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Úrkoma í Stykkishómi mældist 82,8 mm og 87,7 mm á Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 14, jafnmargir og í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 14 daga, fjórum fleiri en í meðalári.
Snjór
Mjög snjóþungt var um landið norðan- og austanvert og á Vestfjörðum í mánuðinum.
Alhvítir dagar í Reykjavík voru 16, fjórir fleiri en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri var alhvítt alla daga nema þann síðasta, þá var flekkótt. Það er 14 dögum fleiri en að meðaltali 1971 til 2000 og það mesta síðan í mars 2014. Á Akureyri var snjódýptin mest 77 cm dagana 19. til 20.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 113,9, sem er 2,8 stundum fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 102,5, sem er 25,7 stundum fleiri en í meðalári.
Vindur
Meðalvindhraði á landsvísu var mikill, eða um 1,2 m/s yfir meðallagi. Meðalvindhraði í mars hefur ekki verið eins hár síðan í mars árið 2000. Illviðri voru tíð og töluverðar truflanir voru á samgöngum í mánuðinum, sérstaklega í þeim landshlutum þar sem snjór var mikill. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi fyrri hluta mánaðarins en suðvestlægar áttir í seinni hlutanum. Hvassast var á landinu dagana 1. til 2. (austanátt), 10. til 11. (norðaustanátt), 22. til 23. (sunnanátt) og 30. til 31. (suðvestanátt) .
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1001,2 hPa sem er 1,9 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Loftþrýstingur var óvenjuhár á landinu þ. 28. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1050,5 hPa á Hjarðarlandi þann dag. Þetta er hæsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu frá 16.apríl 1991, en þá mældist hann 1050,8 hPa á Egilsstöðum. Þetta er líka næsthæsti þrýstingur sem mælst hefur í marsmánuði hér á landi, þann 6. árið 1883 fór þrýstingur í 1051,7 hPa í Vestmannaeyjakaupstað. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 960,0 hPa á Gufuskálum þ. 23.
Fyrstu þrír mánuðir ársins
Meðalhiti í
Reykjavík var 0,3 stig sem er 0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en
-1,2 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 57. sæti á
lista 150 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja -0.8 stig. Það er 0,9
stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, -0,9 stigum neðan meðallags síðustu
tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 49. sæti á lista 140 ára. Úrkoma hefur verið 16%
umfram meðallag í Reyjavík, en um 55% umfram meðallag á Akureyri.
Veturinn (desember 2019 til mars 2020)
Veturinn 2019 til 2020 var illviðrasamur. Meðalvindhraði var meiri en vant er og loftþrýstingur lægri. Illviðri voru mjög tíð og miklar samgöngutruflanir voru vegna óveðurs og mikil fannfergis. Veturinn var mjög snjóþungur norðan- og austanlands og á Vestfjörðum. Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri og eitt í Súgandafirði þ. 14.janúar.
Tvö mjög slæm óveður gengu yfir landið í vetur og ollu miklu tjóni. Það fyrra var mikið norðanóveður sem gekk yfir landið dagana 10. til 11. desember sem olli miklu tjóni. Verst var veðrið á Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Mikil ísing og fannfergi fylgdu óveðrinu sem olli því að hundrað hross fennti í kaf, skemmdir urðu á rafmagnslínum með tilheyrandi rafmagnstruflunum og mikil röskun varð á samgöngum. Það seinna var mikið austanveður sem gekk yfir landið þ. 14. febrúar og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Mikið tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu þar sem veðrið var einna verst.
Meðalhiti í Reykjavík í vetur var 0,4 stig og er það 0,3 stigum ofan meðallags sömu mánaða 1961 til 1990, en -0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Veturinn var í 50. sæti yfir hlýjustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871. Á Akureyri var meðalhitinn -0,7 stig sem er 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var veturinn í 43. til 44. hlýjasta sæti frá upphafi mælinga.
Veturinn var mjög úrkomusamur á Akureyri. Úrkoma mældist 409,5 mm sem er rúmlega helmingi meiri en meðalúrkoma áranna 1961 til 1990. Vetrarúrkoman hefur aðeins einu sinni verið meiri á Akureyri, það var veturinn 1988 til 1989. Í Reykjavík mældist úrkoman 338,0 mm sem er 10% umfram meðallag í Reykjavík.
Alhvítir dagar í vetrarmánuðunum fjórum voru 62 í Reykjavík, 11 fleiri en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítir dagar 109, 32 fleiri en að meðaltali.
Skjöl fyrir mars
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2020
(textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstakatöflu.