Tíðarfar í maí 2023
Stutt yfirlit
Maí var hlýrri en að meðallagi um allt land, sérstaklega á norðaustan- og austanverðu landinu. Það var sólríkt og þurrt á Norðaustur- og Austurlandi en óvenju þungbúið og úrkomusamt á vestanverðu landinu. Aldrei hafa mælst eins fáar sólskinsstundir í maímánuði í Reykjavík og þar mældist meira en tvöföld meðalmaíúrkoma. Nokkuð var um hvassviðri síðari hluta mánaðar, en þá voru suðvestlægar áttir ríkjandi.
Hiti
Meðalhiti maímánaðar var 6,9 stig í Reykjavík. Það er 0,2 stigum yfir meðallagi tímabilanna 1991 til 2020 og 2013 til 2022. Á Akureyri var meðalhitinn 8,0 stig sem er 1,9 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,7 stigi yfir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhiti mánaðarins var 6,2 stig í Stykkishólmi og 7,4 stig á Höfn í Hornafirði. Mánuðurinn var hlýr á Austurlandi, en á Egilsstöðum var maí sá næsthlýjasti frá upphafi mælinga.
Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.
Meðalhiti (t) í maí 2023 á nokkrum stöðvum. Einnig má sjá vik miðað við meðalhita maímánaðar 1991 til 2020 (vik 30) annars vegar og 2013 til 2022 (vik 10) hins vegar í °C, ásamt röðun meðalhita mánaðarins í samanburði við aðra maímánuði frá því að mælingar hófust.
stöð | t | vik 30 | röð | af | vik 10 |
Reykjavík | 6,9 | 0,2 | 48 til 49 | 153 | 0,2 |
Stykkishólmur | 6,2 | 0,6 | 34 | 178 | 0,5 |
Bolungarvík | 5,6 | 0,9 | 24 til 25 | 126 | 0,8 |
Grímsey | 4,9 | 1,2 | 14 | 150 | 0,8 |
Akureyri | 8 | 1,9 | 11 | 143 | 1,7 |
Egilsstaðir | 8,1 | 2,6 | 2 | 69 | 2,6 |
Dalatangi | 6,1 | 1,9 | 4 | 86 | 1,9 |
Teigarhorn | 6,6 | 1,4 | 8 | 151 | 1,4 |
Höfn í Hornaf. | 7,4 | 1,2 | |||
Stórhöfði | 6,5 | 0,3 | 44 til 45 | 147 | 0,5 |
Hveravellir | 2,6 | 1,6 | 7 | 59 | 1,1 |
Árnes | 6,9 | 0,4 | 42 | 143 | 0,5 |
Maí var hlýr um allt land, en hitavik nýliðins mánaðar miðað við maímánuði undanfarinna tíu ára var jákvætt á öllum veðurstöðvum landsins nema Garðskagavita. Að tiltölu var hlýjast á landinu norðaustan- og austanverðu, einkum inn til landsins. Mest var hitavikið 3,3 stig á Brúaröræfum en hitavikið var -0,1 stig á Garðskagavita.
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í maí miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).
Meðalhiti mánaðarins mældist hæstur 8,3 stig á Hallormsstað en lægstur 0,3 stig á Þverfjalli. Lægsti mánaðarmeðalhiti í byggð mældist 4,0 stig á Fonti á Langanesi.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 22,0 stig á Kvískerjum þ. 30. en lægstur mældist hitinn -13,2 stig við Setur þ. 16. Lægsti mældi hiti í byggð var -10,2 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 16.
Úrkoma
Úrkomusamt var á vestari helmingi landsins og var mánuðurinn víða á meðal blautustu maímánuða frá upphafi mælinga. Þurrara var á Norðaustur- og Austurlandi, en t.a.m. hefur ekki mælst jafn lítil úrkoma á Skjaldþingsstöðum í maí frá upphafi mælinga þar um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.
Heildarúrkoma mánaðarins mældist 120,5 mm í Reykjavík sem er meira en tvöföld meðalúrkoma maímánaða árin 1991 til 2020. Maíúrkoma hefur aðeins þrisvar sinnum mælst meiri í höfuðborginni, úrkomusamast var árið 2018 þegar úrkoman mældist 128,8 mm. Á Akureyri mældist mánaðarúrkoman hins vegar aðeins 14,2 mm, eða sem nemur um 60% meðallags maíúrkomu tímabilsins 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældust 83,6 mm sem er u.þ.b. tvöföld meðallagsúrkoma. Þar hefur aðeins fjórum sinnum mælst meiri úrkoma í maí frá upphafi mælinga árið 1857.
Fjöldi daga þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri var 24 í Reykjavík sem er 14 dögum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist svo mikil úrkoma 6 daga mánaðarins, eða einum degi oftar en að meðallagi. Í Stykkishólmi mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 16 daga mánaðarins, eða helmingi oftar en í meðalmaímánuði.
Snjór
Jörð var alauð alla morgna mánaðarins bæði í Reykjavík og á Akureyri.
Sólskinsstundafjöldi
Í Reykjavík mældust 95,9 sólskinsstundir í mánuðinum, en þær hafa aldrei mælst eins fáar frá upphafi mælinga árið 1911. Fjöldi sólskinsstunda í höfuðborginni þennan maímánuðinn náði einungis um 46% meðallags tímabilsins 1991 til 2020, en hann var 113,1 stund undir því. Hins vegar var mánuðurinn sólríkur á Akureyri, en þar mældust 202,3 sólskinsstundir sem er 31,3 stundum yfir meðallagi.
Vindur
Vindur á landsvísu var 0,7 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Umhleypingasamt var á landinu síðari hluta mánaðar og féllu tíu mínútna meðalvindhraðamet maímánaðar allnokkurra sjálfvirkra veðurstöðva í mánuðinum, en margar eiga þær yfir 20 ára mælisögu. Eins mældust mestu hviður sem mælst hafa í maí á sumum sjálfvirkum veðurstöðvum í nýliðnum mánuði. Suðvestlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum, sérstaklega síðari hluta mánaðar. Hvassast var 20. (suðvestlæg átt), 23. (suðvestlæg átt) og 24. (suðlæg átt) daga mánaðarins.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1010,5 hPa, en það er 2,5 hPa undir meðallagi maímánaða áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1034,8 hPa á Kambanesi þ. 3. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 977,2 í Bolungarvík þ.23.
Fyrstu fimm mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins mældist 2,2 stig, eða 0,4 stigum undir meðallagi fyrstu fimm mánaða áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn í Reykjavík það sem af er ári raðast í 58. sæti á lista 153 ára. Á Akureyri mældist meðalhiti janúar til maí 1,7 stig sem er 0,3 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020. Meðalhiti mánaðanna fimm á Akureyri raðast í 33. sæti á lista 143 ára.
Heildarúrkoma ársins hingað til mældist 428,0 mm í Reykjavík, en það er um 16% yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoman 167,3 mm, eða um 80% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Vorið (apríl og maí)
Vorið var hlýtt um allt land. Úrkomusamt var í Reykjavík en þurrt og sólríkt á Akureyri. Vorúrkoma í Reykjavík mældist 207,5 mm sem er um 90% umfram meðalvorúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 35,9 mm þetta vorið, eða um 70% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Skjöl fyrir maí
Meðalhiti
á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2023 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.