Tíðarfar í maí 2024
Stutt yfirlit
Maí var tiltölulega hlýr, sérstaklega á norðaustan- og austanverðu landinu. Þar var sólríkt og þurrt. Það var tiltölulega kaldara og úrkomusamara suðvestan- og vestanlands.Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í maí var 6,9 stig. Það er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 7,8 stig, 1,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 6,4 stig og 7,7 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi
töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2014-2023 °C |
Reykjavík | 6,9 | 0,2 | 48 til 50 | 154 | 0,1 |
Stykkishólmur | 6,4 | 0,7 | 29 | 179 | 0,5 |
Bolungarvík | 5,7 | 1,0 | 23 | 127 | 0,7 |
Grímsey | 4,7 | 1,1 | 19 | 151 | 0,6 |
Akureyri | 7,8 | 1,6 | 16 til 17 | 144 | 1,2 |
Egilsstaðir | 7,6 | 2,1 | 4 til 5 | 70 | 1,8 |
Dalatangi | 5,7 | 1,4 | 9 | 86 | 1,2 |
Teigarhorn | 6,4 | 1,1 | 15 | 152 | 1,0 |
Höfn í Hornaf. | 7,7 | 1,3 | |||
Stórhöfði | 6,7 | 0,5 | 35 | 148 | 0,6 |
Hveravellir | 2,0 | 0,4 | 18 til 19 | 60 | 0,6 |
Árnes | 6,7 | 0,2 | 51 | 145 | 0,2 |
Meðalhiti og vik (°C) í maí 2024
Maí var tiltölulega hlýr og var
hiti yfir meðallagi á langflestum veðurstöðvum. Að tiltölu var hlýjast á
Norðaustur- og Austurlandi en kaldara á Suðvestur- og Vesturlandi. Jákvætt
hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 2,4 stig á Gagnheiði. Neikvætt
hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,1 stig á Þingvöllum og Bláfeldi á
sunnanverðu Snæfellsnesi.
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í maí miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur við Skarðsfjöruvita, 8,5 stig. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli, 0,2 stig. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 3,8 stig á Fonti á Langanesi.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,5 stig á Mánárbakka og Húsavík þ. 25. Mest frost í mánuðinum mældist -10,2 stig á Setri þ. 1. Mest frost í byggð mældist -6,9 stig á Þingvöllum þ. 9.
Úrkoma
Maí var blautur á suðvestan- og vestanverðu landinu en þurr norðaustan- og austanlands.
Úrkoma í Reykjavík mældist 73,3 mm sem er 40% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 13,0 mm sem er um 55% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Það var óvenjulega úrkomusamt í Stykkishólmi í maí. Þar mældist úrkoman 112,5 mm sem er nærri þrefalt meira en í meðalári og þriðja mesta maíúrkoma sem mælst hefur í Stykkishólmi frá upphafi mælinga. Álíka mikil úrkoma mældist í maí 2018 (113,2 mm), en mest mældist hún í maí 1875 (132,0 mm). Í Stykkishólmi var sólarhringsúrkoman þ. 25. skráð 39 mm sem er það mesta sem mælst hefur þar á einum sólarhring í maímánuði. Óvenju mikil úrkoma mældist líka í Grundarfirði og Ólafsvík þennan sólarhring.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 16 sem er 6 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 4 daga sem er einum færri en í meðalári.
Snjór
Jörð var alauð alla morgna í maí í Reykjavík. Á Akureyri var flekkótt jörð fyrstu tvo daga mánaðarins, en aðra daga var hún auð.
Sólskinsstundafjöldi
Það var sérlega sólríkt á Akureyri í maí. Sólskinsstundirnar mældust 252,5, sem er 81,5 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Sólskinsstundirnar hafa aðeins þrisvar sinnum mælst fleiri á Akureyri í maímánuði, en það var árin 1968 (290,8), 2012 (287,4) og 1975 (259,4). Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 145,3 í maí, sem er 63,7 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Vindur
Vindur á landsvísu var undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sunnanáttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvassast var þ. 24. (suðaustanátt).
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1010,4 hPa og er það 2,6 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1024,6 hPa á Kambanesi þ. 2. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 995,6 hPa á Gufuskálum þ. 20.
Fyrstu fimm mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins var 2,1 stig sem er 0,4 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti fyrstu fimm mánaða ársins raðast í 59. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna fimm 0,8 stig sem er 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn þar raðast í 64. hlýjasta sæti á lista 144 ára.
Heildarúrkoma í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins mældist 294,3 mm sem er
um 80% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma
mánaðanna fimm 241,8 mm sem er 15% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Vorið (apríl og maí)
Meðalhiti vorsins var nálægt meðallagi áranna 1991 til 2020. Hann var 0,2 stigum undir í Reykjavík, 0,1 stigi undir á Akureyri, 0,1 stigi undir í Stykkishólmi og 0,1 stigi yfir á Egilsstöðum. Apríl var kaldur en maí hlýr og því endaði meðalhitinn mjög nálægt meðallagi.
Apríl var óvenju sólríkur og þurr suðvestanlands en blautari norðaustanlands. Í maí var aftur á móti óvenjusólríkt og tiltölulega þurrt á norðan- og austanverðu landinu en blautara á Suður- og Vesturlandi.
Í Reykjavík var heildarúrkoma vorsins um 85% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var heildarúrkoma vorsins um 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Skjöl fyrir maí
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2024
(textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.