Tíðarfar í maí 2019
Stutt yfirlit
Maí var nokkuð hlýr og sólríkur um vestanvert landið á meðan svalara var norðan- og austanlands. Þurrt var um allt land. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi. Loftþrýstingur var óvenju hár í mánuðinum.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í maí var 7,7 stig og er það 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,9 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 5,9 stig, 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 6,1 stig og 5,5 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1961-1990 °C | röð | af | vik 2009-2018 °C |
Reykjavík | 7,7 | 1,4 | 22 | 149 | 0,9 |
Stykkishólmur | 6,1 | 1,2 | 40 | 174 | 0,2 |
Bolungarvík | 5,2 | 1,3 | 35 | 122 | 0,2 |
Grímsey | 3,6 | 0,8 | 50 til 51 | 146 | -0,6 |
Akureyri | 5,9 | 0,4 | 64 til 65 | 139 | -0,6 |
Egilsstaðir | 4,5 | -0,4 | 43 til 44 | 65 | -1,3 |
Dalatangi | 3,6 | 0,3 | 51 til 52 | 81 | -0,9 |
Teigarhorn | 4,6 | 0,1 | 74 til 77 | 147 | -0,9 |
Höfn í Hornaf. | 5,5 | -1,1 | |||
Stórhöfði | 6,1 | 0,2 | 67 | 142 | -0,2 |
Hveravellir | 3,0 | 2,4 | 5 | 55 | 1,2 |
Árnes | 7,2 | 1,1 | 31 | 140 | 0,7 |
Meðalhiti og vik (°C) í maí 2019
Maí var hlýr að tiltölu um vestanvert landið og inná miðhálendi á meðan svalara var norðan- og austanlands. Maí var kaldari en apríl mjög víða á Norður- og Austurlandi. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Þar má sjá hve skörp skil voru á milli landshluta í maí. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 2,2 stig á Setri en neikvætt hitavik var mest á Gagnheiði, -1,4 stig.
Hitavik sjálfvirkra stöðva í maí miðað við síðustu tíu ár (2009-2018).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 7,9 stig við Blikdalsá á Kjalarnesi og við Þyril í Hvalfirði. Lægstur var meðalhitinn -2,3 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 2,5 stig á Fonti á Langanesi.
Mest frost í mánuðinum mældist -10,2 stig á Ásgarðsfjalli í Kerlingafjöllum þ. 11. Mest frost í byggð mældist -8,8 stig í Svartárkoti þ. 10. Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,6 stig í Ásbyrgi þ. 17.
Úrkoma
Mánuðurinn var þurr um land allt.
Úrkoma í Reykjavík mældist 34,0 mm sem er um 75% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 12,1 mm sem er um 60% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 27,2 mm.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9, einum færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 4 daga sem er einum færri en í meðalári.
Snjór
Einhvað snjóaði um landið norðan- og austanvert í mánuðinum, en jörð var þó aldrei alhvít á Akureyri. Alautt var í Reykjavík allan mánuðinn.
Sólskinsstundafjöldi
Sólríkt var suðvestanlands í maí. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 236,8 sem er 44,8 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 157,4 sem er 16 stundum færri en að meðaltali 1961 til 1990.
Vindur
Vindur á landsvísu var 0,2 m/s yfir meðallagi. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi allan mánuðinn að nokkrum dögum undanskildum um miðbik mánaðarins þegar áttin var suðaustlæg.
Loftþrýstingur
Loftþrýstingur var óvenju hár í mánuðinum. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1020,2 hPa og er það 7,8 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Mánaðarþrýstimeðaltal hefur ekki verið eins hátt síðan í febrúar 1986 og ekki í maí síðan 1975, en þá var það jafnt meðaltalinu nú.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins
mældist 1036,7 hPa í Grímsey þ. 3. Lægstur mældist
loftþrýstingurinn 1008,6 hPa í Grindavík þ. 13 og er það
óvenju hár lágmarksþrýstingur. Lágmarksþrýstingurinn hefur
aldrei verið eins hár í maímánuði (ámóta þó 1838 og 1843).
Fyrstu fimm mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins var 3,4 stig sem er 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 10. sæti á lista 149 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna fimm 2,2 stig. Það er 1,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 17. sæti á lista 139 ára. Úrkoman hefur verið 15% umfram meðallag í Reykjavík, en 10% umfram meðallag á Akureyri.
Vorið (apríl og maí)
Vorið var mjög hlýtt og tíð hagstæð. Þar munaði mestu um óvenju hlýjan apríl. Gróður fór snemma af stað.
Hiti var vel yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og síðustu tíu ára (í sviga). Hann var +2,5 stigum yfir í Reykjavík (+1,8), +2,8 stigum yfir á Akureyri ( +1,8 ), 2,7 stigum yfir í Stykkishólmi (+1,6 ) og + 2,0 yfir á Egilsstöðum (+1,0).
Vorið var það næsthlýjasta frá upphafi mælinga í Reykjavík, Stykkishólmi og á Akureyri, vorið 1974 var hlýrra á þessum stöðum. Á Egilsstöðum var vorið það níunda hlýjasta.
Í Reykjavík var úrkoman um 15% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi var úrkoman um 85% af meðalúrkomu. Þurrt var á Akureyri. Úrkoman þar var um 40% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990, sú minnsta síðan 1997.
Skjöl fyrir maí
Meðalhiti
á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2019 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.